30.04.1979
Neðri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (3397)

160. mál, forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað þetta frv., en eins og hv. alþm. vita er þetta eitt af þeim frv. sem voru í félagsmálapakkanum, sem svo var kallaður 1, des. s. l. Frv. var sent Búnaðarþingi til umsagnar og gerir Búnaðarþing till. um að breyta frv. lítillega. Varð landbn. við þeirri ósk. Brtt. er á þskj. 566 og er svo hljóðandi:

„Við 3. gr. 1. og 2. málsl. 3. mgr. orðist svo: Afleysingamenn skulu hafa rétt til aðildar að Lífeyrissjóði bænda. Skulu þeir taka laun eftir sama launaflokki og viðurkenndur er af landbrn. fyrir frjótækna.“

Landbn. fannst að eðlilegra væri að vísa á launaflokkinn, en þegar það var athugað kom í ljós að frjótæknum er ekki skipað í launaflokka með opinberum starfsmönnum, heldur hefur landbrn. ákveðið flokkinn. Með tilliti til þess varð n. sammála um að brtt. væri eðlileg.

Hv. þm. Bjarni Guðnason skrifaði undir með fyrirvara, en Eðvarð Sigurðsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.