02.05.1979
Efri deild: 87. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4300 í B-deild Alþingistíðinda. (3414)

260. mál, tímabundið vörugjald

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil ekki deila um tilgang minn með frv. Eins og um mörg frv., sem hér eru flutt, má eflaust deila um það lengi hvaða hvatir liggja að baki. Við skulum ekki fara út í neinn samanburð hér á þeim hvötum sem liggja að baki frv.-flutningi yfirleitt hjá stjþm. í trausti þess að sú ríkisstj., sem þeir styðja, lagfæri mál og þeir hafi því tekið á sínum tíma afstöðu á þann hátt sem ég tók í vetur. Ég veit að við það kannast hv; þm. einnig. Þó að hann hafi alltaf verið heldur erfiður í taumi þeirri ríkisstj., sem áður sat, og hafi kannske ekki eins þurft á slíkum kattarþvotti að halda hygg ég að við mundum geta tilfært dæmi um slíkt, ef vel væri að gáð.

En ég játa það alveg að í vetur, þegar þessi mál komu til umræðu, treysti ég mjög á að ríkisstj. mundi leiðrétta þetta. Ég hef síðan látið reyna töluvert á það og flyt frv. svo síðla einmitt vegna þess að ég vildi sjá hvort á leiðréttingu bólaði ekki. Ég hefði getað lagt fram frv. þetta fljótlega eftir jól í þinginu, í febrúarmánuði þegar séð var að ekki var byrjað á þessu verki, ef ég hefði ætlað að auglýsa málið eða mig sérstaklega í því efni.

En ég vil aðeins vekja athygli á því, að þessi hljóðfæramál varðandi tímabundna vörugjaldið kæmu ekki sérstaklega til umr. fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar í vetur. Það var hæstv. menntmrh. sem kom sérstaklega inn á þau mál. M. a. eftir samtal okkar um þessa tilteknu vöruflokka kom hann inn á málið hér. Þá greip stjórnarandstaðan það vitanlega á lofti til þess að fegra sig og greip orð hans á lofti um að hann vildi fá lagfæringu og flutti brtt. um þetta í þeim anda sem hann hafði talað. Þannig hófst þetta mál. Síðan áttu þeir hér orðaskipti, hæstv. menntmrh: og hæstv. fjmrh., um hvernig að þessari lagfæringu mætti standa. Ég taldi þá og tel raunar enn, eins og ég sagði, að síðarnefndi hæstv. ráðh. hefði þetta mál í athugun. Því vildi ég á það minna og reikna alveg fullkomlega með því að þeir muni að því standa þannig, eins og ég sagði áðan, að þetta frv. út af fyrir sig þurfi ekki að koma hér til atkv., heldur fáist nokkur vissa fyrir leiðréttingu á vörugjaldinu eða jafnvel leiðrétting fyrir þinglok.