03.05.1979
Neðri deild: 81. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4338 í B-deild Alþingistíðinda. (3465)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og ég boðaði við 2. umr. um þetta frv. í þessari hv. d. leyfi ég mér að flytja brtt. við 3. umr. um fyrirliggjandi frv.

Í fyrsta lagi skuli nokkru fé varið af óskiptu gengismunarfé til lífeyrissjóðs sjómanna, til orlofshúsa sjómannasamtakanna og til öryggismála sjómanna. Í brtt., sem er á þskj. 540, hefur að vísu orðið prentvilla við uppprentun málsins, þannig að þar stendur „75 millj. kr. til orlofshúsa sjómannasamtakanna“, en á að vera 15 millj. kr. og var þannig í þeirri till. sem útbýtt var upprunalega.

Þessi till. er í fullu samræmi við það sem ég boðaði á sínum tíma við 2. umr. um 75 millj. kr. til að verðbæta örorku- og lífeyrisgreiðslur og aðrar tryggingabætur sjómanna er renni til lífeyrissjóðs sjómanna, í annan stað um 15 millj. kr. til orlofshúsa sjómannasamtakanna og enn fremur 10 millj. kr. sem varið yrði til öryggismála sjómanna samkv. nánari ákvörðun sjútvrh. og samgrh. Varðandi öryggismálin er það að segja, að samtök sjómanna hafa látið þau mjög til sín taka að undanförnu og hafa m. a. áhuga á að gera verulegt átak til kynningar og fræðslu að því er öryggismálin varðar, en geta má þess að talið er að ekki sé heldur framfylgt reglum um framkvæmd æfinga um borð í skipunum. — Ég þarf ekki að fara frekari orðum um þessa till. Ég tel að umr. um þessi mál hafi farið fram við 2. umr.

Jafnframt þessu leyfi ég mér í annan stað að flytja brtt. við b-lið 3. gr. fyrirliggjandi frv., en sú brtt. er á þskj. 569. Eins og kunnugt er var við 2. umr. samþ. breyting á þessum lið frv., og sú till., sem ég leyfi mér að flytja, gengur til móts við þau sjónarmið sem fram komu í þeirri brtt. Till. er saman sett í fullu samráði og með samkomulagi við 2. flm. ofangreindrar brtt. sem var samþ. við 2. umr., hv. 3 þm. Vestf., Kjartan Ólafsson. Hér er því um að ræða samkomulagstillögu sem ég vænti að flestir geti við unað.

Ég þarf ekki að fara um hana mörgum orðum. Að því er varðar fyrstu setningu 1. liðar er hún í samræmi við samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, en síðan er farið nokkru nánar út í hvernig að skuli standa. Um 2. liðinn er í sjálfu sér ekkert að segja. Hann er samhljóða því sem áður var samþykkt. Um 3. liðinn er það að segja, að þar kemur fram sú stefnumörkun að sameina. það fé sem sérstaklega er ætlað til þess að greiða fyrir því að útgerðaraðilar geti hætt rekstri úreltra fiskiskipa. Sú stefnumörkun er að sameina þann sjóð, sem hér um ræðir, Aldurslagasjóði fiskiskipa og heimild til þess veitt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um brtt. þessar frekari orðum og tel að þær skýri sig að öðru leyti sjálfar.