02.05.1979
Neðri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4305 í B-deild Alþingistíðinda. (3432)

259. mál, lausaskuldir bænda

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Í tilefni þeirra orðaskipta, sem hér hafa orðið um afstöðu Alþfl. í þessu máli, vil ég láta koma fram, að ég held að flestir Alþfl. menn hafi áttað sig á því hér í þinginu að ekki er um að ræða í þessu frv. neina sérstaka greiðasemi við bændur eða verið að gefa þeim neitt, heldur er tilgangur frv. að svara ákveðnum vandamálum sem bændastéttin hefur átt við að glíma á síðustu árum vegna ástands í efnahagsmálum, verðbólgu og fleiri slíkra þátta. Ríkisstj. er auðvitað skylt að taka á slíkum vandamálum, hvort sem þau koma upp í landbúnaði eða öðrum atvinnugreinum. Hér er verið að ræða um lán sem verða verðtryggð. Þarna er ekki um neinar gjafir að ræða, heldur ákaflega eðlilega fyrirgreiðslu og eðlileg viðbrögð ríkisstj. við tilteknum vandamálum. — Þetta vildi ég láta koma fram hér.