02.05.1979
Neðri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4308 í B-deild Alþingistíðinda. (3436)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Því miður er ekki búið að útbýta nál. minni hl. — það var nokkuð seint á ferðinni, en ég mæli hér engu að síður fyrir því. Minni hl. n. skipa fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn.

Það má segja að afgreiðsla þessa frv. sé í fullu samræmi við vinnubrögð stjórnarliðsins að því er varðar efnahagsmálin yfirleitt. Frv. kom seint fram, það er illa unnið, það spannar ekki yfir það sem nauðsynlegt er og staðreyndir sýna.

Það er ljóst að margar nauðsynlegar eða óhjákvæmilegar framkvæmdir lenda utan þessarar lánsfjáráætlunar, en það er líka ljóst að tekið er fram fyrir hendur fjvn. og þingsins með því að teknar eru inn í áætlunina framkvæmdir sem hafnað var við afgreiðslu fjárl. í des. s. l. Jafnframt er svo ljóst að farið verður út fyrir þann ramma, sem settur var með efnahagsmálalöggjöfinni fyrir skömmu, og farið verður langt út fyrir það sem ætlað var varðandi erlendar lántökur. Þar nefni ég sem dæmi fjárþörf Landsvirkjunar umfram það sem ætlað er í frv., en bréf Landsvirkjunar til iðnrh. frá 23. apríl er prentað sem fskj. með nál. minni hl. Ég skal nefna nokkur atriði úr því bréfi. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Landsvirkjun hefur endurskoðað stofnkostnaðaráætlun Hrauneyjafossvirkjunar í ár með hliðsjón af framangreindu,“ — sem áður er greint í bréfinu og ég hirði ekki um að telja upp, — „auk þess sem fjárhagsáætlanir fyrirtækisins í heild hafa verið endurskoðaðar miðað við 35% áætlaða verðbólgu á þessu ári og 20% gengissig, en fyrri áætlanir miðuðust við 25% verðbólgu og 20% gengissig. Niðurstöður þessara áætlana eru þær, að lántökur Landsvirkjunar í ár þurfa að nema alls 8070 millj. kr. í stað 6500 millj. kr. samkv. drögum að lánsfjáráætlun ársins. Nemur hækkunin samkv. þessu um 1000 millj. kr. vegna vanáætlunar á kostnaði við byggingarvinnu og 500 millj. kr. vegna breyttra verðlagsforsenda o. fl.“

Þá segir hér, þegar greint hefur verið frá því að fjárfestingin sé 9040 millj.:

„Þess ber að geta, að framangreindar áætlanir byggjast á því, að rafmagnsverð Landsvirkjunar hækki um 45% hinn 1. maí n. k., 30% hinn 1. ágúst n. k. og 14.5% hinn 1. nóv. n. k. svo tryggja megi greiðsluhallalausan rekstur og að auki 550 millj. kr. úr rekstri til fjármögnunar framkvæmda, eins og drög að lánsfjáráætlun ársins gera ráð fyrir, sbr. og bréf Landsvirkjunar til rn., dags. 30. mars s. l. Fari svo, að hækkanir þessar verði að einhverju leyti ekki samþykktar, eykst lánsfjárþörfin að sama skapi fram yfir 8070 millj. kr.“

Og svo segir að lokum í þessu bréfi:

„Með hliðsjón af framangreindu fer Landsvirkjun þess hér með á leit við yður, hæstv. iðnrh., að þér hlutist til um að við endanlega afgreiðslu lánsfjáráætlunar ríkisins fyrir árið 1979 verði gert ráð fyrir að lántökur Landsvirkjunar nemi 8000 millj. kr. (um $23.0 m.) í ár og þá með fyrirvara um leiðréttingar eftir því sem frávik frá framangreindum forsendum um verðlagsþróun og gjaldskrárbreytingar kunna að gefa tilefni til.“

Þetta var úr bréfi Landsvirkjunar.

