30.04.1979
Neðri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4291 í B-deild Alþingistíðinda. (3402)

272. mál, hátekjuskattur

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Vegna þess máls sem hér er til umr., um sérstakan hátekjuskatt á sérstaklega háar tekjur, vil ég fyrst segja það við hæstv. viðskrh., Svavar Gestsson, sem var að fara úr ræðustól, að ég er honum sammála um að til sérhvers verks, sérhvers frv., beri auðvitað að vanda svo sem frekast er kostur, en hins vegar mega þessi vöndunarrök ekki verða í þá veru að svo vel skuli vanda, svo vel skuli hugsa sig um og svo lengi að engar framfarir verði í landinu. Ég er honum m. ö. o. innilega sammála um að til þessa frv., eins og allra annarra frv. og helst allra annarra verka sem við vinnum, skulum við vanda svo sem kostur er, en slíkt má hins vegar ekki standa málum fyrir þrifum. Einhvern veginn hafði ég á tilfinningunni eftir að hafa á hann hlýtt, að svo gæti farið að þær miklu vöndunaraðferðir, sem hann var að lýsa, stæðu máli eins og þessu svo fyrir þrifum að úr framkvæmdum yrði ekki.

Það er ljóst hvað við í Alþfl. hugsum um þessi mál og hvernig við viljum þessi mál afgreiða. Við vonum að orðið gæti samvinna á milli stjórnarflokkanna — auk okkar Alþb. og Framsfl. — ef menn ætla ekki að vanda sig svo vel í þeim tveimur ágætu flokkum að þeir fáist ekki til að gera nokkurn skapaðan hlut. Ég vil m. ö. o. vara mjög við því að leggja málið fyrir starfshópa sem kannske yrðu vikur eða mánuði að velta því á milli sín og svo yrði ekkert úr neinu. Það munu ekki vera nema u. þ. b. 4 vikur eftir af starfstíma þessa þings. Ef við tökum þá pólitísku ákvörðun að skattur á hátekjur, sem fara hjá einstaklingi yfir 12 millj. kr. á ári, sé réttlætanlegur svo hár sem hér er lagt til, 85% að viðbættu útsvari og sjúkragjaldi sem samanlagt færir skattinn upp í 98% — m. ö. o. er verið að setja þak á laun sem svo há eru — og ef um það er pólitískt samkomulag við Alþb. og einnig Framsfl. getum við á fáum dögum gert það að lögum. Ef hins vegar á að fara í þennan skoðunarleik er þar með verið að drepa þetta mál. Ég vona — ég veit það ekki, en ég vona að slíkt hafi ekki vakað fyrir og muni ekki vaka fyrir hæstv. viðskrh.

Það er sem sagt kjarni þessa máls, að verið er að leggja til að setja þak á laun, sem svo hátt fara að nemi 12 millj. kr. á ársgrundvelli, og koma þannig í veg fyrir að einstakir samningshópar geti rifið sig út úr launþegaheildinni og sprengt sig upp með þessum hætti og valdið óánægju og óumflýjanlegu launaskriði þegar neðar í launastigann er komið. Það er auðvitað rétt, sem kom fram hjá hv. frsm. og þm. Árna Gunnarssyni og svo hjá öðrum þeim sem hér hafa talað, að á þessu eru nokkrir framkvæmdaörðugleikar. En engu að síður taka þeir framkvæmdaörðugleikar einungis til mjög fárra launþega. Það eru erfiðleikar gagnvart þeim sem taka slík laun úr fleiri en einni átt, tveimur eða þremur kannske. En þetta eru varla nema örfá hundruð manna. Þegar um stórmál eins og þetta er að ræða megum við ekki sjá ofsjónum yfir framkvæmdaerfiðleikum gagnvart örfáum hundruðum manna og ætla þar með að drepa fyrst málinu á dreif og drepa síðan málið af þeim sökum. Þann tón þóttist ég skilja í máli hæstv. viðskrh. og vara við því mjög eindregið. Hófleg íhaldssemi og varfærni er ágæt, en óhófleg er afleit hins vegar.

