30.04.1979
Neðri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4295 í B-deild Alþingistíðinda. (3407)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Frsm. minni hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Minni hl. allshn., sem skipuðu Vilmundur Gylfason, Árni Gunnarsson og Friðrik Sophusson, leggur til að frv. verði afgreitt með eftirfarandi breytingum:

1. Síðasta mgr. 1. gr. frv. falli niður, en þar er kveðið á um að ráðh., sem ekki er alþm., eigi rétt á þingfararkaupi og njóti að öllu leyti þeirra fríðinda sem alþm. eru ákveðin í lögum þessum. Við leggjum sem sagt til að sú mgr. verði felld niður.

2. Í 1., 2., 3. og 4. gr. frv. falli niður orðalagið „að fengnum till. þfkn.“ M. ö. o. verði Kjaradómi falið að ákveða kjörin, en sleppt því, sem um hafði verið fjallað, að það þyrfti að vera að fengnum till. þfkn.

Þegar þessar tvær breytingar hafa verið gerðar, sú síðari er raunar mjög í anda breytinga sem hv. þm. Eggert Haukdal flytur á þskj. 337, leggjum við til að frv. verði samþykkt.