Þá má einnig ætla að nauðsynlegt verði að leysa fjárþörf ýmissa hitaveitna í landinu, en þar hefur ýmislegt verið skorið niður í þessari lánsfjáráætlun, og reyndar má nefna önnur orkufyrirtæki. Yrði sú upphæð vart undir

1.5–2 milljörðum. Ég nefni þar Hitaveitu Akureyrar og hitaveitur Akraness og Borgarfjarðar, og þá má einnig nefna Kröfluvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og sjálfsagt fleira, eins og t. d. Póst og síma, Ríkisútvarpið o. fl., o. fl. Þá hefur heyrst að leysa ætti vandamál landbúnaðarins með erlendum lántökum, sem yrðu þá væntanlega 3.5–4 milljarðar, en á þau mál má helst ekki minnast við afgreiðstu þessa frv. Það er eflaust ætlun stjórnarflokkanna að afgreiða það mál utan lánsfjáráætlunar. Það má því segja að þegar allt þetta er talið vanti allt að 8–10 milljarða til þess að rétt mynd verði dregin upp. Það er þess vegna alveg augljóst mál, að fjárfestingin í landinu mun fara fram úr 25% markinu sem sett var í nýsamþykktum lögum um stjórn efnahagsmála. Það verður að teljast hreint lögbrot samkv. þeim lögum að fara fram úr 25% markinu, en það skiptir kannske ekki máli því að eins og kom fram í umr. um það frv. eru engin refsiákvæði í lögunum svo að stjórnarliðar þurfa víst ekki að reikna með að verða fyrir neinum meiðingum þó að þeir brjóti þessi nýsamþykktu lög. Það má einnig gera ráð fyrir að erlendar lántökur geti farið allt upp að 50 milljörðum kr. í raun, þótt þessi áætlun geri ráð fyrir 39 milljörðum. Á s. l. ári 1978, voru hinar erlendu lántökur 32.1 milljarðar brúttó,11.8 milljarðar nettó, sem svaraði til 2.1% af þjóðarframleiðslu, en verða á þessu ári samkv. framansögðu vart undir 3% af þjóðarframleiðslu, og skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann halda auðvitað áfram að vaxa þrátt fyrir allar yfirlýsingar hæstv. ríkisstj. um hið gagnstæða.

Eins og rækilega hefur komið fram er þetta frv. seint fram komið. En auk þess hefur afgreiðsla þess tekið langan tíma í fjh.- og viðskn. Það stafar auðvitað af hinu venjulega ósamkomulagi stjórnarflokkanna um afgreiðslu hinna mikilvægustu mála. En e. t. v. mætti draga þá ályktun af þeim drætti, sem orðið hefur á afgreiðslu málsins í n. og þar af leiðandi afgreiðslu málsins hér í þinginu, að það hafi verið ætlun stjórnarflokkanna að koma í veg fyrir ýmsar framkvæmdir, sem sótt er á að framkvæma í landinu, eða a. m. k. að tefja fyrir þeim.

Á fund n. komu ýmsir aðilar til viðræðna og til þess að koma á framfæri aths. sínum. Meiri hl. n. hefur tekið misjafnlega í þær aths. sem viðræðuaðilar höfðu fram að færa. Nokkuð hefur verið gangið til móts við óskir Ferðamálaráðs um breytingar á 20. gr. frv., þar sem framlag til Ferðamálaráðs er hækkað úr 10% í 30% af skilum Fríhafnarinnar til ríkissjóðs með brtt. sem meiri hl. hefur flutt. Brtt., sem varða 12.–19. gr. frv., eru til bóta og fremur í samræmi við afgreiðslu fjárl. en ákvæði frv. upphaflega voru.

Um vanda Landsvirkjunar er hins vegar ekki rætt og ekkert upplýst um hvernig sá vandi verði leystur, hvort frestað verði framkvæmdum eða hvort auknar verði lántökurnar, og auðvitað liggja ekki heldur fyrir neinar yfirlýsingar um hvernig tekið verður í óskir um gjaldskrárbreytingar síðar á árinu sem ég greindi frá áðan.

