07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4361 í B-deild Alþingistíðinda. (3483)

357. mál, utanríkismál

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég hef fylgt ágætu fordæmi síðustu tveggja utanrrh. og lagt fyrir Alþingi almenna skýrslu um utanríkismál. Hún er að vanda í tvennu lagi. Annars vegar er heildarskýrsla, sem er þskj. 567, en hins vegar er sérstök skýrsla um þátt Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári.

Ekki sé ég ástæðu til að eyða tíma þingsins í upplestur á skýrslunni, enda er hún langt mál. Nokkur tími líður óhjákvæmilega frá því að slík skýrsla er samin uns hún getur komið til umr. á þingi. Þennan tíma hefur sitthvað gerst og mun ég því nota framsöguræðu mína til að flytja eins konar viðauka við skýrsluna, drepa á sitthvað stórt og smátt sem gerst hefur eftir að gengið var frá skýrslunni, en vísa að öðru leyti til hinna prentuðu gagna um það sem í þeim stendur. Ég mun þó fylgja kaflaskiptingu skýrslunnar í meginatriðum.

Í kaflanum um alþjóðamál er fyrst fjallað um afvopnun og síðan um slökunarstefnuna. Með þessu er ætlunin að sýna hve ríka áherslu við Íslendingar leggjum á þetta tvennt.

Í afvopnunarmálum hefur það helst gerst, að undirskrift SALT-II samninganna milli Bandaríkjamanna og Sovétmanna virðist nú færast óðum nær. Samkv. þeim samningum verður fjöldi hinna hættulegustu flugskeyta og kjarnorkuvopna takmarkaður og í fyrsta sinn verða nokkur hundruð slík ógnarvopn eyðilögð. Vonandi reynist þetta áfangi á réttri leið sem bætir sambúð risaveldanna tveggja og þar með friðarhorfur í heiminum, en vígbúnaðarkapphlaup mun halda áfram nær taumlaust á fjöldamörgum öðrum sviðum, þ. á m. á hafinu, svo að enn er verk að vinna áður en stórfelld og nægileg afvopnun tekst.

Í slökunarmálum, sem leitt hefur af sáttmálanum frá Helsinki, er næsti stóráfangi ráðstefna um framkvæmd samningsins sem halda á í Madrid haustið 1980. Undirbúningur er þegar hafinn undir þessa ráðstefnu og í síðustu viku komu saman í Reykjavík sérfræðingar í slökunarmálum frá Norðurlöndunum öllum til að hefja undirbúningsstarf þeirra landa fyrir þessa Madrid-ráðstefnu. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Þá hafa verið til umr. drög að samkomulagi um menningarsamskipti milli Íslands annars vegar og Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskalands hvors í sínu lagi hins vegar, og er litið á þetta sem lítinn þátt í framkvæmd Helsinki-stefnunnar og til hennar vísað.

Varðandi þátttöku Íslands í alþjóðasamtökum, sem um er fjallað í skýrslunni, er helst að minnast þess að Evrópuráðið varð 30 ára í s. l. viku. Af því tilefni verða haldnir fundir Evrópuþings og ráðherranefndar Evrópuráðs í Strasbourg síðar í þessari viku og munu þrír alþm. sitja þingfundinn, en ég mun sækja ráðherrafundinn. Mun þar gefast tækifæri til að ræða við utanrrh. Noregs um Jan Mayen-mál og e. t. v. við utanrrh. Lúxemborgar um flugmál.

Áttunda fundi Hafréttarráðstefnunnar er nýlega lokið í Genf og fulltrúar okkar komnir heim. Undir lok ráðstefnunnar tók hún nokkurn fjörkipp og náðist umtalsverður árangur á ýmsum sviðum, sérstaklega varðandi málmvinnslu í djúphafi. Ríkir nú nokkur bjartsýni á að til loka muni draga á næsta fundi, sem haldinn verður í New York í sumar, og hafréttarsáttmáli verði undirritaður í Caracas í Venezuela á öndverðu ári 1980. Ef það tekst mun það verða mesti árangur sem náðst hefur í alþjóðlegu samstarfi frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Ný drög að sáttmálanum, og væntanlega þau síðustu fyrir lokafund, verða tilbúin eftir fáa daga, en fulltrúar okkar hafa upplýsingar um að hagsmunamálum Íslendinga sé þar borgið eins og best verður á kosið, nema hvað óljóst er enn hvaða rétt við munum öðlast á hafsbotni utan við 200 mílur. Það er skoðun íslensku fulltrúanna á ráðstefnunni, að litlar sem engar líkur séu á að þeim atriðum verði breytt á síðasta fundinum sem helst snerta okkur Íslendinga.

