07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4370 í B-deild Alþingistíðinda. (3485)

357. mál, utanríkismál

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. utanrrh. skýrslu þá er hann hefur nú flutt þingheimi um utanríkismál. Jafnframt skal vikið í fáum orðum að nokkrum efnisatriðum úr ræðu hans. Ég mun þó leiða hjá mér að taka þátt í „dúett“ utanrrh. tveggja, þar sem þeir báru saman bækur sínar um hvor væri fremri á næstum því sömu leið. Þeir eiga að sjálfsögðu að ræða þetta sín á milli og vil ég ekki blanda mér í það. Ég mun enn fremur leiða hjá mér þá aths. sem hæstv. fyrrv. utanrrh., 9. þm. Reykv., skaut að formanni Sjálfstfl. því að ég sé að hann hefur þegar kvatt sér hljóðs um það efni. En að skýrslunni sjálfri mun ég víkja í fáum orðum.

Þess er þá fyrst að geta, að í inngangi skýrslunnar vitnar hæstv. utanrrh. í ákvæði samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna þriggja, svo sem vonlegt er, en ákvæði þetta er á þann veg að þríflokkarnir hafa ekki samið um stefnuna í utanríkismálum. Mætti því í fljótu bragði ætla að í þeim málaflokki ríkti algert stefnuleysi og ráðleysi. En við skulum virða málið fyrir okkur örlítið betur. Ef lesið er lengra sést og er tekið fram, að í utanríkismálum hafi verið fylgt áfram óbreyttri grundvallarstefnu, verði þar á eigi gerð breyting nema samþykki allra ríkisstjórnarflokkanna komi til. Hin óbreytta grundvallarstefna fyrrv. ríkisstj. er núv. hæstv. ríkisstj. svo mikils virði að út af henni verður ekki breytt í einu né neinu nema samþykki allra ríkisstjórnarflokkanna komi til. M. ö. o. fylgir núv. ríkisstj. óbreyttri grundvallarstefnu í utanríkismálum frá því sem var í tíð síðustu ríkisstj. Að vísu er tekið fram í áðurnefndu ákvæði stjórnarsáttmálans, að Alþb. sé andvígt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og dvöl hersins í landinu, eins og það er orðað, en með hliðsjón af horfinni tíð má öllum ljóst vera að þetta eru orðin ein hjá þeim stjórnarflokki. En einhvern tíma í fyrndinni hefði það máske þótt tíðindum sæta að Alþb. sæti í ríkisstj. hér á landi. sem fylgdi í einu og öllu grundvallarstefnu ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstfl., í utanríkismálum. Þess ber þó að gæta og er sjálfsagt að taka það fram, að almennt er viðurkennt að sú stjórn hafi haldið einkar vel á utanríkismálum þjóðarinnar. Stærsti áfanginn á ferli hennar í þeim efnum var að sjálfsögðu farsæl lausn og lokasigur í landhelgismálinu, sem minnst verður meðan landið byggist, en auk þess vann sú ríkisstj. að því að styrkja stöðu lands og þjóðar í öryggis- og varnarmálum og leggja sitt af mörkum til að gæða samtök og varðstöðu vestrænna frelsisunnandi þjóða nauðsynlegri árvekni og jafnvel nýju lífi. Ég nefni þessi tvö atriði einungis sem dæmi um farsæla utanríkisstefnu á árum fyrrv. ríkisstj. 1974–1978, en af þessu má ljóst vera að núv. hæstv. ríkisstj. hefur talið happadrýgst að feta í fótspor fyrrv. ríkisstj. í þessum mikilvæga málaflokki.

Til nýmæla má þó máske nefna það sem sagt er í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna um skipun nefndar til nánari athugunar í öryggismálum. Þar er að því vikið, að ríkisstj. hafi einsett sér að beita sér fyrir því að sett verði nefnd þar sem allir þingflokkar eigi fulltrúa og verkefni nefndarinnar sé að afla gagna og eiga viðræður við innlenda og erlenda aðila til undirbúnings álitsgerðum nm öryggismál íslenska lýðveldisins. Sú nefnd hefur nú verið sett á laggirnar undir forustu fyrrv. hæstv. utanrrh. Hann vék að því efni í ræðu sem hann hélt á undan mér. Hann telur þessa hugmynd mikils virði ef framkvæmd hennar stefni að því marki sem stjórnarflokkarnir hugsa sér. Ég er alveg viss um að ef rétt verður á málum haldið getur þessi nefnd látið eitt og annað gott af sér leiða. Tilgangur hennar er sem sé að afla upplýsinga um öryggismál Íslands í því skyni að stuðla að almennari umræðu, efla hana og gera sem málefnalegasta og raunhæfasta, og nefnd þessi á ekki að vera neitt sérlega tengd daglegri stjórn utanríkismála, heldur heyra beint undir forsrn. Það er vel að það skuli vera hreyfing hjá valdhöfum vorra tíma og hefja umræður um utanríkismálin nokkuð upp yfir venjulegt dægurþras. Um það er gott eitt að segja og vonandi að takist að ná einhverjum árangri í þeim efnum.

