06.11.1978
Neðri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Mér finnst það vera einna athyglisverðast af því, sem komið hefur fram í þessum umr., að hæstv. núv. viðskrh., Svavar Gestsson, og hv. 1. þm. Austurl., sem hefur verið viðskrh. í vinstri stjórn hafa ekkert álit á vöxtum sem hagstjórnartæki. Hæstv. ráðh. Svavar Gestsson lýsti því yfir í ræðu fyrr í þessum umr., að ástæðan fyrir því væri sú, að við lifðum í svo miklu sveifluhagkerfi.

Þess vegna er ástæða til að spyrja: Hvers vegna hafa þessir sömu menn ekki notfært sér þau meðul sem til eru gegn þeim sveiflum sem íslenskt efnahagslíf á við að etja? Ég skal ekki ábyrgjast að ég muni rétt, en einhvern veginn finnst mér að ég hafi heyrt, að hv. 1. þm. Austurl. hafi einhvern tíma notað verðjöfnunarsjóði. Ég leyfi mér hins vegar að efast um að það hafi verið gert af þeim skilningi og þeirri visku sem til þarf í þeim efnum.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson ræddi þetta mál hér í umr. af öllu meiri skilningi en þeir flokksbræður hans. Og þetta segi ég honum til hróss. Hann lét okkur í té upplýsingar úr þýsku tímariti sem sýndi að víða í nágrannalöndum okkar hefur ekki tekist að halda raunvaxtastefnu gangandi. En hann lét þess ógetið í þessari upptalningu, hver væri munurinn á raunvöxtum hér á Íslandi miðað við verðbólgu, og þeim vöxtum sem greiddir hafa verið á því árabili sem hann tiltók, á árabilinu 1972–1977. Mér segir svo hugur um, að ef sú tala væri til, þá væri hún líklega liðlega helmingi hærri en í því landi þar sem munurinn var hvað mestur í upptalningu hans, en það var í Bretlandi. Þessu til viðbótar er rétt að geta þess, að einmitt á þessu árabili, sem þarna var nefnt, geisaði mikil verðbólga sem var sérstök afleiðing olíuhækkunar, en hún bitnaði fyrst og fremst á þeim löndum sem þurftu mikla olíu í sínum iðnaði, en það eru iðnvæddu ríkin vestan járntjalds. Það voru einmitt þau sem komu fram í þessari upptalningu.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði réttilega, að það væri auðvitað hægt að nálgast þetta vandamál með öðrum hætti, það væri hægt að ná niður verðbólgunni, eins og ríkisstj. stefndi að að hans sögn, og ef tækist að halda verðbólgunni í u.þ.b. 35% á ársgrundvelli næsta ár, eins og að væri stefnt, yrði áðurgreindur munur ekki ýkja mikill hér á landi. En þá er ástæða til að spyrja: Getur verið að hæstv. ríkisstj. nálgist þetta markmið sitt? Í því sambandi held ég að rétt sé að benda á að ríkisstj. hefur ekkert gert í þá átt að þessi draumur hv. þm. geti ræst. Engin svör hafa enn komið fram um það, hvað gerist 1. des. n.k. Það liggur nú þegar fyrir hvað muni gerast, hvað verðlag muni hækka, en það liggur ekkert fyrir um það, hvernig ríkisstj. ætli að bregðast við. Það liggur heldur ekkert fyrir um það, sem kannske skiptir máli í þessari umr., hvernig ríkisstj. ætlar sér að tryggja hag sparifjáreigenda. Það liggur ekkert fyrir um stefnu þessarar ríkisstj. varðandi vaxtamálin. Einn hefur þessa skoðun og annar aðra. Á þetta vil ég benda, því að þetta mjög áberandi í þessari umr.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson taldi jafnvel að með þessum umr. hefði verið lagður grundvöllur undir nýja ríkisstjórn, ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. Ég veit að hv. þm. hefur mikla reynslu af því að mynda ríkisstjórnir. Hann er m.a. aðalhöfundur og guðfaðir þeirrar ríkisstj. sem nú situr. Ég held samt að það verði einhver bið á því, að Sjálfstfl. verði tilbúinn til að hlaupa undir bagga og reyna að koma lagi á vitleysu núv. hæstv. ríkisstj. Hún ber ein ábyrgð á henni vegna þeirra kosningaloforða sem stjórnarflokkarnir höfðu í frammi fyrir kosningar, en öllum er ljóst að ekki á að standa við eftir kosningar. Og að því marki, sem það verður reynt, verður það aðeins gert með því að auka verðbólguna í landinu.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson gefur sér það, að þeir, sem styðji raunvaxtastefnuna, haldi að með einu pennastriki sé hægt að koma í veg fyrir verðbólguna. Þetta er að sjálfsögðu alveg út í hött og er ekki rétt, ef hlustað er á það sem við sjálfstæðismenn höfum sagt við þessa umr. Við höfum hins vegar bent á að raunvaxtastefna, það að greiða fullt verð til baka fyrir það fjármagn sem fengið er að láni, leiði til þess að fjármagnið leiti á arðsamar brautir. Í framhaldi af því má gera ráð fyrir að slíkar aðgerðir verði til þess ásamt öðru að verðbólgan hjaðni.