Alþingi er nú langt komið með afgreiðslu á frv. um heildarlöggjöf um landhelgismál. Hefur það verið afgreitt úr n. í síðari d. og ágreiningur hefur enginn orðið um málið. Treysti ég því að það verði að lögum einhvern næstu daga, enda nauðsynlegt að afgreiða það, m. a. vegna Jan Mayen-málsins.

Norsk stjórnvöld hafa óskað eftir viðræðum við Íslendinga um væntanlega efnahagslögsögu eyjarinnar Jan Mayen sem norska stjórnin mun hafa ákveðið að lýsa yfir eftir að hafa átt um það viðræður við Íslendinga, en ekki tímasett framkvæmdir í þeim efnum enn þá. Í þessu sambandi hefur eftirfarandi gerst:

1. Fiskifræðingar hafa haldið fund um loðnustofninn og eru niðurstöður þeirra alþm. kunnar.

2. Sendiherrarnir Hans G. Andersen og Jens Evensen hafa rætt um málið í Genf.

3. Utanrrh. beggja landa, sendiherrarnir sem áður voru nefndir og tveir aðrir embættismenn hafa haldið einn fund um málið.

Þetta hafa verið könnunarviðræður á frumstigi, sem hafa enn ekki leitt til neinnar niðurstöðu. Ef í ljós kemur að grundvöllur er að samningagerð verður að sjálfsögðu skipuð viðræðunefnd af okkar hálfu á breiðari grundvelli en verið hefur hingað til. Landhelgisnefnd allra þingflokkanna hefur þó fylgst náið með gangi málsins.

Efnahagslögsaga Grænlands á austurströndinni hefur ekki verið færð út í 200 mílur norður fyrir 67. breiddargráðu sem er rétt norðan við nyrstu tanga Íslands. Danir munu fyrst um sinn fara með það mál þrátt fyrir heimastjórn Grænlendinga. Útfærslan er þeirra mál og Grænlendinga, en jafnskjótt og fært hefur verið út verða fiskveiðimál innan nýju markanna málefni Efnahagsbandalagsins í Brüssel. Grænland telst til bandalagsins, en það gera t. d. Færeyjar ekki. Ég þarf ekki að orðlengja að fiskveiðimál við Austur-Grænland geta haft alvarlega þýðingu fyrir okkur Íslendinga.

Ég vil nota þetta tækifæri til að færa Grænlendingum heillaóskir í tilefni af heimastjórn þeirra og senda hinni nýju ríkisstj. þeirra bestu kveðjur. Utanrrn. hefur þegar að sínu leyti undirbúið aukin samskipti milli Íslendinga og Grænlendinga og er óskandi að þau þróist á sem flestum sviðum í náinni framtíð.

Í VI. kafla skýrslunnar er fjallað um mannréttindamál og segir þar að fyrir Alþ. liggi till. um aðild Íslands að tveimur alþjóðasamningum um mannréttindi. Sú till. hefur nú verið afgreidd sem ályktun Alþingis. Færi ég þinginu þakkir fyrir, en aðild að þessum samningum verður íslensku þjóðinni til sóma og staðfestir raunhæfan áhuga hennar á mannréttindum almennt.

VIII. kafli skýrslunnar fjallar um öryggismál og er staða Íslands á því sviði þar rædd almennt. Fyrir skömmu gerðust atburðir ekki óvenjulegir, en þó merkir, hér við land sem varpa nokkru ljósi á þýðingu landsins og stöðu þess, og ætla ég að nýnæmi sé að segja örlítið frá þeim.

Sovétríkin hafa um árabil haldið flotaæfingar á Norður-Atlantshafi á hverju vori. Fyrst í stað voru þær haldnar á Barentshafi, en hafa færst sunnar og síðustu ár suður fyrir Ísland. Að þessu sinni voru æfingarnar hinar mestu síðan 1975 og er þeim nýlega lokið. Þær fóru þannig fram, að flotadeild undir forustu flugvélamóðurskipsins Kiev sigldi frá Gíbraltarsundi upp undir Ísland, síðan suðaustur af landinu áfram norður með Noregsströnd til Múrmansk. Jafnframt bættust við skip frá Eystrasalti og úr norðurátt. Þessum æfingum var ekki beint gegn Íslandi eða neinu grannlandi okkar. Þetta voru æfingar í að verja Sovétríkin. Flotadeildin, sem ég nefndi, lék óvinaflota á norðurleið. Önnur sovésk herskip og kafbátar mynduðu varnarlínur, fyrst austur af Íslandi, rétt utan við „rauða torgið“ svokallaða, en síðan norðar í hafinu. Þegar æfingar stóðu sem hæst voru suður og austur af Íslandi mest 25 sovésk herskip og 27 sovéskir kafbátar, allt skip af nýjustu og fullkomnustu gerð. Samtímis voru æfingar í baráttu gegn kafbátum á svæðinu milli Jan Mayen og Langaness. Þessa sömu daga var umferð sovéskra flugvéla austan og sunnan við Ísland meiri en nokkru sinni fyrr og flugu sumar könnunarflugvélarnar til Kúbu og þaðan til Angóla í Afríku. Varnarliðið fylgdist nákvæmlega með öllu þessu og hlaut að sjálfsögðu mikilsverða æfingu eigi síður en Sovétmenn. Voru notaðar hinar nýju eftirlits- og ratsjárflugvélar sem bækistöð hafa á Keflavíkurflugvelli.

