03.05.1979
Sameinað þing: 87. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4354 í B-deild Alþingistíðinda. (3475)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1979–1982 er loks til umr. á hinu háa Alþingi. Okkur hv. þm. er því ekki ætlaður langur tími til að fjalla um svo veigamikið efni sem þessi till. er um. Vissulega ætti hún að fjalla um einn veigamesta framkvæmdaþátt hjá okkur, en því fer miður að í till., eins og hún kemur fram hér, er í raun lítið bitastætt. Stundum áður hefur verið kvartað yfir því að till. til vegáætlunar hafi seint komið fram á þingi, en þó er mér til efs að svo síðla hafi hún borist þinginu sem nú. Það kann að vera að svo hafi verið einstök ár, en þau fordæmi eru áreiðanlega ekki til fyrirmyndar, og veit ég að hæstv. ráðh. er sammála mér um að slík vinnubrögð eru ekki af betra taginu.

Þá má með sanni segja að hæstv. ráðh. gengur þung spor í pontuna til að mæla fyrir þessari þáltill., ef ég þekki hann rétt, því að ekki verður sagt að sú till., sem hann fylgir hér úr hlaði, fyrsta till. til þál. um vegaframkvæmdir sem hann fylgir úr hlaði sem hæstv. samgrh., beri mikla reisn yfir sér. Till. er í því fólgin að gert er ráð fyrir að verulegur magnsamdráttur verði í vegaframkvæmdum. A. m. k. er það svo, að eins og hún er hér lögð fram er gert ráð fyrir mjög verulegum samdrætti í framkvæmdum við vegi á árinu 1979. Það er reynt að sýna fram á að kannske sé það ekki beint vilji hæstv. ráðh. að halda svo fram sem horfir að þessu leyti í ár með því að sýna hærri tölur á árunum 1980–1982. En til þess að dæmið sé látið koma heim og saman tölulega er brugðið á það ráð, til þess að magnaukningu í vegaframkvæmdum megi sýna tölulega á árunum 1980–1982, að setja upp lið sem kallaður er „önnur fjáröflun“. Ég heyrði ekki allt mál hæstv. ráðh., en ég hygg að hann hafi ekki gert mikla tilraun til að skýra fyrir hv. Alþ. með hvaða hætti hann hugsaði sér að afla þess fjár. Þar er um að ræða hvorki meira né minna en alla fjárþörfina sem þarf til þess að um magnaukningu geti orðið að ræða á þessum árum. Það er sem sagt engin skýring gefin á því, hvernig menn hugsa sér að afla þessa fjár.

Það væri kannske sök sér að stefnt sé í þessa átt á árinu 1979 ef það hefði orðið stórfelldur samdráttur í tekjuöflun til Vegasjóðs. En þegar það er skoðað, að á sama tíma sem magnminnkun í nýbyggingu vega verður sennilega nálægt 18% samkv. þessari þáltill. eiga bensíngjald og tekjustofnar Vegasjóðs að hækka að krónutölu um a. m. k. 67–70% samkv. grg. með fjárl. og samkv. grg. sem fylgir þessari þáltill., þá sést að þarna er einhver og ekki lítill maðkur í mysunni. Hæstv. ríkisstj. sker nefnilega stórlega niður beint og óbeint framlög ríkissjóðs til vegamála í ár. Þar er að finna skýringuna á því, að stefnt er í stórfellda magnminnkun á sama tíma sem tekjustofnar hækka í krónutali um rúm 70% og þær álögur lagðar á umferðina, á fólk sem notar vegina. Á sama tíma er sem sagt um stórfelldan samdrátt vegaframkvæmda að ræða. Ég verð að segja að miðað við þann málflutning, sem ég hef stundum heyrt hæstv. samgrh. hafa í frammi á hinu háa Alþingi um vegamálin, flokksbræður hans og raunar þá sem standa að meiri hl. hér og styðja núv. ríkisstj., þykir mér þetta mikilli furðu sæta.

