03.05.1979
Efri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4327 í B-deild Alþingistíðinda. (3449)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Sú varð niðurstaðan í sjútvn., eins og segir í flestum nál., að leggja til að frv. verði vísað til ríkisstj. með ákveðinni ósk um að ríkisstj. hlutist til um að Hafrannsóknastofnunin haldi áfram tilraunum með kolaveiðar á Faxaflóa, svo að úr því verði skorið hvort nýta megi þennan fiskstofn á skynsamlegan hátt þannig að ekki skaði fiskislóð á þessu þýðingarmikla svæði. Með tilliti til ofanritaðs leggur n. einróma til að frv. verði vísað til ríkisstj.

N. fjallaði um málið á þremur fundum, fékk umsagnir fjölmargra aðila, sem leitað var til um að leggja dóm á málið, og tók við hálfu þriðja þúsundi undirskrifta sem beint er gegn frv. Það skal að vísu tekið fram, að nm. gafst hvergi nærri tóm til að kanna þessar undirskriftir, svo sem um aldur undirskrifenda eða hvernig málið var fyrir þá lagt. — Að dómi nm. taka andmælendur ekki nægilegt tillit til þess mismunar sem er á því veiðarfæri sem hér er ráðgert — í þessu þingmáli — að beita með ströngum takmörkunum, og dragnótinni í þeirri mynd sem hún áður var, þ. e. a. s. mismuninum á dragnót með 170 mm möskvastærð, ekki aðeins í poka, heldur einnig í belg og væng, og gömlu dragnótinni í þeirri mynd sem henni var áður beitt á Faxaflóa.

Nm. ræddu ýmsa möguleika á að slá varnagla við misnotkun veiðarfærisins og fjölluðu um málið af mikilli vinsemd, en niðurstaða okkar varð sú, að n. taldi að málið væri ekki nægilega undirbúið pólitískt og fiskifræðilega til þess að náðst gæti um það æskileg sátt að samþykkja frv. eins og nú standa sakir.

Þar sem n. leggur til að því verði beint til ríkisstj. að haldið verði áfram tilraunum með kolaveiðar á Faxaflóa, er átt við að reynt verði undir eftirliti og með forgöngu Hafrannsóknastofnunar að fá úr því skorið hvort hægt sé að taka af kola í Faxflóa slíkt magn að vinnsla þess fisks geti borið æskilegan arð. Það var álit n. að tilraunum Hafrannsóknastofnunarinnar ætti að halda áfram í þessa átt og þá ekki aðeins með því að auka tilraunir og fullgera tilraunir með dragnót á vegum stofnunarinnar, heldur reyna önnur veiðarfæri, hvort þau dygðu til þess arna, og á góma bar þá í nefndinni t. d. hugmynd sem fram hefur komið af hálfu Fiskifélagsins um kolaveiðar í gildru og einnig í lagnet. Ég hygg að segja megi að nm. hafi verið algerlega samdóma um að æskilegt væri að fullgera slíkar tilraunir og að búa þannig um hnútana að ekki þurfi að standa deila um þetta mál og óyggjandi niðurstöður fáist.

Þess má geta, að meðal þeirra, sem nm. fengu til viðræðu um málið, var Guðni Þorsteinsson fiskifræðingur, sem hefur mælt mjög eindregið með því að Faxaflói yrði opnaður fyrir dragnótaveiðum með ákveðnum takmörkunum, svo sem með þeim umbúnaði veiðarfæra sem áður er lýst, með 170 mm möskvastærð, og undir eftirliti. Hann sagði okkur í n., að ætla mætti að taka mætti a. m. k. 1000 tonn af skarkola úr Faxaflóa á þeim afmörkuðu svæðum sem henta til dragnótaveiða. Við fengum auk Guðna á fund n. formælanda smábátaeigenda í Hafnarfirði og sveitarstjóra Vatnsleysustrandarhrepps sem báðir mæltu gegn opnun flóans, en ekki fyrst og fremst vegna þess að þeir teldu að dragnótin sem slík hlyti að vera skaðlegt veiðarfæri, heldur lögðu báðir áherslu á nauðsyn þess að viðhalda enn um sinn þeirri friðun sem Faxaflói hefur notið fyrir fiskveiðum í dragnet yfirleitt, hvort heldur botnvörpu eða dragnót. En það þarf ekki að orðlengja að niðurstaðan af starfinu hjá okkur í sjútvn. að þessu sérstaka máli varð sú sem fram kemur í nál. og till.. okkar um að vísa frv, til ríkisstj. á ofangreindum forsendum.