27.04.1979
Neðri deild: 78. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4262 í B-deild Alþingistíðinda. (3369)

70. mál, veðdeild Búnaðarbanka Íslands

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Við höfum heyrt rödd hins góða hirðis. Hv. 2. landsk. þm. hefur tekið til máls um þetta frv. Það er að vísu alltaf ánægjulegt þegar raddir heyrast í þingsölum þar sem hvatt er til góðrar hirðu um opinbera fjármuni. Þetta eru vissulega sjálfsagðar aths. á öllum tímum og mjög oft fram bornar af fyllstu ástæðu. En sannleikurinn er sá með veðdeild Búnaðarbanka Íslands, að hún hefur langtímum saman verið hálfgerð hornreka. Hún hefur lifað og starfað í skjóli bankans. Þar hefur oft orðið að hlaupa undir bagga. Þeir, sem henni hafa stjórnað, hafa séð hvert stefndi. En satt að segja hafa stjórnvöld ekki verið mjög skilningsrík á þarfir og tilveru veðdeildarinnar. Það sést á því, að þegar loksins er tekið til höndum og ákvæði laga um veðdeildina endurskoðuð og færð í nútímahorf tekur það svo langan tíma að breyta verður ártölum í frv. þegar loksins stendur til að gera það að lögum. Ég held að við ættum þess vegna, þær fáu hræður sem hér eru inni, að fagna því að þetta mál loksins sér til lands. Og við skulum vona að á þann veg verði málefni deildarinnar leyst, a. m. k. að nokkru leyti. Það er erfitt að sjá inn í framtíðina. Það hefur mörgum reynst erfitt. En við skulum vona að þetta frv., þó seint sé á ferðinni, leysi hinn brýnasta vanda þannig að framtíð veðdeildarinnar sé a. m. k. tryggð að því marki sem það segir til um.