Á forráðamenn lífeyrissjóðanna er ekki hlustað, en hins vegar flytur meiri hl. einskis verða brtt. við 3. gr. frv., — brtt. sem frsm. meiri hl. n. gerði grein fyrir áðan, en var í hálfgerðum vandræðum með. Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir skyldu lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands til þess að kaupa skuldabréf Byggingarsjóðs ríkisins fyrir 20% af ráðstöfunarfé sínu. Hér er um verulega breytingu frá fyrri lögum að ræða á skyldu lífeyrissjóða til skuldabréfakaupa. Sú skylda er lögð á lífeyrissjóðina að kaupa skuldabréf af tilteknum sjóði, í þessu tilviki Byggingarsjóði ríkisins. Hliðstæð ákvæði voru fyrst leidd í lög 1977 með lögum um lántökuheimildir, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1978, lög nr. 82/1977. Þar voru ákvæði um skyldur lífeyrissjóðanna þannig að hverjum lífeyrissjóði, sem nýtur viðurkenningar fjmrn. samkv. skattalögum, sé skylt á ári hverju að verja a. m. k. 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á skuldabréfum með fullri verðtryggingu til langs tíma. Jafnframt var svo fjmrn. gert skylt að hafa jafnan verðtryggð skuldabréf til sölu, eigin skuldabréf, bréf Framkvæmdasjóðs Íslands og Byggingarsjóðs ríkisins, og andvirði bréfanna skyldi ráðstafað samkv. lánsfjáráætlun ríkisstj. Áður en þessi ákvæði voru leidd í lög höfðu verið gerðir samningar um nokkur ár milli fjmrn. og einstakra lífeyrissjóða um kaup lífeyrissjóða á verðtryggðum skuldabréfum Framkvæmdasjóðs og Byggingarsjóðs fyrir tiltekinn hluta af ráðstöfunarfé sjóðanna. Tilgangur þessara verðbréfakaupa var tvíþættur: annars vegar að greiða fyrir þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun atvinnuvega og íbúðabygginga og hins vegar að gefa þeim kost á að ráðstafa verulegum hluta af ráðstöfunarfé sínu með fullri verðtryggingu. Með lögum frá 1977 vegna lánsfjáráætlunar 1978 var lífeyrissjóðum svo gert skylt að ávaxta tiltekinn hluta af ráðstöfunarfé sínu með fullri verðtryggingu að mati Seðlabankans. En með ákvæðum þeirra laga voru sjóðirnir ekki skuldbundnir til þess að kaupa nein tiltekin bréf, en gert ráð fyrir að leitað yrði samninga við þá eins og fyrri ár um að kaupa verðtryggð bréf af Framkvæmdasjóði og Byggingarsjóði. Þar var gert ráð fyrir allt að 30% af ráðstöfunarfénu, en jafnframt var sú kvöð lögð á fjmrn., eins og ég sagði áðan, að hafa ætíð á boðstólum verðbréf með fullri verðtryggingu þannig að lífeyrissjóðirnir gætu jafnframt fullnægt þeirri lagaskyldu að ávaxta a. m. k. 40% af ráðstöfunarfé sínu í slíkum bréfum. Sú skylda fjmrn. er nú felld brott með ákvæðum þessa frv.

Um ákvæðin, sem lögleidd voru í des. 1977, varð töluverður ágreiningur og lífeyrissjóðirnir mótmæltu því að sú kvöð skyldi á þá lögð. Með þessu frv. er hins vegar ætlunin að fara inn á talsvert aðra braut, þ. e. a. s. lífeyrissjóðirnir á samningssviði Alþýðusambands Íslands eru skyldaðir til þess að kaupa skuldabréf Byggingarsjóðs fyrir 20% af ráðstöfunarfénu. Því má svo bæta við, að í löggjöfinni frá 1977 var það ákvæði, að ef sérstakar fjárhagsástæður einstakra lífeyrissjóða krefðust gæti fjmrh. lækkað hlutfall til verðbréfakaupanna. Það atriði er nú fellt brott. Það að leggja þá skyldu á lífeyrissjóðina að beina slíkum viðskiptum að tilteknum aðila jafngildir því að einstaklingum eða fyrirtækjum væri skipað með lögum að skipta við einhverja tiltekna aðila. Það má segja að við séum að komast aftur til þess tíma þegar mönnum var refsað fyrir að versla við annan kaupmann en þeim bar samkv. þeim boðum sem giltu á dögum einokunarverslunarinnar. Þetta er dæmi um hin auknu ríkisafskipti sem ætíð fylgja vinstri stjórnum. Ég mótmæli þessu ákvæði frv. og dreg mjög í efa að ákvæði þess standist gagnvart stjórnarskránni. Hér er ríkið í raun að taka til sín eina af aðildum eignarréttarins, rétt manna til að ráðstafa eignum sínum.