Um skýrslu þessa ætla ég að öðru leyti ekki að fara mörgum orðum, þó að ég stikli þar á nokkrum atriðum. Eins og ég vék að áðan á ekki að vera mikil þörf á að halda hér langa ræðu, enda var ræða hæstv. utanrrh. mun styttri en verið hefur hjá utanrrh. á fyrri þingum. Verð ég og að segja að í vetur hefur samstarf og samvinna öll í utanrmn. verið með besta móti og samstarf við hæstv. utanrrh. að sjálfsögðu með ágætum, sem ég kann honum fyllstu þakkir fyrir.

Það er rætt um það í II. kafla skýrslunnar, um alþjóðamál, að vart verði liðið ár kallað friðarins ár frekar en undanfarin ár, enda varla liðið sá dagur að ekki mætti telja um og yfir 20 staði þar sem vopnaviðskipti fóru fram innan ríkis eða milli ríkja. Við tölum oft um að nú líti friðvænlegar út í heiminum en stundum áður. En þegar við virðum þetta fyrir okkur og horfumst í augu við blákaldar staðreyndir sjáum við í einu augabragði að varla líður dagur án þess að tekist sé á, án þess að átök eigi sér stað, meiri og minni, á 20 stöðum í heiminum. Má þá sjá hversu friðvænlegt er um að lítast. Þá sjáum við hvort ekki er nauðsynlegt fyrir hverja frjálsa smáþjóð að halda vöku sinni og huga vel að þessum málum.

Það er sagt hér, og tekið dálítið óvenjulega til orða, að enn logi glatt í glóðum þeirra drauma að deilur verði settar niður, eins og sáttmáli Sameinuðu þjóðanna segir fyrir um, með friði, en ekki vopnavaldi. Vitanlega er það draumsýn þeirra, sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar, að koma á ævarandi friði um allan heim. Enn er þetta aðeins draumur, en þó sá draumur sem Sameinuðu þjóðirnar mega með engu móti missa. Þær verða að halda honum við og gæða þessa hugsjón lífi og reyna að framkvæma hana eftir bestu getu. Það er að vísu hægt að nefna frá liðnu ári nokkur dæmi þess að tekist hafi að leysa hin skaðvænlegustu deilumál milli þjóða a. m. k. í bili. Þar er nefndur t. d. friðarsamningur milli Ísraels og Egyptalands eftir 30 ára ófrið, og þar er einnig nefnt ástandið í Víetnam eftir 30 ára ófrið. Það er einkennilegt hvað þessi 30 ár, þetta 30 ára stríð endurtekur sig í veraldarsögunni hvað eftir annað. Og það skulum við Íslendingar muna og verðum að muna, þó að við séum ekki beinir þátttakendur í þessum hildarleik og atburðirnir séu fjarlægir, að þeir kunna þó að hafa á margan hátt áhrif á líf okkar og okkur ber sem sjálfstæðri þjóð að fylgjast með þeim og huga að því hvernig við getum sem best séð fleytu okkar borgið á hinum úfna veraldarsjó.

Enn sem fyrr hafa afvopnunarmálin verið ofarlega á baugi. Þau eru að sjálfsögðu eitt allra mikilvægasta viðfangsefni á alþjóðavettvangi. Enn getur maður varla sagt hvort áfram miðar í þeim efnum eða aftur á bak, eins og segir í skýrslunni: „Því miður liggur nær að nefna þennan málaflokk vígbúnaðarmál en afvopnunarmál.“ — Svo ótrúlega skammt eru þjóðir heimsins komnar áleiðis í þessum efnum.

