30.04.1979
Sameinað þing: 86. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4265 í B-deild Alþingistíðinda. (3375)

Heimastjórn á Grænlandi

Forseti (Gils Guðmundsson):

Áður en gengið er til dagskrár þykir mér hlýða að skýra frá eftirfarandi: Um þessar mundir eru mikilvæg tímamót í sögu næstu nágranna okkar í vestri, Grænlendinga. Á morgun, 1. maí, hefst heimastjórn á Grænlandi. Landsstjórn Grænlendinga sjálfra tekur þá til starfa og landsþing þeirra verður sett í fyrsta sinn. Í tilefni þessa merkisatburðar í sögu hinnar grænlensku þjóðar hafa forsetar Alþingis samþykkt að senda landsþingi Grænlendinga árnaðaróskir Alþingis og boð um að hingað komi þingmannasendinefnd af Grænlendinga hálfu þegar vel hentar báðum aðilum.

Ég tel óþarft að fjölyrða um þessa ákvörðun, en er þess fullviss að ég mæli fyrir munn allra hv. alþm. þegar ég læt þá ósk og von í ljós, að heimastjórn og störf þjóðþings megi verða Grænlendingum til farsældar.