02.05.1979
Efri deild: 87. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4297 í B-deild Alþingistíðinda. (3412)

260. mál, tímabundið vörugjald

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 533 lítið frv. varðandi niðurfellingu ákveðinna tollskrárnúmera í sambandi við sérstakt tímabundið vörugjald.

Þetta mál kom hér rækilega til umræðu fyrir jólin. Þá var mikið rætt einmitt um þetta sérstaka atriði og gefnar um það sérstakar yfirlýsingar, ekki síst út frá því að hér fór fram atkvgr. um brtt. frá hv. stjórnarandstöðu um að fella niður vörugjald þetta af hljóðfærum. Ég held að ég rifji þær umr. ekki upp eða á hvern hátt þær fóru fram þá, en þá var mjög rætt um réttmæti gjaldsins í heild og síðan alveg sérstaklega að leggja svo hátt gjald á hljóðfæri sem það frv. gerði ráð fyrir. Í grg. með þessu frv. segir að menntmrh. hafi lagt áherslu á það þá, að á þessu þyrfti að fást leiðrétting. Síðan flutti stjórnarandstaðan till. um niðurfellingu gjaldsins, en sú till. var felld í ljósi yfirlýsingar sem fjmrh. gaf um að hann mundi taka málið til vinsamlegrar og jákvæðrar athugunar.

Ég hef treyst á það og viljað treysta á það, að hér yrði gerð viss lagfæring á, og kaus á þessu stigi að flytja frv. sem fæli í sér niðurfellingu vörugjaldsins alls af öllum þeim tollskrárnúmerum sem hljóðfæri varða. Það fer fjarri því, að ég teldi ekki fullnægjandi að létta þessu gjaldi af því sem brýnast mætti kalla í almennu tónlistarnámi eða þá af þeim hluta sem samkomulag næðist um.

Ég hef ekkert dregið úr því, að ég væri, eins og fram kom skemmtilega í blaði um daginn þó að ekki væri haft nákvæmlega rétt eftir mér varðandi það mál, — að ég væri skattheimtumaður. Ég vil svo sannarlega leggja skatt á þá, sem skatta geta borið, og skatta á þá vöru alveg sérstaklega sem ég tel slíka að við getum hæglega verið án eða getum a. m. k. leyft okkur að telja það til nokkurs lúxus að vera með hana á boðstólum. Ég dreg heldur ekkert úr því, að til þess að bera uppi samfélagslegar þarfir verður skattlagning til að koma, og beiting hennar — sem réttlátust vitanlega — þykir mér sjálfsögð og engum vorkunn út af fyrir sig að greiða réttan skerf til samfélagsins, hvað sem honum sjálfum finnst um það réttmæti. En almennar umr. um það atriði eiga nú ekki við. Ég vildi aðeins undirstrika það, að ég hef um mína þingtíð verið lítill talsmaður hækkandi skattheimtu almennt, aðeins að þar mætti sem best ná til þeirra sem þyldu best þær byrðar, og enn fer víðs fjarri að sú sé raunin á.

Ég hef hins vegar í ljósi dapurlegrar reynslu af viðleitni útkjálkaskólastjóra til að auka tónmennt nemenda sinna reynt að ýta því máli áfram hér á þingi að sú mennt yrði ekki mennt fyrir fáeina útvalda, heldur sjálfsagður og eðlilegur liður í almennri menntun skólafólks, þar með talin undirstöðuatriði í nótnalestri og hljóðfæraleik. Hefur Alþ. samþ. ákveðnar ályktanir í þessa átt, og víða um land er nú unnið að aukinni tónmennt, þó um of sé það starf enn utan hins eiginlega grunnskólanáms, tónskólarnir illa búnir að hljóðfærum og nemendunum sjálfum yfirleitt lögð sú kvöð á herðar að eignast eigið hljóðfæri, m. a. s. til byrjunaræfinga. Hér þekki ég jafnvel — í allri velsældinni — biturt dæmi þess að efnilegur nemandi og áhugasamur hefur ekki getað lagt í slíka fjárfestingu, eða réttara sagt aðstandendur hans.

Það má e. t. v. segja að kröfur allt of margra tónlistarkennara um gæði hljóðfæra til byrjunarnáms séu óeðlilegar og eins að hin ódýrari og einfaldari hljóðfæri séu tæpast til á hinum almenna markaði, heldur leggi þeir, sem með þau versla, aðaláherslu á hinar dýrustu gerðir af gróðaástæðum einum saman.

Hljóðfæri á landi hér eru óeðlilega dýr, að því er talið er af kunnum mönnum, og ástæður þess má m. a. rekja til mikillar skattheimtu ríkisins, en skal ekki síður lögð áhersla á að á hljóðfærum almennt er mjög há álagning. Hvort tveggja þyrfti að lagfæra þar sem þörfin er brýnust hvað tónmenntafræðslu varðar. Það kann að verða erfitt að finna eðlileg mörk, en þá þyrftu fulltrúar þeirra rn., sem málið varðar, að setjast niður og koma á þeirri skipan sem réttlátust væri og næði sem best þeim tilgangi að auka hlutdeild sem allra flestra í tónmennt. Menntmrn. hefur á að skipa úrvalskröftum til slíkrar athugunar, og fulltrúar fjmrn. og viðskrn. þyrftu þar að koma til liðsinnis varðandi annars vegar skattheimtuna og hins vegar álagninguna.

