30.04.1979
Neðri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4294 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

272. mál, hátekjuskattur

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil eingöngu þakka þær yfirleitt góðu undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hér á þingi, og ég vænti fastlega að menn fari ekki að greinast í flokka, deildir og sveitir, þ. á m. með tilliti til þess, hver flytur þetta frv. Þetta frv. á að geta verið frv., að ég held, okkar flestra sem hér sitjum.

Ég veit að hv. þm. Friðrik Sophusson er í hjarta sínu samþykkur þessu. Hann kann að finna á þessu annmarka ýmsa, sem ég get tekið undir með honum að séu fyrir hendi. Hins vegar skulu menn ekki ætla að við hendum þessu frv. inn á Alþingi án þess að hafa borið undir skattfróða menn, sem hafa sérstaka aðstöðu til þess að hafa þekkingu á þeim málum sem hér er um fjallað, þeim tæknilegu örðugleikum sem hér hefur verið minnst á. Slíkir örðugleikar eru eingöngu af þeim toga spunnir að orðið gæti erfitt í framkvæmd að ná til þeirra sem þiggja laun á fleiri en tveimur eða þremur stöðum. Það er ágalli sem ég get fallist á, að ekki er gerð grein fyrir því í frv. hvernig til þessara launa skuli náð, en sá ágalli er smáræði miðað við það sem frv. gæti áorkað.

Ég met það mikils að hæstv. viðskrh. skyldi taka svo einarðlega undir með okkur flm., og eins vil ég þakka fyrir orð hv. þm. Einars Ágústssonar. Ég er sannfærður um að stjórnarflokkarnir eru sammála um að frv. af þessu tagi er af hinu góða og tilgangurinn er sá. Ég held að við hljótum einnig að geta verið sammála um að skattamál hér á landi eru þess eðlis að þar ber að gera stóra hluti til þess fyrst og fremst að ná til þess fólks sem hefur aðstöðu til þess að koma fjármunum sinum undan og greiða ekki keisaranum það sem keisarans er. Ég vænti þess fastlega að núv. ríkisstj. geri verulegt átak í þeim efnum, því að það er vægast sagt mjög gremjulegt að sjá það ár eftir ár, þrátt fyrir ný skattalög, þrátt fyrir breytingar sem eiga að ná til þessara manna, að misréttið á þessu sviði er stöðugt að aukast, en ekki að minnka.