03.05.1979
Efri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4332 í B-deild Alþingistíðinda. (3454)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langar til að þakka formanni sjútvn. fyrir skynsamlega og ágæta afgreiðslu hans á þessu máli, því að hér var um verulega viðkvæmt og erfitt mál að ræða, og þótt hann telji það móðursýki að vilja vernda Faxaflóann er ég ekki jafnsannfærður um að svo sé. Mér finnst ástæða til þess að segja þetta um þátt hans sem ég álít mjög mikilvægan fyrir framgang málsins.

Ég er mjög ánægður með nál. En ég verð að viðurkenna að þetta mál er púðurtunna, og ég held jafnvel að ef við héldum áfram að ræða það í þessari hv. d. um stund væri von á einhverjum orðum og fullyrðingum sem við gætum ekki með góðu móti sætt okkur við.

Mér finnst gott að Hafrannsóknastofnunin skuli fá styrk frá okkur til þess að halda áfram starfi sínu. Ég veit að hún á eftir að upplýsa ýmislegt varðandi Faxaflóann og möguleika sem við höfum í kolaveiðum þar. Ég held einnig að það geti, eins og form.n, sagði, verið ástæða til að taka málið upp aftur síðar meir.