02.05.1979
Efri deild: 87. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4301 í B-deild Alþingistíðinda. (3415)

260. mál, tímabundið vörugjald

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég heyrði ekki ræðu hv. þm. Helga Seljans, en vissi að hann var að ræða um frv. sem hann flytur í hv. Ed. til laga um breyt. á lögum um sérstakt tímabundið vörugjald. Í raun og veru á ég ekki annað erindi en að skýra frá því að verið er að athuga í fjmrn. hvort og að hve miklu leyti kæmi til greina að gera breytingar í þessum efnum. Þar koma til greina hljóðfæri, hljómplötur, íþróttavörur, og ýmislegt fleira mætti nefna í þessu sambandi. Allt eru þetta mál sem snerta fjárhag ríkisins og þarf að sjálfsögðu að gæta þess í sambandi við endurskoðun á þessum málum, því ef það langt verður gengið í breytingum að það muni einhverju verður auðvitað að afla tekna með öðrum hætti til þess að jafna metin. — En ég vil aðeins skýra frá því, að í rn. er verið að athuga þessi mál nánar, eins og ég gerði ráð fyrir að gert mundi verða er ég gaf yfirlýsingu í þessari hv. d. fyrir áramót.