30.04.1979
Neðri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4287 í B-deild Alþingistíðinda. (3399)

272. mál, hátekjuskattur

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um sérstakan hátekjuskatt. Það flytja með mér hv. þm. Vilmundur Gylfason, Bjarni Guðnason, Gunnlaugur Stefánsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Ég vil fara í stuttu máli yfir þetta frv. og helstu atriði þess.

Í 1. gr. frv. segir að „fari launatekjur einstaklings yfir 12 millj. kr. á ársgrundvelli skal innheimta sérstakan hátekjuskatt, sem nemur 85% af þeim tekjum sem eru umfram 1 millj. kr. á mánuði.“

Í 2. gr. frv. segir: „Þennan sérstaka hátekjuskatt skal innheimta mánaðarlega, þannig að ef tekjur fara yfir 1 millj. kr. á mánuði skal vinnuveitanda skylt að halda eftir 85% af því sem er umfram 1 millj. kr. og leggja það inn á sérstakan reikning ríkissjóðs. Nái tekjur launþega, sem áður hefur greitt þennan skatt, ekki millj. á mánuði síðar á tímabilinu skal endurgreiða honum af sama reikningi.“ Í grg. með frv. segir m. a.:

Frá því að Alþ. samþykkti frv. til l. um viðnám gegn verðbólgu liðu ekki nema nokkrir dagar þar til launahlið frv. tók að riðlast. Í því sambandi má nefna samninga Flugleiða hf. við hóp flugmanna og lyktir þess máls. Án tillits til þess, hvaða skoðanir menn kunna að hafa á hátekjum eins og þeim sem hér um ræðir, má ljóst vera, að samningar af þessu tagi kunna að leiða til skriðu peningalaunahækkana, bæði hjá áðurnefndu fyrirtæki og hjá fjölmörgum stéttum öðrum í þjóðfélaginu. Líklegar afleiðingar eru að launahlið efnahagsfrv. standist ekki, verðbólgumarkmiðin verði að engu gerð og allt þjóðfélagið gjaldi fyrir dýru verði.

Flm. þessa frv. hafa kannað möguleika á lagasetningu um frestun launahækkana í samningum Flugleiða hf. og flugmanna. Sú leið er talin ófær eða illfær, einkum vegna afturvirkni slíkra laga: Sérstakur hátekjuskattur hefur þá kosti fram yfir aðrar leiðir, að hann nær til þeirra hópa í þjóðfélaginu sem miklar tekjur hafa. Hann er því almenn regla.

Í þessu frv. er lagt til að á verði lagður sérstakur hátekjuskattur er komi í stað almennra tekjuskatta, — og ég vil að þessari setningu verði veitt sérstök athygli, — „er komi í stað almennra tekjuskatta, og hann innheimtur með staðgreiðslukerfi. Gallinn við þessa aðferð er auðvitað sá, að lögin ná ekki til þeirra einstaklinga í þjóðfélaginu sem hafa haft aðstæður til að „skammta“ sér skatta á löglegan eða ólöglegan hátt. Engu að síður er það álit flm., miðað við ríkjandi aðstæður á launamarkaði, að löggjafanum beri að grípa inn í í jöfnunarskyni, svo og til að hamla gegn verðbólguþróun sem nýtt launaskrið mundi hafa í för með sér.

Minna má á þá þáltill. þm. Alþfl. sem gerir ráð fyrir afnámi tekjuskatts af atmennum launatekjum. Þess er fastlega að vænta, að sú þáltill. verði samþ. nú fyrir þinglok. Þar er gert ráð fyrir að tekjuskattur sé afnuminn af almennum launatekjum, sem eru skilgreindar svo, að þær séu tvöfaldar meðaltekjur verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna. Þetta er yfirlýst stefna Alþfl. Það breytir ekki hinu, að þegar laun eru orðin óheyrilega há þykir full ástæða til að skattleggja þau mikið í því skyni að koma á jöfnuði og jafnvægi í þjóðfélaginu.“

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara miklu fleiri orðum um þetta frv. Það skýrir sig að verulegu leyti sjálft.

Flm. óttast mjög að úr böndum sé að fara sú launastefna sem ríkisstj. hefur reynt að móta í tengslum við eigin efnahagsmálastefnu. Samningar þeir, sem gerðir voru við flugmenn Flugleiða hf. nýlega, hafa valdið mikilli ólgu og óánægju á launamarkaði, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni, enda má segja að þeir hafi komið eins og hnefahögg í andlit láglaunafólksins í landinu sem ríkisstj. hefur beðið um að skerða eigin laun. Allt bendir til að þeir samningar, sem ég hef vitnað hér til, svo og ýmislegt annað, sem nú er að gerast á launamarkaði, geti valdið launaskriði sem ekki verður við ráðið. Slíkt launaskrið gæti á skömmum tíma gert að engu tilraunir til baráttu gegn verðbólgu sem hefur verið höfuðmarkmið núv. ríkisstj. Þar með gæti ríkisstj. ekki staðið við þau loforð að vernda kjör láglaunafólksins í landinu.

