30.04.1979
Neðri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4293 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

272. mál, hátekjuskattur

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja örfá orð um það frv. sem fimm Alþfl.-menn hafa flutt hér.

Ég vil þá byrja á því að endurtaka það, sem ég hef oft sagt hér, að mestu máli skiptir í mínum huga að menn haldi eftir nægilegu af launum til þess að geta lifað góðu lífi. Ég er ekki á móti því að þeir, sem hafa hærri tekjur en til þarf til þess, gjaldi skatta til ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna vil ég að þetta frv. fái eðlilega og sanngjarna meðferð í þinginu.

Hitt er svo annað mál, sem auðvitað er mjög bagalegt og leitt til að vita, að ýmsir þjóðfélagsþegnar virðast komast upp með að hafa tekjur án þess að gjalda af þeim skatta. Ég legg enn þá einu sinni ríka áherslu á að gert verði allt sem unnt er til þess að skattalögin nái til allra þegna þjóðfélagsins og enginn sé þar undanskilinn. Ég veit að ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í þessa átt og nokkrar hafa heppnast. En enn þá mun vera svo ástatt hjá okkur að fjöldi manna þarf ekki eða kemst hjá að greiða skatta af þeim tekjum sem hann aflar. Það er ósanngjarnt og veldur því áreiðanlega fyrst og fremst að hátekjumenn eru tregir til að fallast á þá skattaleið sem hér er farið fram á.

Í mínum huga er það ævinlega aðalatriðið hverju menn halda eftir, hvað menn þurfa til að lifa af, hvað menn komast af með, en ekki hitt, hvers menn afla. Það er algert aukaatriði í mínum huga. Og ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um að það er mikil ábyrgð sem hvílir á okkur, sem fylgjum stjórnarflokkunum, að jafna niður réttlátlega gjöldum á fólk.

Ég vænti þess, að hv. 7. þm. Reykv. virði skattstjóra vorum það til vorkunnar að hann er ungur að árum. Það eru fleiri ungir og þeir hafa sinn fulla rétt á því að tala og segja það sem þeim finnst — og gera það, að mér finnst, alveg óspart. Það er líka alveg sjálfsagt. Það er ekkert nema gott um það að segja. Eins held ég að skattstjórinn í Reykjavík hafi fullan rétt á því að tjá sig um það mál sem hér er um að tefla.

Það, sem ég vildi sagt hafa hér, er það, að ég vænti þess að frv. fái rækilega og góða athugun í þeirri n. sem það á að fara til. Hugmyndin er ágæt, finnst mér. En hvort útfærslan er eins góð verður að koma í ljós. Ef hún er það ekki verður að lagfæra hana.