Þá hlýt ég að nefna það í þessu sambandi, að með því að skylda lífeyrissjóðina með þessum hætti til að fjármagna Byggingarsjóð ríkisins verður enn erfiðara að greiða úr lánsfjárþörf atvinnuveganna. Atvinnuvegirnir hafa mjög stuðst við lífeyrissjóðina, eins og alkunna er, bæði beint og óbeint gegnum Framkvæmdasjóð. Nú er enn lagður steinn í götu atvinnurekstrarins í landinu. En það er hins vegar í fullu samræmi við fyrri aðgerðir hæstv. núv. ríkisstj. gagnvart atvinnuvegunum að allt er gert sem unnt er til þess að gera þeim erfiðara fyrir. Það nægir ekki að leggja á þá drápsklyfjar skattanna og skerða afskriftarheimildir með handahófskenndum hætti, heldur á einnig að koma í veg fyrir að lánsfé fáist til fjárfestinga og rekstrar.

Það kom fram í máli fulltrúa lífeyrissjóðanna, sem komu á fund fjh.- og viðskn., að ekkert samráð hefði verið haft við sjóðina um þessi ákvæði frv. Lífeyrissjóðirnir voru óánægðir með löggjöfina 1977 og mótmæltu henni þá, eins og ég hef þegar greint frá. Þá var sú breyting gerð reyndar að lífeyrissjóðunum var gefinn kostur á að kaupa af öðrum en Byggingarsjóði og Framkvæmdasjóði, en nú er það frelsi tekið af. Þá bentu fulltrúar lífeyrissjóðanna sérstaklega á að sjóðirnir hefðu þegar gert sínar ráðstafanir og vafasamt að áðurnefnd ákvæði frv. mundu rúmast innan marka lánsfjáráætlunar. Það yrði miklu erfiðara að fá sjóðina til að gera þessi kaup núna. Það er um að ræða sem sagt þrengingu frá fyrri lögum. Það er ekkert ákvæði í frv. um hvað gera á ef lífeyrissjóðirnir hundsa kaupin, og þess vegna er líka afar ólíklegt að þessi ákvæði haldi.

Fulltrúar lífeyrissjóðanna greindu sérstaklega frá því, hversu gróflega væri gripið inn í þær ráðagerðir sem þegar hefðu farið fram hjá lífeyrissjóðunum. Með þessum ákvæðum væri fé dregið frá atvinnuvegunum, eins og ég nefndi áðan, og reyndar væri fé dregið burt frá hinum ýmsu héruðum landsins þar sem féð er ávaxtað, t. d. frá innlánsdeildum samvinnufélaganna, Iðnlánasjóður og Verslunarlánasjóður væru skornir niður og þeir gætu því ekki lánað til viðkomandi atvinnugreina í þeim mæli sem æskilegt er og eflaust er þörf á.

Á s. l. ári fóru um 23% af heildarkaupum sjóðanna í annað en kaup á bréfum Byggingarsjóðs og Framkvæmdasjóðs. Þar af fóru 20% til Iðnlánasjóðs, Verslunarlánasjóðs og stofnlánadeildanna, en 3.8% til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Möguleikarnir á að verja fé lífeyrissjóðanna til kaupa á bréfum þessara aðila eru hverfandi ef þetta frv. verður samþykkt svona. Ég vil þó taka fram, að það er skoðun mín að krafan til lífeyrissjóðanna af hálfu hins opinbera sé í sjálfu sér eðlileg, þ. e. ávöxtun fjármagns þeirra sé með þeim hætti að þeir kaupi verðtryggð skuldabréf, ella er hætt við að vanda þeirra verði varpað á ríkissjóð. En ákvæði frv. eru hins vegar í hæsta máta óeðlileg að því er varðar þessi atriði. En nóg um það.

Á fundi n. var greint frá erindi sem borist hafði frá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum um 25 millj. kr. sem þarf til hafnarbóta þar. Formaður n. upplýsti að hæstv. fjmrh. hefði lofað að vinna að lausn málsins, hvað sem það nú þýðir, og þess vegna væri ekki ástæða til tillöguflutnings. Því er treyst að þessi orð hæstv. fjmrh. þýði að málið verði leyst.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Við lítum svo á í minni hl. n. með hliðsjón af því, sem ég hef hér sagt, og fyrri athöfnum stjórnarflokkanna í efnahagsmálum yfirleitt, að best fari á því að stjórnarflokkarnir beri alla ábyrgð á afgreiðslu þessa frv. Stjórnarandstaðan hefur ekki tafið afgreiðslu þess og mun ekki gera. Það er fyrir löngu brýn þörf á að Alþ. afgreiði lánsfjáráætlun ársins 1979.