Þá kom fram kenning um að vaxtaaukalánin svokölluðu hafi gert hlut sparenda verri en hann var áður. Hér er eins og oft áður í þessum umr. ruglað saman orsök og afleiðingu. Vaxtaaukalánin voru sett á laggirnar vegna verðbólgunnar. Þau byrjuðu 1. maí 1976 vegna þeirrar óðaverðbólgu sem þá var farin að geisa og hafði geisað undanfarin ár. Ég mótmæli því hins vegar ekki, að auðvitað hefur aukinn fjármagnskostnaður áhrif á verðbólguna. En við verðum að hafa það í huga, að auðvitað eiga sparendur eins og aðrir í þessu þjóðfélagi rétt á því að verja sig í verðbólgunni. Í mörgum tilvikum er nefnilega um það að ræða, að sparað fé er ávöxtur vinnunnar og ætti þess vegna að hafa sömu vernd og vinnulaunin hafa nú með vísitölutryggingunni.

Þá tortryggði hv. þm. Lúðvík Jósepsson ýmislegt sem hér hafði verið lesið úr Hagtölum mánaðarins, að vísu var ekki komið inn á það sem ég las fyrr í umr. Mér þykir samt átæða til að benda á grein í þessu hefti sem ég hef fyrir framan mig, októberhefti 1977, og fjallar um fjárfestingarlánasjóðina. Ég tek þó fram að þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar alls ekki um þessa sjóði. Það fjallar aðeins um grein í seðlabankalögunum sem veit að bönkum og sparisjóðum, en ekki að fjárfestingarlánasjóðum. Ég hef aðeins fjallað um þá til að sýna hvernig verðbólgan leikur sjóðina grátt. Eftir að sagt er í þessari grein, að öll fjárframlög til fjárfestingarsjóða hafi brunnið upp á verðbólgubálinu 1974–1976, kemur það fram í greininni, að þetta hafi verið lagað með ýmsum hætti, það hafi verið veitt til þessara sjóða erlendu fjármagni og það hafi verið veitt til sjóðanna fjármagni frá lífeyrissjóðunum. Og það er athyglisvert, að bæði útlendingar, sem lána okkur peninga, og eins lífeyrissjóðirnir, sem lána peninga til þessara sjóða, fá sitt fé að fullu tryggt. En skattgreiðendurnir og sparendurnir, sem leggja inn í bankana til einhvers tíma, eiga enga tryggingu að fá. Þennan tvískinnung skil ég ekki.

Þá minntist hv. síðasti ræðumaður á það, að hann vissi til þess — og það var líka ný kenning að það hefði oft gerst, og mér skildist að það væri grundvallarregla, að fjármagnið leitaði til þeirra landa sem byðu jafnvel lága vexti. Ég staðhæfi að þetta er rangt. Þetta hefur að vísu gerst, en þá er það vegna þess, að í þessum lágvaxtalöndum er um það að ræða að gengið er ákaflega stöðugt. En einmitt þessa síðustu daga hafa borist fréttir af því, að í Bandaríkjunum hafi alríkisstjórnin, sem að sjálfsögðu nýtur afskaplega lélegra sérfræðinga að sumra áliti hafi lagt til og komið í framkvæmd að vextir skuli hækkaðir. Og hvers vegna skyldi það hafa verið gert? Það er gert vegna þess, eins og Bandaríkjaforseti hefur sagt að þeir eru í raun að fá fjármagnið til baka til Bandaríkjanna. Hann fylgir kenningu sem ég kannast við og ég held margir aðrir, sem eitthvað hafa reynt að rýna í þessi mál. Ég kannast ekki við hina kenninguna, að fjármagnið leiti til lágvaxtalandanna, eins og hér var haldið fram.

Það var ákaflega áberandi í málflutningi hv. síðasta ræðumanns að tala um vextina eins og þeir væru eini bölvaldurinn og þeir væru eini kostnaðurinn sem atvinnuvegirnir stæðu frammi fyrir. Ég get vel fallist á mörg þau rök, sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni um margt sem hann talaði um ef hann breytir orðinu vextir í verðbólgu, vaxtakostnaði í verðbólgu, fjármagnskostnaði í verðbólgu. Það gildir nákvæmlega sama fyrir fyrirtækið hvort það er vaxtakostnaður sem er mikill, hvort það er launakostnaður sem hækkar sífellt miðað við verðlag eða hráefniskostnaður hækkar miðað við verðlag. Það eru nákvæmlega sömu vandamálin sem skapast af þessu fyrir iðnað, þar sem langan tíma tekur að framleiða, en það var einmitt það dæmi sem hann nefndi. Við vitum að hér á landi njóta launamenn þess, að laun þeirra eru vísitölutryggð. En sparifjáreigendur njóta þess ekki að sama skapi. Af hverju á að gera þennan mun? Á því hafa engar skýringar fengist.

