02.05.1979
Neðri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4305 í B-deild Alþingistíðinda. (3435)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Á þskj. 576 er nál. frá meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. um frv. til l. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar árið 1979. Mál þetta barst n. 19. mars s. l., en nokkur dráttur hefur orðið á afgreiðslu þess, m. a. vegna hlés sem gert var á störfum þingsins fyrir páskana. Fyrir páskana hafði n. og til meðferðar frv. um efnahagsmál og þessi d. þá einnig, sem gerði að verkum að ekki var hægt þá að afgreiða það frv. sem nú er til umræðu.

N. hefur rætt frv. á 6 fundum, en samkomulag varð ekki um afgreiðslu þess. Meiri hl., undirritaðir nm. sem eru stuðningsmenn ríkisstj., flytur nokkrar brtt. við frv. á sérstöku þskj., 577, og leggur til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem þar eru gerðar till. um. Einstakir nm. í meiri hl. gera aths., þá einkum Kjartan Ólafsson, hv. 3. þm. Vestf., sem gegndi formannsstörfum í n. vegna fjarveru hv. 1. þm. Austurl., sem var í opinberum erindum erlendis og er formaður n., en hv. 3. þm. Vestf. áskildi sér rétt til þess að vinna að frekari breytingum í sambandi við 3. gr. frv. Minni hl., fulltrúar Sjálfstfl. í n. Matthías Á. Mathiesen og Ólafur Einarsson, skilar séráliti.

Ég vil nú gera grein fyrir því hvert það atriði var sem hv. 3. þm. Vestf. hafði aths. við að gera í sambandi við 3. gr., en samkomulag varð um það í meiri hl. að það mál skyldi ekki verða til meðferðar eða afgreiðslu fyrir 2. umr., heldur kæmi það til afgreiðslu fyrir 3. umr. Hann vildi að niður félli sá hluti af síðasta málsl. 3. gr. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „enda sé sala skuldabréfa þessara í samræmi við lánsfjáráætlun ríkisstj.“ — Það var skoðun sumra innan n., þ. á m. lét ég í ljós þá skoðun, að ef næðist samkomulag mætti fallast á þetta, en ástæðan fyrir þeirri skoðun er sú setning í greininni sem ég vil nú lesa, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. kynnir hverjum og einum lífeyrissjóði að hvaða marki sjóðurinn skuli kaupa bréf af hvorum þessara fjárfestingarsjóða.“ Hins vegar urðum við ekki á eitt sáttir og náðist ekki samstaða um þetta atriði en það náðist samstaða um að láta málið bíða til 3. umr. Á fundi meiri hl. lýsti ég yfir að ég hefði ekki haft aðstöðu til þess að bera þetta sérstaklega undir hæstv. fjmrh., en hann hafði áður lýst yfir að hann vildi láta orð þessi óbreytt standa. Hins vegar taldi hæstv. forsrh. að það atriði, sem ég las upp úr greininni, mundi tryggja það, sem stefnt væri að með 3. gr., og þess vegna mundi það ekki hafa áhrif þó að felldur yrði niður hluti síðasta málsl. greinarinnar sem ég hef greint frá. Um þetta þarf ég svo ekki að eyða fleiri orðum. Afgreiðsla verður að sýna hvernig fer.

Fjölmargir aðilar voru kvaddir á fund n. til viðræðna og varðandi upplýsingaöflun. Má þar m. a. nefna fulltrúa frá Húsnæðismálastofnun ríkisins, Ferðamálaráði, Landsvirkjun, frá tveimur samböndum lífeyrissjóða og svo var fjárlaga- og hagsýslustjóri mættur á fundunum.

Brtt. meiri hl. n. snerta níu greinar frv. Við 3. gr., sem ég var að vitna í áðan, er brtt. Þar segir: „ að hvaða marki sjóðurinn skuli kaupa bréf af hvorum þessara fjárfestingarsjóða.“ Lagt er til að niður falli „skuli kaupa“, en í staðinn komi orðið: kaupi.

Þá eru atriðin sem um er að ræða í þeim greinum sem á eftir koma.

Þegar fjárlög voru afgreidd í vetur var gert ráð fyrir fjárhagsáætlun til fjárfestingarlánasjóða, og í lánsfjáráætlun var gert ráð fyrir að það væri bundin tala sem hefði breyst frá því sem reiknað hafði verið með við fjárlagaafgreiðsluna. Hins vegar komu upplýsingar um meðalverðlag ársins 1979 sem gerðu að verkum að þær fjárhæðir, sem hinir mörkuðu tekjustofnar höfðu skilað fjárfestingarlánasjóðum, voru meiri en reiknað var með við fjárlagaafgreiðsluna og hefðu orðið hærri en reiknað var með í frv. til l. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Varð að samkomulagi innan meiri hl., og ég hygg innan n., að þessu skyldi breytt á þann veg, að tekin yrði sú meðalverðhækkun, sem var reiknað með á árinu 1979, og það fé er bundið í þeim brtt. við frv. sem nú er lagt til að verði samþykktar.