Tilgangur þessa frv., sem ég taldi mér skylt að flytja, er að vekja athygli á því, að ekki bólar enn á leiðréttingu þeirri sem um var rætt fyrir þinghlé í des. Það er ekki spurning um að samþykkja frv. eða fella, heldur að finna réttláta lausn, jafnhliða því sem enn betur yrði svo unnið af hálfu menntayfirvalda að því að gera tónmenntina að einum undirstöðuþætti grunnskólamenntunarinnar, eins og ég hef margoft komið inn á þegar ég hef talað fyrir þáltill. af þessu tagi. Ég tel sem sagt ekki vansalaust fyrir mig, sem er flm. tveggja þáltill. um þessi mál, að láta þetta þing líða án þess að knýja á um leiðréttingu vegna þess að ekkert bólar á henni frá hæstv. núv. ríkisstj.

Menntmrh. lýsti yfir í umr. á Alþ. 18. des. um þetta mál, að hann vildi alveg sérstaklega athuga þau atriði, sem snertu hljóðfærin, og hann hefði í raun og veru loforð eða vilyrði hæstv. fjmrh. fyrir leiðréttingu þar á. Orðrétt sagði hæstv. ráðh. í þessum umr., með leyfi forseta:

„Ég mun því ekki treysta mér til þess að styðja till.,“— það var brtt. stjórnarandstöðunnar, — „en lýsi því enn einu sinni yfir, að ég treysti hæstv. fjmrh. fullkomlega til þess að standa fyrir athugun á þessum tollvöruflokkum — athugun sem þarf vafalaust að snerta fleiri vöruflokka en hljóðfæri — og treysti því, að sú athugun fari fram á næstu vikum.“

Í umr. um þetta sagði svo hæstv. fjmrh. orðrétt út frá umr. sem áður höfðu orðið:

„Ég lýsti því yfir þar“ — varðandi lögin um tekju- og eignarskatt — „og mun gera það hér þegar þessi mál koma hingað, að ákveðið er að fram fari á næsta ári endurskoðun á þeim tollvöruflokkum sem um er að ræða í þeirri upptalningu sem greinir um það, á hvaða vörur og flokka hið sérstaka tímabundna vörugjald leggst.

Ég vil ekki á þessu stigi málsins gefa neinar yfirlýsingar um það, hvernig þessi endurskoðun verður. Hún fer fram og ég álít að það þurfi að gera á þessu lagfæringar og við það mun verða staðið.“

Ég vek athygli á ummælum beggja hæstv. ráðh. og tel rétt að ýta við þeim báðum með þessu frv. og treysti því, að jafnvel verði komin einhver leiðrétting á þetta fyrir þinglok svo að ekki þurfi neitt á frv. mitt að reyna.

Það má eflaust deila um þessa skattheimtu eins og annað, en þó er hér um að ræða vöruflokk sem snertir snaran þátt í menningarlífi okkar og æ fleiri menn taka þátt í sér og öðrum til ánægju og lífsfyllingar. Það er því fyllsta ástæða til þess að gaumgæfa réttmæti svo mikillar skattheimtu af hljóðfærum sem raun ber vitni og þá ekki síður, og ég legg áherslu á það, eins mikillar álagningar og á þessa vöruflokka er líka.

Ég bendi á, og rétt er að undirstrika það, að andstaða mín við brtt. stjórnarandstöðunnar í vetur var hreinlega af því sprottin að ég trúði því þá að á þessu yrði gerð nokkur leiðrétting. Ég tel að skattheimta eins og þessi gangi í raun og veru þvert á meginhugsun þeirrar till. sem Alþ. hefur gert að ályktun sinni og fyrst og fremst beinist að sem almennastri hlutdeild fólks í þessari listgrein, þó misjafn árangur náist og keppt sé að mismunandi marki hjá hverjum og einum. Efnahagsleg mismunun í þessari hlutdeild þarf að verða sem allra minnst. Ekki síst af þeirri ástæðu er frv. þetta flutt, sem að öðru leyti skýrir sig sjálft.

Ég vildi aðeins koma þessu máli að til athugunar til þess að minna á það, en dreg enga dul á að sem flm. þáltill. tvisvar áður um þetta mál hef ég legið undir nokkru ámæli fyrir að hreyfa þessu máli ekki í ljósi þess að ég hafði fellt till. stjórnarandstöðunnar í vetur. Ég geri það hér með til þess að ýta við báðum þeim ráðh., sem með þessi mál fara, og í ljósi þeirra yfirlýsinga, sem þeir þá gáfu, halda málinu vakandi alla vega og sjá til hvernig megi á það reyna sem best að ná þessari leiðréttingu fram, þó ekki allri, þá að vissum hluta.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.