03.05.1979
Efri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4323 í B-deild Alþingistíðinda. (3442)

278. mál, heilbrigðisþjónusta

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Fyrsti flm. þess frv., sem nú er til umr., hefur gert rækilega grein fyrir efni þess og hvers vegna það er fram borið. Ég þarf því ekki miklu við að bæta. Ég vildi aðeins geta þess, að sveitarfélögin eiga í vaxandi örðugleikum með að sinna nauðsynjum sínum og eitt af því, sem hefur verið þungur baggi á sveitarfélögunum að undanförnu og í vaxandi mæli valdið þeim áhyggjum, er einmitt rekstur heilsugæslunnar. Það byggist að nokkru leyti á því að tiltölulega lítið af tekjustofnum sveitarfélaganna er verðtryggt, ekki nema kannske 10%, þegar ríkið hefur aftur á móti verðtryggt milli 70 og 80% af tekjustofnum sínum. Í verðbólguþjóðfélagi eins og hefur verið hér á undanförnum árum segir slíkt fljótt til sín. Þar að auki hefur verið tilhneiging til að hlaða verkefnum á sveitarfélögin án þess að fjármagn kæmi á móti. Síðasta dæmið um það er eftirlaun aldraðra, sem er sjálfsagt og eðlilegt mál, en þar er farið fram á allmiklar fjárhæðir frá sveitarfélögum án þess að þeim hafi verið færður tekjustofn á móti til þess að sinna því verkefni.

Vegna þess að þarna er aðeins um að ræða breytingu á greiðslu rekstrarkostnaðar til samræmis við eignaraðildina, sem manni finnst sjálfsagt og eðlilegt, vildi ég geta þess, að málið er ekki þar með leyst. Það eru nefnilega margar heilsugæslustöðvar, sem eru reknar í þessu landi nú, sem ríkið á ekki og ekki eru í eignarhúsnæði, heldur leigja húsnæði undir starfsemi sína. Ég vona að tekið verði fullt tillit til þarfa á starfsemi þeirra heilsugæslustöðva þegar gengið verður endanlega frá þessu frv.

Þar sem ég sit í n. þeirri, sem mun fjalla um þetta mál, ætla ég ekki að vera langorður, en ég vildi þó geta þess hve gífurleg hjálp það hefur verið fyrir ríkissjóð og reyndar fyrir mestalla landsbyggðina að sú stefna var tekin upp, þegar búið var að samþykkja lögin um heilbrigðisþjónustu 1973, að í þéttbýlinu yrðu heilsugæslustöðvar reknar í leiguhúsnæði þar til lokið hefði verið uppbyggingu — eða að mestu leyti — úti á landi. Breyting yfir í heilsugæslustöðvar hér hefur því ekki komið fjárhagslega við ríkið. Þetta hefur verið til mikilla hagsbóta. Hins vegar er óþarfi að það lendi líka á rekstrinum, og ég held að ekki ætti að verða örðugt að finna leið til þess að tryggja að þeir aðilar, sem leigja húsnæði fyrir starfsemi sína, fái sanngjarna meðferð í þessu efni.

En úr því að lögin um heilbrigðisþjónustu eru opnuð á ný langar mig til að geta um þann annmarka sem er kannske hvað alvarlegastur núna og ég hef reyndar vikið að fyrr á þessu þingi, um læknisþjónustuna í minnstu héruðunum, þ. e. a. s. á H 1 stöðvunum. Enginn vafi er á að það er eitt mesta vandamálið, sem við eigum við að glíma núna, að tryggja læknisþjónustu þar sem ekki er ætluð seta nema einum lækni. Það á sér margar orsakir. Í fyrsta lagi nefni ég einangrunina og skortinn á möguleikum lækna á H 1 stöðvum að ná til starfsbræðra sinna. Í öðru lagi eru þeir í hópi þeirra fáu sem hafa beinlínis lakari kjör hlutfallslega en fyrir nokkrum árum. Og svo í þriðja lagi virðist margt benda til að takmarkaður áhugi sé víða á þessum stöðvum vegna þess að þær eru tiltölulega fáar. Hér er um ca. 15–18 stöðvar að ræða og hefur verið leitað ýmissa leiða til þess að tryggja þá starfsemi, sem var í raun og veru önnur höfuðástæðan fyrir þörfinni á nýju heilbrigðisþjónustulögunum. En það virðist ekki hafa tekist betur en svo, að aldrei í manna minnum hafa færri læknar verið ráðnir í þær stöðvar en nú. Er það mikið áhyggjuefni landlæknis og þeirra sem til H 1 stöðva sækja, vegna þess að þótt hægt sé að fá menn í nokkra mánuði, kannske eitt til tvö ár, skapar það ekki íbúunum það öryggi sem þeir þurfa við að búa. Hefur og sýnt sig, að til þess að búseta sé örugg á slíkum stöðum þarf heilbrigðisþjónustan að vera nokkuð trygg.

