03.05.1979
Efri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4325 í B-deild Alþingistíðinda. (3443)

278. mál, heilbrigðisþjónusta

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Það skulu aðeins verða örfá orð að þessu sinni.

Segja má að margir þeir, sem starfað hafa að heilbrigðisþjónustu hafi orðið mjög undrandi þegar þeir sáu lögin sem komu frá Alþ. í maí á s. l. ári, þar sem kostnaði af rekstri heilsugæslustöðva og auðvitað sjúkrahúsa var breytt sveitarfélögunum mjög svo í óhag. Það er svo, eins og hv. frsm. og 1. flm. þessa frv. tóku fram, að sum sveitarfélög hafa geysilegan kostnað af rekstri sjúkrahúsa sem þau reka, þrátt fyrir að í ýmsum tilfellum veiti þessi sjúkrahús verulega þjónustu öðrum en búa í viðkomandi sveitarfélögum. Svo er, eins og flm. tók fram, um Sjúkrahús Akraness, sem starfað hefur frá 1952, að nærfellt öll ár síðan þá hefur það sjúkrahús veitt þjónustu utanbæjarmönnum, eins og gjarnan er kallað á Akranesi, það mikla að numið hefur 54-60% af sjúklingafjöldanum nær allan tímann. Þar er ekki verst ástandið núna því að oft áður hefur Akraneskaupstaður þurft að bera stóran bagga af rekstri sjúkrahússins og fengið oft og tíðum litla fyrirgreiðslu frá hinu opinbera. En á síðari árum hefur þessu þó verið allt annan veg farið, þar til fyrir ári. Þetta teljum við að þurfi að leiðrétta og telja það reyndar allir.

Okkur getur ekki sýnst annað en hafi verið um hreint slys að ræða á síðasta þingi. Ég ætla þm. varla að þeir hafi verið svo óréttlátir í hugsun að þeir hafi sett ákvæði um kostnaðarskiptingu inn þess vegna, heldur hafi beinlínis verið um slys að ræða. Ég vil einnig halda því fram að um rekstur heilsugæslustöðvanna sé sama máli að gegna, að raunverulega hafi verið um slys að ræða, en ekki ásetning. Eins og komið hefur fram hér í umr. stynja sveitarfélögin mjög undan þeim þunga bagga sem hefur verið á þau lagður með tilkomu rekstrar heilsugæslustöðvanna yfirleitt og sérstaklega með ákvæðinu sem var sett inn í lögin fyrir ári. Því flytjum við þetta frv.

Ég hef hugsað mér að frv. mætti ræða í n. ásamt frv. til l. um breyt. á lögum um heilbrigðisþjónustu sem kom fram í d. fyrir fáum dögum og er á þskj. 557. Þó það sé stjfrv., en þetta þmfrv., vonast ég til að menn geti orðið sammála um að þetta frv. þjóni sem nokkurs konar brtt. við stjfrv. Mér er einnig kunnugt um að það var vilji heilbrrn. að þetta spor væri stigið, þótt ekki kæmi fram í áðurnefndu frv. E:n þar sem hreyft hefur nú verið við lögum um heilbrigðisþjónustu, þau opnuð til umræðu, held ég að ekki verði komist hjá að opna málið á nokkru breiðari grundvelli en gert er í frv. á þskj. 557, og hugsa ég mér að við vinnum að máli þessu í n. samkv. þeim skoðunum.