Svo er komið að því, hvernig eigi að leysa þennan vanda, og hann á að leysa með verðbólguskatti, er sagt. Hv. síðasti ræðumaður sagðist hafa í fórum sínum lausn á því, hvernig mætti setja slíkan skatt á, en hann lýsti honum ekki. Hann bauð bara samstarf. Ég hefði kosið að heyra þar patentlausn, því að kt patent hefur heyrst fyrr í þessum umr. Ég get ekki skilið hvernig á að leysa þetta mál. Ég veit ekki hvernig á að gera mun á þeim sem byggja fyrir lánsfjármagn í fjárfestingarskyni annars vegar og fyrir eigið fjármagn hins vegar. Á því hlýtur að vera munur, og ég skil ekki hvernig á að greina þetta í sundur. Eflaust eru til skýringar á því, og því er ástæða til að þær komi fram í umr.

Ég tel, eins og reyndar áður hefur komið fram, að meginstefnan í þessu frv. sé góð Ég skal ítreka það, að ég tel að það verði að sjálfsögðu að breyta þessu frv. í meðförum nefndar. Það kemur t.d. ekki til greina, að innláns- og útlánsvextir séu á einu númeri, eins og kallað er. Það sér hver maður. Þetta veltir að vísu upp nýrri spurningu, spurningunni um það, hvað sé sparnaður. Er sparnaður það sem skilgreint er í Hagtölum mánaðarins, þeir seðlar sem menn hafa á milli handa á degi hverjum?

Er það sparnaður sem menn leggja inn á hlaupareikning eða ávísunarreikning? Eða er það aðeins sparnaður sem menn leggja fyrir til langs tíma inn á bundnar bækur? Þetta er spurning sem er ástæða til að velta fyrir sér þegar talað er um sparifé og sparnað landsmanna.

Þá höfum við sjálfstæðismenn við þessa umr. haft fyrirvara um það sem segir í grg. frv. um húsnæðismálin og um húsbyggingasjóð ríkisins. Við teljum ófært að fara þá leið sem á er bent í grg. frv. Við teljum að húsbyggingarsjóður ríkisins sé félagslega mikilvægur og þess vegna beri að greiða niður það fé sem þar er lánað út, eins og reyndar er gert í dag, og þá sérstaklega til ungs fólks sem er að byggja í fyrsta skipti.

Við vekjum athygli á því jafnframt, og á það vil ég leggja áherslu, að raunvaxtastefna verður að vera liður í miklu umfangsmeiri breytingum í okkar efnahagskerfi. Við verðum að fara að stýra í þessu þjóðfélagi með verðjöfnunarsjóðum. Það verða menn að fara að skilja. Við verðum að jafna með þeim verðsveiflur. Við verðum að hafa hér skýra peningamálastefnu. Við verðum bæði að átta okkur á peningamagninu, sem er í umferð, og eins á því, hvaða vaxtastefnu við ætlum að reka. Við verðum jafnframt að átta okkur á því, að útgjöld ríkisins hafa þýðingu sem hagstjórnartæki. Við verðum jafnframt að breyta verðmyndunarkerfinu í landinu, af því að núverandi verðmyndunarkerfi og verðlagskerfi hefur skekkt allan grundvöllinn. Við verðum jafnframt að viðurkenna það, ef við viljum ekki lifa í fölsku kerfi, lifa í einskonar Tívolí með okkar sérstöku spilapeninga, að skrá verður gengið rétt. Að lokum, og það er kannske eitt af því mikilvægara, þarf að laga til vísitölukerfið. Um það hefur þegar verið rætt og verður sjálfsagt rætt síðar, og ég læt það vera að sinni. Við verðum sem sagt að rétta efnahagskerfi okkar af, og þegar við viljum styrkja atvinnugreinar eða einstaklinga með því að láta þá borga minna til baka, þá eigum við að kalla það styrki. Það hefur enginn gott af því að trúa því sjálfur, að hann sé að greiða til baka lán að fullu þegar hann gerir það aðeins að hluta. Sjálfslygin er kannske versta lygin.

Ég vona að þetta frv., sem hér liggur fyrir, fái þá meðferð í nefnd, að það veki þar þann skilning, að þetta skref, sem tekið verður, ef raunvaxtastefnan verður ofan á, er liður í því að gera nauðsynlegar úrbætur í okkar efnahagskerfi. Ef við ætlum að lifa hér í framtíðinni sæmilega frjálsir menn, verðum við að skilja hvar peninganna er aflað, hvernig þeir dreifast og hvernig þeir síðan greiðast til baka. Frv. þetta er einn liðurinn í þeirri starfsemi, og ég vonast til þess, að það fái ítarlega umfjöllun í nefnd.