03.05.1979
Efri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4328 í B-deild Alþingistíðinda. (3450)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég hafði raunar búið mig undir að fá ekki svona vinsamlegt nál. frá n. og safnað að mér heilmiklum gögnum til að verja uppeldisstöðina í Faxaflóa en ég fagna mjög svo nál. og mun þess vegna ekki flytja skammaræðuna. Ég vil aðeins taka það fram, að ég er alls ekki á móti skarkolaveiðum, ég hef alls ekkert á móti neinu sérstöku veiðarfæri og ég hef engan veginn nokkurn ímugust á fiskifræðingum. Hitt er allt annað mál, að mönnum verða stundum á glöp og menn standa stundum ekki í stöðu sinni, eins og sannaðist síðast þegar Faxaflóinn var opnaður.

En ég vil ekki tefja þessa umr. neitt, heldur þakka n. fyrir og fagna þeim niðurstöðum sem hún komst að. Hún hefði svo sem vel getað kallað fyrir sig Akurnesinga líka og fengið þá góð orð um að það mætti vel veiða kola ef uppeldisstöðvarnar í Faxaflóa væru ekki skemmdar þar með.

Ég sé þá ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar núna, og enga skammaræðu á ég í pússi mínu, en þakka fyrir nál. og fagna niðurstöðum álitsins.