07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Mér er auðvitað ljóst, að óhóflegar umr. utan dagskrár eru ekki til þess fallnar að auka virkni eða hraða í þingstörfum. Mun ég því, eins og forseti mælist til, reyna að stilla máli mínu í hóf.

Það, sem ég hef óskað eftir að fá að gera að umræðuefni utan dagskrár, er það, að í gærkvöld heyrðum við í fréttum í útvarpi og sjónvarpi að ríkisstj. hefði skipað sér blaðafulltrúa. Þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að þessar fréttir komu ýmsum þeirri, sem eiga sæti í þingflokkum þeim sem að þessari ríkisstj. standa, á óvart. Svo hafði verið, að fyrir nokkrum dögum var á Alþ. dreift frv. til fjárl. sem þingflokkarnir hafa haft til athugunar, og þar var m.a. gert ráð fyrir, að ég hygg, 11.8 millj. kr. fjárveitingu til þessa embættis. Má af því ljóst vera, að þar er ekki aðeins verið að fjalla um eitt embætti, heldur nánast heila deild, a.m.k. annað ef ekki fleiri störf sem að þessu munu lúta.

Nú skal ekki dregið í efa, að efalítið er hverri ríkisstjórn hollt að hafa sér blaðafulltrúa, en málið er það í fyrsta lagi, að við þykjumst eiga aðild að aðhaldsstjórn, stjórn sem er að hvetja til aðhalds annars staðar í samfélaginu. Í þingflokki okkar, án þess að um það hafi verið gerð formleg samþykkt, höfðum við talað saman um einhverjir a.m.k., að þetta væri einmitt liður af því tagi, sem við hygðumst leggja til að skorinn væri niður í sparnaðarskyni. Af þessum sökum þarf ekki að fjölyrða um að þessi frétt kom á óvart og veldur óneitanlega verulegum vonbrigðum.

Nú ber auðvitað að leggja á það þunga áherslu, að hér er ekki verið að fjalla um þann einstakling persónulega, sem til þessa starfs hefur verið ráðinn. Hann er hinn mætasti maður, eins og öllum er auðvitað kunnugt. En það er einfaldlega ekki kjarni málsins. Kjarni málsins sýnist manni vera sá, að hér sé óskynsamlega að staðið, því að þótt heimild sé til slíkrar ráðningar hafði Alþ. ekki fjallað um þessa fjárveitingu og það er vitað mál að í flokkum þeim, sem að ríkisstj. standa, höfðu menn ætlað sér einhverjir a.m.k. að mæla gegn þessari fjárveitingu vegna þess að við erum að reyna að spara, ekki aðeins í stjórnkerfinu, heldur úti um samfélagið allt. Ég hygg því, að hér sé slæmt fordæmi, og hitt, að þingið hefði átt að fá að taka afstöðu til þessa máls áður en í slíka ráðningu var ráðist.

Forsrh., sem þetta embætti heyrir undir, fór utan í morgun og fylgja honum auðvitað góðar óskir og óskir um góða heimkomu. En ég vil leyfa mér að beina þeirri spurningu til fjmrh., hverju þetta sæti, hvers vegna er ráðist af þessari skyndingu í þessa embættisveitingu, hvers vegna ekki hafi verið beðið eftir umfjöllun Alþ. um fjárlagafrv., eins og vera ber, og hvort fjmrh. geti ekki verið mér sammála um að þetta sé afar óæskilegt fordæmi, sem hér hefur verið gefið.