30.04.1979
Neðri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (3395)

267. mál, stofnun og slit hjúskapar

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þsk. 553 flyt ég frv. til l. um stofnun og slit hjúskapar. Í því felst að lækka aldur heimildar til stofnunar og slita hjúskapar úr 20 árum í 18 ár.

Fyrir Alþ. liggur nú lagafrv. um breyt. á lögum um lögræði, nr. 95/1947, þar sem sú breyting er ráðgerð að lækka lögræðisaldur úr 20 árum í 18 ár. Svo sem um getur í aths. með því frv. er eðlilegt að breytt verði við lögfestingu lækkaðs lögræðisaldurs, lagaákvæðum þar sem áskilnaður um samþykki foreldra er bundinn við 20 ára aldur. Svo er um samþykki foreldra við hjúskaparstofnun barns þeirra, sem er innan við 20 ára aldur, samkv. gildandi lögum. Er því lagt til með þessu lagafrv. að aldursmark lækki í 18 ár.

Lagafrv. um lögræðisaldur er nú í þessari hv. d. og er komið til allshn. Er það í síðari deildinni. Þótti því rétt að flytja frv. það sem hér liggur nú fyrir.

Að lokinni þessari umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. Eðlilegt er að frv. þetta hafi samflot með því frv. um lögræðisaldur sem áður gat um og þar er.