30.04.1979
Neðri deild: 79. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4296 í B-deild Alþingistíðinda. (3409)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Það er vissulega að bera í bakkafullan lækinn að fara að lengja þær umr. sem staðið hafa á þinginu í vetur um kjör þm. Ýmist hefur verið rætt um biðlaun, skattfríðindi eða frv. sem hér er á dagskrá, og má segja að nær sé að snúa sér að öðrum viðfangsefnum. Út frá því mætti e. t. v. segja að ég, sem hér stend, hefði ekki átt að bera fram þær brtt. sem liggja fyrir á þskj. 337 og verða aðeins til að lengja umr. En minni hl. n. hefur nú tekið upp þessar till. mínar að hluta, eins og kom fram áðan hjá frsm. minni hl.

Tilgangurinn með flutningi þessara till. er að hjálpa eða aðstoða öllu heldur siðbótamenn að samræma orð og athafnir, en mér virðist að þeim, eins og kannske okkur hinum, reynist stundum fullerfitt að feta sig eftir vandrötuðum stig loforða sinna.

Eins og kemur fram í grg. flm. þessa frv. hefur m. a. sú leynd, sem umlykur kjör þm., verið gagnrýnd og m. a. og ekki síst af ýmsum frambjóðendum Alþfl. í kosningabaráttunni s. l. vor. En ef sjálft frv. er skoðað virðist þar ekki um aðra raunverulega breytingu að ræða en þá, að stimpill Kjaradóms verði settur á gerðir þfkn. Mér virðist því þetta frv., í því formi sem það er lagt fram, vera skrautlegar umbúðir utan um afskaplega lítið.

Í ljósi þess og út frá því sem áður er sagt, lagði ég fram þær brtt. sem hér liggja fyrir og löngu eru fram komnar, að niður falli orðin úr öllum greinum frv. „að fengnum til. þfkn.“, þannig að kjaradómur fái þetta vald alfarið.

Þá flyt ég aðra brtt. um laun ráðh. Verði þm. ráðh. falli niður hálft þingfararkaup hans frá sama tíma. Þar vil ég á sama hátt undirstrika eins og áður og vísa til grg. flm., en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Ráðh. fá há laun, sem bætast við laun þm. Er sú regla vafasöm, svo ekki sé meira sagt.“ Svo mörg eru þau orð hv. flm. Ég get tekið undir þetta, að farið geti eins og segir í grg., og vil því hjálpa flm. að útfæra þessa skoðun í lögum. Ég lít einnig svo á, að bæði þessi störf séu það viðamikil að erfitt sé fyrir einn mann að rækja þau samtímis. Það mætti e. t. v. hugsa sér, þegar menn tækju við ráðherrastörfum, að annar maður tæki sæti þeirra á þingi. Kostnaðarauki af því þyrfti enginn að vera ef hver héldi aðeins launum sínum. Ráðherralaun ein út af fyrir sig eru nægjanleg með þeim fríðindum sem þeim fylgja, og mætti raunar bæta við: plús þær miklu hækkanir sem nú hafa gengið yfir hjá öllum hálaunahópum þessa þjóðfélags. Það voru fleiri en flugmenn sem fengu hækkanir um daginn, og mætti m. a. út frá þeirri umr., sem hér er nýlokið í þinginu um hátekjuskatt, ræða þá sýndarmennsku sem að baki því frv. liggur, miðað við að þetta mál var allt hægt að taka inn í frv. ríkisstj. um daginn, stöðva af háu launin, til flugmanna, ráðh. og þm., og festa þakið á, og þá hefði frv. um efnahagsmál verið bitmeira í baráttunni gegn verðbólgunni en raun er á.

Ég vil svo að lokum láta koma fram þá skoðun mína, að alþm. og ráðh. eigi að hafa góð kjör. En áframhaldandi hráskinnaleikur í kringum kjaramál þm., eins og frv. óbreytt leiðir af sér, er afskaplega hvimleiður, vekur upp tortryggni og rekur óþarfa fleyg á milli þings og þjóðar.