Ég bið menn að íhuga hleypidómalaust þessar staðreyndir og tek skýrt fram að ekki er ætlun mín með þessari frásögn að vekja upp neinar grýlur. Æfingar sem þessar eru heimilar að þjóðarétti og m. a. s. sérstakt samkomulag á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um ýmislegt varðandi framkvæmd slíkra æfinga. Þær sýna okkur þó í fyrsta lagi hversu þýðingarmikið landið er enn talið af stórveldunum, og í öðru lagi tel ég að greinilega hafi komið í ljós að bæði risaveldin hafi varið stórfé til að auka viðbúnað sinn á hafinu umhverfis okkur, Sovétríkin með smíði fullkominna skipa og Bandaríkin með nýjum og dýrum eftirlitsflugvélum. Læt ég svo útrætt um öryggismálin. — Að sjálfsögðu eru fleiri slíkar æfingar háðar, en þessar hafa til fallið á þeim tíma sem nú er nýliðinn. Tel ég æskilegt og rétt að af þeim séu birtar fréttir, en oft og tíðum hefur farið eins og nú, að slíkt fer að miklu leyti fram hjá fjölmiðlum, en svo koma nákvæmar frásagnir af öllu saman í fagtímaritum og bókum löngu síðar.

IX. kafli skýrslunnar fjallar um flugmál, sem eru að verða þýðingarmikið hlutverk fyrir utanríkisþjónustu okkar.

Nýlega var haldinn í Lúxemborg aðalfundur Cargolux sem Flugleiðir eiga að 1/3 hluta. Eftir þann fund er ljóst að Flugleiðir munu ekki selja hlut sinn í félaginu, en ákveðið hefur verið að stofna nýtt farþegaflugfélag, aðallega til leiguflugs. Verður það væntanlega nefnt Aerolux og eigendur til helminga Cargolux og Lux Air, sem þýðir þá jafnframt að Íslendingar eiga 1/6 í hinu nýja félagi. Vandlega hefur verið gengið frá því, að sögn forráðamanna, að þetta félag fari ekki inn á starfssvið Flugleiða.

Ljóst er nú að Atlantshafsflug okkar Íslendinga muni vart geta haldið áfram í sama mæli og verið hefur, nema hluta þess verði beint milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku án viðkomu á Íslandi. Þessa staðreynd verðum við að horfast í augu við, þótt farþegum sem koma við á Keflavíkurflugvelli kunni að fækka nokkuð. Utanrrn. er nú með samþykki samgrn. að kanna horfur á því að Bandaríkjamenn leyfi beint flug okkar án viðkomu hér á landi. Ef að slíku verður munu íslensk yfirvöld að sjálfsögðu tryggja lágmarksferðafjölda til landsins og frá því, svo að okkar eigin samgöngur séu viðunandi. En um afdrif þessa máls er enn allt of snemmt að spá neinu.

Herra forseti. Ég ítreka það að lokum, sem fram kemur í hinni prentuðu skýrslu, að utanríkisstefna Íslendinga er nú sem fyrr byggð á þátttöku í Sameinuðu þjóðunum og norrænu samstarfi öllu öðru frekar og í öryggismálum á Atlantshafssáttmálanum. Á alþjóðlegum vettvangi leggjum við okkar litla lóð á vogarskálar friðar, slökunar og afvopnunar. Mér er ánægja að geta fullyrt að Íslendingar búa við vináttu og góða sambúð við allar þær þjóðir sem við á annað borð höfum samskipti við. Það hlýtur að vera takmark utanríkisstefnu að svo megi verða áfram.

Með tilvísun í hinar prentuðu skýrslur læt ég svo máli mínu lokið.