Tilgangurinn með þessu frv. er bæði einfaldur og skýr. Hann er sá að setja raunverulegt þak á launatekjur, þ. e. að þær geti ekki farið upp fyrir 1 millj. kr. á mánuði hjá einstaklingi og ekki yfir 12 millj. kr. á ári. Því hefur verið haldið fram, að frv. feli í sér 150% skattlagningu. Þetta er auðvitað fjarstæða og kemur enda fram í grg. að um allt annað er að ræða. — Ég verð í þessu sambandi að segja að mér finnst þáttur Morgunblaðsins í fréttaflutningi af þessu frv. fyrir neðan allar hellur, en sýnu lakara þykir mér þegar ábyrgur embættismaður gerir sig sekan um að túlka frv. af þessu tagi í fjölmiðli og taka ekkert mið af grg. þeirri, sem frv. fylgir, og búa sér til tölur sem engan veginn fá staðist.

Flm. er ljóst að í útfærslu frv. þarf að leysa nokkur tæknileg vandamál. Þeir treysta því hins vegar að hinum hæfu embættismönnum á sviði skattamála verði ekki skotaskuld úr því að leysa þann vanda. Þar er einkum að ræða nokkur atriði er snerta einstaklinga sem taka laun á fleiri en einum stað.

Flm. hefðu vissulega kosið að ríkisstj. hefði getað gert þetta frv, að sínu, en treysta því hins vegar að þeir eigi stuðning hennar vísan í jafnsjálfsögðu máli og þessu. Hér er gert róttæk tilraun til launajöfnunar, áhrifameiri en flest það sem gert hefur verið á þessu sviði. En þetta frv. leysir hins vegar ekki stórfelldan vanda sem nú er við að stríða þar sem eru skattsvikin, bæði þau löglegu og ólöglegu. é, því sviði er nauðsynlegt að gera mikið átak svo að stöðva megi það gífurlega launamisrétti sem felst í misjafnri aðstöðu manna til að skammta sér laun, ákveða sér hlunnindagreiðslur og beita ýmsum aðferðum til að lagfæra tekjuhlið á skattframtali.

Það skal ítrekað, að flutningur þessa frv. breytir í engu stefnu Alþfl. um afnám beinna skatta af almennum launatekjum. En millj. kr. laun á mánuði, 12 millj. á ári, eru ekki almennar launatekjur, heldur fjórföld til fimmföld grunnlaun verkamanns. Það er óhætt að fullyrða að launamisréttið í þjóðfélaginu sker í augu hvers manns sem vill kynna sér það. Rangt vísitölukerfi hefur að mínu mati aukið á þetta launamisrétti sem kemur hvað skýrast í ljós þegar vísitöluþakinu er lyft af launum hátekjuhópanna. Láglaunafólkið situr eftir og bilið breikkar stöðugt. Það er þess vegna mikil nauðsyn að setja raunverulegt þak á tekjur — þak sem ekki verður lyft með ákvörðun lítils hóps manna.

Í þeim sviptingum, sem nú eiga sér stað í kjaramálum, verður löggjafinn að tryggja að launamisrétti verði ekki aukið frá því sem nú er. Það er oft sagt að ríkisstj. eigi ekki að blanda sér í almenna kjarasamninga. Undir það get ég tekið. En þegar að því stefnir að baráttan gegn verðbólgunni verði að engu gerð vegna aðgerða fárra einstaklinga eða fyrirtækja verður löggjafinn að grípa inn í, hvort sem honum þykir það betra eða verra.

Ríkisstj. verður að standa við loforð sín um að tryggja kjör láglaunafólks og verja þau nýrri verðbólguholskeflu sem kann að ríða yfir á næstu missirum.

Í sambandi við þessi orð get ég ekki stillt mig um að láta þá skoðun mína í ljós, að afskiptaleysi þessarar virðulegu stofnunar af margvíslegum veigamiklum málum hafi valdið því, að þingræðið hefur verið á undanhaldi síðustu áratugi. Aðrar stofnanir hafa haft meiri völd. Þessari þróun verður að snúa við og það strax. Geti Alþ. haft áhrif til meiri launajöfnunar á það að beita valdi sínu til þess. Þetta frv. er launajöfnunarfrv. fyrst og fremst.

Herra forseti. Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta frv., en vænti þess, að umr. lokinni verði því vísað til fjh.- og viðskn.