30.04.1979
Efri deild: 85. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4284 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð.

Ég vildi fyrst í tilefni af ræðu hv. 3. þm. Austurl. undirstrika það, sem ég sagði í framsöguræðu minni, að aðalatriði þessa máls væru þau alvarlegu félagslegu vandamál sem fylgja því ástandi sem nú ríkir í hinum svokölluðu bruggunarmálum. Ég vil enn fremur benda á að hann tilgreindi álit Áfengisvarnaráðs. Það gæti flýtt afgreiðslu málsins í hv. þn. að þurfa ekki að kalla þá aðila fyrir sig, heldur hafa afstöðu þeirra þegar í þskj.

Í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e. kom fram að þessi iðnaður væri heimilisiðnaður og ánægjuefni fyrir marga. Það kann að vera rétt. En hann er ekki ánægjuefni fyrir alla, það vil ég segja og þekki dæmi þess. Því miður kunna menn ekki sæmilega með þessi mál að fara, nema sumir. Við fetum í raun og veru í fótspor bræðraþjóða okkar á Norðurlöndum í þessum málum. Þar eru þessi málefni komin í óefni og þeir taka nú miklu harðar á þessu lagalega séð en við gerum. En ég get eigi að síður verið sammála um að því miður er ekki fær leið eins og komið er að framfylgja lögum af fullri hörku í þessum efnum. Þá þyrfti að senda lögreglu inn á tugi hundraða heimila í landinu til þess að fylgja lögunum fram.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áður, að alverlegt mál og íhugunarefni er fyrir Alþ. þegar svo er orðið ástatt að lög eru brotin allalmennt. Það eykur á virðingarleysi manna fyrir lögunum. Það er önnur alvarleg hlið þessa máls.

Ég sé að hv. 3. þm. Austurl. er genginn í salinn. Ég var að segja í tilefni af ræðu hans, að ég tók skýrt fram í framsöguræðu minni að ég teldi aðalatriði þessa máls vera þau félagslegu vandamál sem fylgja því ástandi sem ríkjandi er í þessum efnum.

Mér þótti vænt um hugleiðingar hv. 2. þm. Norðurl. e. um áhyggjur hans af áfengisbölinu, en mér hefur stundum fundist að of margir svokallaðir framámenn í landinu tali of gáleysislega um þessi málefni. Ég fullyrði að áfengisvandamálið er eitt alvarlegasta vandamál sem þjóðin á við að stríða. Hitt er annað mál, og þar get ég verið sammála hv. 2. þm. Norðurl.,e., að vandasamt er að taka á þessum málum. Frv., sem hér er flutt, er tilraun til þess að bæta úr ástandinu, draga úr þessu böli, sem ég vil svo nefna, og færa til betri vegar.

Það er staðreynd, að síðan breyting varð á lögum — ég held að það hafi verið 1969 — hefur bruggstarfsemi í landinu stórkostlega aukist. Ég er ekki að fullyrða að breyting til baka hafi þau áhrif að auðvelt verði að uppræta bruggið. En ég held satt að segja að svo hafi verið komið laust fyrir 1970 að brugg hafi að mestu leyti verið lagt af í landinu. Ég þekki t. d. mjög mikið til á Austfjörðum, bæði í sveitum og við sjó, og ég held að bruggun, sem var talsvert algeng á árum áður bæði til sjávar og sveita eins og kunnugt er, hafi að mestu leyti verið lögð af á áratugnum milli 1960 og 1970. Ég held að breyting á áfengislögunum í þá átt að heimila starfsemi eins og þá sem nú fer fram hafi stóraukið bruggunina í landinu. Það er m. a. byggt á þeirri skoðun er ég beiti mér nú fyrir því að flytja þetta frv.