Hæstv ráðh. sagði að baráttan við verðbólguna leyfði ekki meiri framlög til vegamála en þetta í ár. Satt er að baráttan við verðbólguna er hörð. En hún var stundum hörð fyrr ár árum líka og þá var þessu einnig haldið fram. En hæstv. ráðh., fylgismenn hans og þeir, sem styðja núv. ríkisstj., vildu aldeilis ekki fallast á slík rök á þeim tíma. Skorið var niður vegafé í tíð fyrri ríkisstj. og það var harðlega gagnrýnt, en nú er sem sagt haldið áfram að skera og niður frá því sem áður var um 18% að magni til, á sama tíma sem skattarnir á umferðina eru hækkaðir um 70%

Ég skal ekki, herra forseti, tefja mikið þessa umr. Hún er með þeim hætti að till. kom fram og var útbýtt í gær, en er tekin til umr. á fundi, kannske ekki á óvenjulegum tíma, en á heldur óheppilegum tíma þegar fáir eru viðstaddir. Það er því sjálfgert að ræða hana betur við 2. umr. En ég lít svo til, að sú vegáætlun, sem nú er lögð fram, sé í rauninni marklaus nema að því leyti sem varðar árið 1979. Þar er útkoman sú í sem stærstum dráttum að stórfelldur samdráttur verður, eins og ég sagði áðan, á magni nýframkvæmda vega. Nokkuð er reynt að auka viðhaldsféð, og það út af fyrir sig tel ég ekki ranga stefnu því að eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. hefur á undanförnum árum heldur verið knífað í þeim efnum og þörfin af hálfu Vegagerðar talin verulega meiri en fjármagn hefur verið til. Ég tel því að ekki sé aðfinnsluverð stefna, síður en svo, að auka viðhaldið. En hvort tveggja, að kostnaður við stjórn og undirbúning samkv. till. hækkar á milli áranna 1978 og 1979 um 60% og sumarviðhaldið hækkar um 50% og vetrarviðhaldið tvöfaldast, veldur því að útkoman verður einungis frá 16 til 20% hækkun í krónutölu til nýbyggingar vega, en það veldur þeirri miklu magnminnkun sem ég kom inn á áðan.

Ég vil taka það fram, að við sjálfstæðismenn erum reiðubúnir til að ræða vegamál okkar og framtíðaráætlanir um þau af fullu raunsæi. Við höfum lagt fram till. til þál. um þau efni, þar sem við höfum bent á að meginstefnan skuli vera að reyna að koma okkur út úr þeirri sjálfheldu sem við Íslendingar erum í í vegamálum. Við erum í sjálfheldu að því leyti til að viðhald veganna er að verða óviðráðanlegt. Umferð eykst það mikið árlega að viðhald veganna er að verða óviðráðanlegt ef við komumst ekki úr þeim vítahring og getum gert aðalakvegakerfi landsins þannig úr garði að lagt verði bundið slitlag. Við höfum lagt fram þáltill., sem þm. hafa að sjálfsögðu kynnt sér, og í henni er bent á sérstakar fjáröflunarleiðir. Mér er ekki kunnugt um að á Alþ. hafi áður komið fram hliðstæðar till., þar sem jafnframt hefur verið af fullu raunsæi bent á fjáröflunarleiðir. Þess vegna erum við að sjálfsögðu reiðubúnir að ræða á hinu háa Alþingi og hafa samráð við þm. annarra flokka um að taka á þessu máli af fullri djörfung.

Það er auðvitað svo, að nauðsynlegt er að halda í á þeim árum þegar mikil verðbólga er, en framkvæmdir eru miklar í landinu á öllum sviðum og spenna á vinnumarkaði er mikil. En ég held að okkur sé nauðugur sá kostur, Íslendingum, að horfast í augu við að við erum að verða vanþróað ríki og erum orðnir vanþróað ríki í vegamálum, og við verðum þess vegna með einhverjum hætti að leysa þau mál á skipulegan hátt á næstu árum. Við eyðum áreiðanlega miklu meira fé í að halda við vegakerfinu og bifreiðaeign okkar en eðlilegt er. Er hægt að sýna fram á með beinhörðum tölum að það að gera aðalvegakerfi landsins þannig úr garði, að lagt sé varanlegu slitlagi, er með betri fjárfestingum sem Íslendingar geta ráðist í. Þess vegna held ég að við verðum að horfast í augu við þetta mál og taka það á alveg sérstakan hátt út úr framkvæmdum okkar þannig að við komumst út úr þeim vítahring sem við að minni hyggju erum komnir í að þessu leyti.

Ég skal ekki, herra forseti, við þessa umr. málsins hafa fleiri orð um vegáætlun, en ég vænti að hafa tækifæri til þess við síðari umr. þegar hv. fjvn. hefur skoðað málið nánar og unnið það í samráði við hv. þm. í hinum ýmsu kjördæmum landsins.