Það er svo enn annað mál, sem er kjarni þessa og auðvitað var sérstaklega áberandi, að eftir samninga Flugleiða hf. við hóp flugmanna er launabilið í landinu orðið óþolandi. Það er óþolandi þegar munur á hæstu og lægstu launum innan launþegahópsins er jafnvel orðinn sex- eða sjöfaldur, eins og hér er orðið í hinum ítrustu tilfellum. Og þá er það ekki orðin hagræn spurning með hverjum hætti launabili er háttað, heldur er það og orðin siðræn spurning — mórölsk spurning. Ég er þeirrar skoðunar, að það algera launaþak eða því sem næst, sem hér er verið að leggja til, sé móralskt mál fyrst og síðast.

Þegar talað er til varnar þessari hugmynd verður ekki hjá því komist að minnast á að kannske er ekki einkennilegt þó að flokksblað stjórnarandstöðunnar, Morgunblaðið, snúist gegn þessari hugmynd. En hitt er heldur dapurlegt, þegar blaðið dregur fram á síður sínar óreyndan skattstjóra í Reykjavík, mann sem fyrir aðeins nokkrum mánuðum hóf þau störf, og fær viðkomandi til að segja í stórri baksíðufrétt að hér sé verið að leggja til 150% skatt. Væntanlega segja því lesendur Morgunblaðsins að hér sé um svo illa unnið mál að ræða að því sé varla hægt að fylgja í neinni alvöru a. m. k. Skattstjórinn ungi gerði sig sekan um að láta flokksblaðið nota sig til þessara verka. Mér er ekki kunnugt um hvort nokkrar almennar hegðunarreglur gilda um embættismenn, en ég held að rétt sé að fram komi úr þessum stól, að það er auðvitað afar skaðlegt þegar óreyndur embættismaður lætur flokksblað nota sig í þessum tilgangi. Augljóslega hafði viðkomandi varla eða ekki lesið það frv. sem um var að ræða. Það er kannske ekki um stórmál að ræða, þetta er ungur maður og á efalítið eftir að öðlast meiri reynslu í starfi, en það er vont að láta plata sig og verst af öllu að láta Moggann plata sig eins og pilturinn gerði!

Allt um það er hér verið að leggja til að stigið sé alvarlegt spor í launajöfnunarátt í þessu landi. Við vitum að launþegahreyfingin hefur stundum haft blendnar hugmyndir um með hvaða hætti sé æskilegt að koma á launajöfnuði og með hvaða hætti sé rétt af löggjafa að grípa inn í launamál. Það hefur stundum verið feimnislega talað um að gera slíkt með því að hafa áhrif á vísitölukerfið, en oft verið miklu opnari hugur að gera slíkt með skattalegum hætti, eins og hér er lagt til. Ég trúi því ekki fyrr en á þarf að taka að til sé nokkur sá forustumaður í launþegahreyfingunni eða í hinum stærstu félögum launþegahreyfingarinnar sem ekki sé samþykkur þeirri meginhugsun, að þegar launamisrétti er orðið svo mikið og hæstu laun orðin svo há sem hér um ræðir sé það ekki aðeins rétt, heldur bókstaflega skylt að grípa í taumana.

Þessu máli verður væntanlega vísað til n. í dag. Stjórnarflokkarnir hafa í hendi sér að taka höndum saman við Alþfl. til þess að forðast þá efnahagslegu óáran sem af mundi leiða ef ekki verður gripið inn í það launaskrið sem annars verður. Ég hygg því að ábyrgð okkar allra, sem í ríkisstj.-flokkunum erum, sé mikil. Það er mikið í húfi að við aðhöfumst skjótt og gerum þetta mál, kannske með einhverjum tæknilegum breytingum ef mönnum sýnist slíkt vera rétt, að lögum á ekki löngum tíma. Landið yrði þá betra land og hér yrði réttlátara þjóðlíf.

Það má svo minna á það að lokum, að við erum á engan hátt að ganga gegn hinni almennu hugmynd okkar um afnám tekjuskatta af almennum launatekjum. Séu þær tvær till. lagðar saman, hátekjuskattur af þessu tagi, þ. e. a. s. því sem næst fullkomið launaþak á tekjur sem fara yfir tiltekið mark hjá einstaklingi, og svo afnám tekjuskatta af almennum launatekjum hygg ég að löggjafinn hafi komið betri skikkan á launamálin í þessu landi en hér hefur verið um alllangt — jafnvel margra ára skeið.