Eitt, sem veldur nokkru um hvað erfitt er að fá lækna til að sinna H 1 stöðvum, e;r það, að þeir eru engan veginn öruggir um að fá sumarfrí eins og annað fólk sem vinnur hjá opinberum aðilum. Læknar í einmenningsumdæmi eru í starfi allan sólarhringinn alla daga ársins. Þeir hafa kannske formlega séð rétt til að hverfa frá í einn sólarhring um helgar, en festir munu nota hann þar eð staðurinn væri þá læknislaus á meðan. En þegar þeir ætla að fara í burtu í sumarfrí verða þeir sjálfir að finna afleysingamann. Slíkt er hvorki sanngjarnt né eðlilegt. Flestir þeir þegnar þjóðfélagsins, sem svo stendur á um að þeir eru bundnir við bakvaktir allan þann tíma sólarhrings sem þeir ekki eru í föstum vinnutíma, fá mun lengra sumarfrí en venjulegir ríkisstarfsmenn. Svo er t. d. um þá sem vinna að læknisstörfum á spítölunum. Þeir fá einnig vetrarfrí ef þeir vinna ákveðinn dagafjölda aukavaktir. Þetta virðist sjálfsagt og eðlilegt. Sama er með þá sem eru t. d. á sjónum og hafa þar störf sem ekki verður farið frá þegar venjulegur vinnutími er liðinn. Þeir taka sér gjarnan leyfi frá störfum í 3–4 mánuði á ári. Er slíkt að verða almennara með hverju árinu og verður ekki lengur horfið til baka nokkra áratugi aftur í tímann, þegar mönnum þótti sjálfsagt að vinna dag og nótt þegar svo bar við að horfa.

Því frv., sem heilbrigðisstjórnin lagði fram nú til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu, er fyrst og fremst ætlað að breyta H 1 stöð í H 2 stöð. Stöð á Þórshöfn hafði verið breytt úr H 2 stöð í H 1, en í ljós kom fljótt að það þótti óhentugt og stendur til að breyta aftur. Sýnilegt er nú að það er til bóta. Er þá ekki til sú leið, að flestum H 1 stöðvum, þar sem eru við skulum segja 500–1000 íbúar, verði breytt í H 2 stöðvar? Læknar, sem þar eru, fengju þá möguleika til þess að ráða sér sumarafleysingamann og gætu tekið sér 4–5 mánaða frí, en tveir læknar væru starfandi þar þá tíma ársins þegar mest væri um að vera. Einnig gætu þeir sinnt heilbrigðisþjónustu og heilsuvernd þegnanna enn þá betur en áður ef þeir væru tveir. Þótt svo væri að farið á flestum H 1 stöðvum eru líkur til að slíkt mundi ekki hafa miklu meira en 50 millj. kr. útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóðinn, en mundi skapa miklu meira öryggi fyrir íbúa þessara staða og tryggja örugglega að einhverjir þeirra lækna, sem nú vinna úti í löndum, mundu koma heim til starfa. Þar að auki mundu þeir læknar, sem nú starfa úti í dreifbýlinu, fá betri kjör, þ. e. a. s. þeir mundu þá verða yfirlæknar, sem er nokkru betra með tilliti til kjara en er á H 1 stöðvum núna. Þetta held ég að n. þyrfti að rannsaka gaumgæfilega, þar eð það er sýnilega álit heilbrigðisþjónustunnar nú að H 2 stöðvarnar séu aðgengilegri og betra að fá menn þangað en á H 1 stöðvarnar. Höfum við reyndar vitað það um tíma. Sú stöð, sem hér er um að ræða og verið er að breyta aftur í H 2, þjónar 800–1000 íbúum.

Ýmislegt fleira en það, sem við erum nú að tala um, skapar möguleika fyrir eða getur torveldað heilbrigðisþjónustuna í dreifbýlinu. Kemur mér þá í hug hvernig ástatt er í samgöngumálum nú. Ég hafði búist við að hæstv. samgrh. væri hér í d., en svo er ekki. — En mig langar til að vekja athygli á því ástandi sem nú ríkir í landinu. Maður, sem þurfti að ferðast á vegum heilbrigðisþjónustunnar frá Reykjavík til Akureyrar fyrir tveim dögum, varð að fljúga sjónflug þangað norður vegna þess að einhverjir menn í Reykjavík voru með magapínu. Þennan dag bjuggu hundruð flugfarþega og áhafnir allar við minna öryggi en venjulega. Svo mun hafa verið ástatt um nokkurn tíma, ekki veit ég hve lengi, en allavega var ekki í gær hægt að fljúga milli Norðurlands og Austurlands vegna þess að einhverjir menn voru þá ekki upplagðir að vinna fyrr en kl. 7.30 um kvöldið. Mér sýnist á þessu að algert neyðarástand ríki í samgöngumálum á þessu svæði, t. d. hluta Norðurlands og öllu Norðausturlandi, þar sem vegir eru lokaðir vegna snjóa, ís lokar sjóleiðinni og flugleiðin er að vissu leyti lokuð líka, þó að kannske sé ekki hægt að fá staðfest að flugið sé í lamasessi allan sólarhringinn. Ég held að full ástæða sé til að rannsakað verði gaumgæfilega hvað hér er á seyði, vegna þess að við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi í þjóðfélaginu, er það mjög alvarlegt og þýðingarmikið.

Ég ætla þá ekki að ræða meira um þetta. En ég vildi sérstaklega leggja áherslu á að heilbr.- og trn. taki þau mál, sem ég hef verið að minnast á, til rækilegrar athugunar því að ég sé ekki annað en í algert vandræðaástand horfi á ný.