03.05.1979
Efri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4330 í B-deild Alþingistíðinda. (3452)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Ég skal ekki teygja lopann lengi, en ég tel mér skylt, vegna þess að ég er 2. flm. málsins, að gera nokkra grein fyrir sjónarmiðum mínum.

Ég get vel fellt mig við afgreiðslu málsins í n., þar sem það er mér ekkert trúaratriði að það nái fram að ganga nú, og ég tel eðlilegt í sjálfu sér að tilraunum um kolaveiðar og kolavinnslu verði haldið áfram. Faxaflóinn er ekkert heilagri sjór en annar í mínum augum, og ég sé ekki neitt athugavert við það að skarkoli yrði veiddur þar í dragnót eins og annars staðar. Mér sýnist að kolinn gangi út á þá mjög takmörkuðu fiskislóð sem hægt er að beita dragnót á í flóanum á þeim tíma sem hann er hvað verðmætastur og hagkvæmast að vinna hann og á þeim tíma sem hvað minnst er að gera í fiskvinnslustöðvunum. Því finnst mér sannarlega ekkert óskynsamlegt þó að sú tilraun yrði gerð sem lagt var til í frv. að gerð yrði. Slíkar veiðar hefðu tekið tvö haust og ef illa hefði til tekist og með þeim takmörkunum, sem n. var með hugmyndir um, t. d. um að gera upptæka nytjafiska umfram 15% bolfiskafla sem bærist á land með þeim kola sem veiddur yrði, hefði ekki stór skaði verið skeður. — En satt að segja get ég mjög vel fellt mig við nál.

Mér sýnist að búið sé að gera þetta mál að miklu meira tilfinningamáli en ástæða væri til. Það er búið að skrifa heilmikið um það. Það er búið að safna undirskriftum um það. Við vitum að fá má fólk til að skrifa undir svo að segja hvað sem er, svo að mér finnst varla ástæða til þess að taka það mjög alvarlega eða nærri sér.

Vel má vera að það sé rétt skoðun, sem kemur fram hjá hv. þm. Alexander Stefánssyni, að veiða megi miklu meiri skarkola annars staðar við landið en gert er, ef verulegur áhugi væri á því. Ég held þar fyrir, að fiskvinnslufyrirtækin fyrir vestan hafi það mikið að gera á þessum tíma að þau hafi e. t. v. ekki verulegra hagsmuna að gæta og ekki verulegan áhuga á að vinna þennan fisk. En aftur á móti geri ég ráð fyrir að mörg fyrirtæki við Faxaflóa, og sérstaklega þau sem hafa aflað sér þeirra véla sem til svona vinnslu þarf, hefðu haft áhuga. Ég hefði því talið að samþykkt þessa frv. hefði í sjálfu sér ekki verið neinn stórskaði.