Þá er og þess að geta, að sú fjárhæð, sem hér er um að ræða í fjárfestingarlánasjóði, mun gera um 600–700 millj. kr. Er þá einn sjóður undanskilinn, sem ég ætla að gera sérstaka grein fyrir síðar. Sjóður sá sem aðallega nýtur þess arna, er Byggingarsjóður ríkisins, en tekjur hans munu hækka um 500 millj. við þessa breytingu.

Þá vil ég og geta þess, að rétt þótti, þar sem Fiskveiðasjóður hefði við þessa breytingu tapað frá því sem áætlað var í lánsfjáráætluninni eins og hún var lögð fram, að binda þá upphæð sem gert er ráð fyrir að hann fái samkv. frv. því sem hér liggur fyrir til 2. umr.

Þá er enn fremur að geta þess, að gert er ráð fyrir því í frv. að lán það, sem Framkvæmdasjóði er ætlað að taka erlendis, 3950 millj., verði hækkað upp í 4 milljarða 450 millj., og er þá jafnframt ákveðið að 450 millj. af þeirri upphæð gangi til Fiskveiðasjóðs til að mæta lækkun á tekjum Fiskveiðasjóðs vegna laga nr. 3 frá 2. mars 1979. Þetta var upphaflega í frv. um lánsfjáráætlunina. Við þá breytingu, sem gerð var í hv. fjh.- og viðskn., var haldið sig við að Fiskveiðasjóður fengi sömu fjárhæð, en hann ekki látinn tapa við þá breytingu sem þar var gerð.

Þá er og gerð sérstök breyting á 20. gr. frv., en þar er átt við Ferðamálaráð. Í lögum um Ferðamálaráð er gert ráð fyrir að tekjur ráðsins séu m. a. 10% brúttótekna af Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar var í þessu frv. gert ráð fyrir að um væri að ræða 10% af nettótekjum eða því sem ríkissjóði væri skilað. Sú breyting er nú gerð, að þær fjárhæðir, sem hér er um að .ræða, eru þannig: Gert er ráð fyrir að heildarumsetning Fríhafnarinnar verði 1800 millj. kr. og skilað verði 480 millj. Miðað við að lögin hefðu gilt eins og þau eru um Ferðamálaráð hefði því Ferðamálaráð átt að fá 180 millj. kr., en með frv. eins og það kom upphaflega fram hefði upphæðin ekki orðið nema um 48 millj. kr. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til og nauðsyn bar til að gera til þess að tryggja starfsemi Ferðamálaráðs, mun Ferðamálaráð fá um 144 millj. kr. Því munar við breytinguna ekki nema rúmum 30 millj. frá gildandi lögum. Þetta leggur meiri hl. til að verði samþ. og telur að með því móti sé sæmilega séð fyrir málum Ferðamálaráðsins.

Þá vil ég geta þess, eins og áður hefur komið fram, að á fundi n. mættu fulltrúar frá Landsvirkjun m. a. Þeir gerðu n. grein fyrir því, að meira fjármagn mundi þurfa til framkvæmda við það verk sem fyrirtækið er að vinna að nú, það mundi vanta um hálfan annan milljarð miðað við þá áætlun, sem hefur verið gerð um gengissig og verðbreytingu á árinu, og þau útboð sem þegar hefur verið samið um. Ekki taldi n. ástæðu til að hún fjallaði sérstaklega um þennan þátt, enda mundu e. t. v. fleiri þættir vera þannig að sérstaklega yrði fyrir þeim að sjá, og taldi það vera verk ríkisstj. að fjalla um slíka þætti.

Þá barst n. brtt. frá hv. þm. Ingvari Gíslasyni og Lárusi Jónssyni um fjárveitingu eða fjárútvegun til Kröfluvirkjunar. Ekki taldi meiri hl. sér fært að standa að þeirri brtt. og taldi að ef að því verki ætti að vinna á þessu ári hefði ríkisstj. lagt það til. Fjh.- og viðskn. leggur því ekki til að hún verði samþ.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir störfum n. og nál. hennar, því að það skýrir það sem hér um ræðir. Niðurstaðan er sú, að meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. leggur til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem er að finna á þskj. 577 og þannig breytt gangi það áfram gegnum hv. Nd.