Um slökunarstefnuna (détente), sem svo er kölluð, mætti margt segja.Menn hafa verið misjafnlega trúaðir á að hún mundi bera nokkurn árangur, allra síst mikinn. Þó hafa menn bundið vonir við Helsinki-samþykktina, sem gerð var í ágúst 1975, og talið hana bera vitni um hlýindi og bjartara veður, svona rétt eins og við hér á landi hugsum þegar við komum út og gáum til veðurs á degi hverjum og vonum að það fari að hlýna og vora betur en nú er. Um slökunarstefnuna ætla ég ekki að ræða frekar. En allir vonum við að sjálfsögðu að hún beri sem mestan árangur.

Eins og fram kemur í III. kafla skýrslunnar, um alþjóðastofnanir, tökum við Íslendingar eftir sem áður eins og við höfum gert á undanförnum árum þátt í samstarfi þjóðanna, í fyrsta lagi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Við höfum byggt utanríkisstefnu okkar og sjálfstæði á þátttöku í Sameinuðu þjóðunum og varðveislu þeirra hugsjóna sem þau samtök byggja á.

Það segir í skýrslunni að Íslendingum sé í allri sinni smæð mikill styrkur að samstarfi við hinar Norðurlandaþjóðirnar, þótt leiðir liggi hvergi nærri alltaf saman í afstöðu til mála. Ég mun ekki ræða samstarf Norðurlandanna náið í þessum fáu orðum, en aðeins lýsa því yfir að ég tel það vera einn meginþátt í utanríkisstefnu Íslendinga að varðveita það góða og raunar sérstæða samstarf, sem tekist hefur milli Norðurlandaþjóðanna allra, og glæða það sem mestu lífi í framtíðinni.

Þá höfum við á undanförnum árum tekið þátt í hinu svonefnda Atlantshafsbandalagi, en hinn 4. apríl voru liðin 30 ár frá stofnun þess. Það má öllum ljóst vera, og ég held að það hljóti að vera almennt viðurkennt, að tilvera þess bandalags hefur átt drjúgan þátt í að tryggja frið í Evrópu á þessu tímaskeiði — og tökum nú eftir að ég nefndi áðan nokkur dæmi um 30 ára stríð í veraldarsögunni, en hérna komum við þó að einum kafla hennar sem fjallar um 30 ára frið, einmitt á þessu svæði. Skyldi ekki mega rekja það til þessa samstarfs vestrænna lýðræðisþjóða sem svo vel hefur tekist? Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Og þegar við minnumst á Atlantshafsbandalagið rjúka oft margir upp til handa og fóta og reyna að stimpla það sem árásarbandalag, grátt fyrir járnum. En þeir athuga það miður, eða a. m. k. halda því síður á loft, að þetta bandalag hefur unnið að fjölmörgum málefnum til farsældar bandalagsþjóðunum, fyrir utan að brýna þær til að standa saman og hyggja að öryggi sínu í nútíð og framtíð. Það má nefna t. d. hið víðtæka samstarf vísindamanna innan bandalagsríkjanna og starf þeirra að ýmsum verkefnum sem geta horft og horfa til aukinnar velferðar á þessu heimssvæði, svo sem til ómengaðs umhverfis, en það eru málefni sem þessi samtök þjóðanna hafa látið sig mjög miklu varða.

Þá er hér minnst á þátttöku Íslands í Evrópuráðinu, EFTA og samvinnu við EBE eða Efnahagsbandalagið. Um hin mjög svo mikilvægu hafréttarmálefni mun ég ekki ræða í þessum orðum mínum. Ég geri ráð fyrir að fyrrv. hæstv. sjútvrh. muni víkja nokkuð að þeim efnum á eftir, svo marga hildi sem hann háði á þeim vettvangi í tíð fyrrv. ríkisstj. með farsælum og góðum árangri. En ég vil sérstaklega fagna því, sem kemur að í V. kafla, að nágrannar okkar Grænlendingar hafa nú kosið sér eigið þing, öðlast heimastjórn, þó með takmörkuðum hætti sé. Það er þegar komið á nokkurt samband milli þessara þinga tveggja — samband sem ég tel að við eigum að efla hérna megin frá og treysta og, við skulum segja: leiðbeina þessum ágætu nágrönnum okkar eftir mætti á braut þeirra til aukins frelsis. Það er einkennilegt hve mannréttindamálin eiga ávallt erfitt uppdráttar víða um heim. Það mætti þykja nokkuð auðvelt verk að setja saman þokkalegan sáttmála sem greindi frá því, að hver maður ætti að njóta réttar frá vöggu til grafar, og annað þar fram eftir götunum. Þetta hefur þó vafist fyrir þjóðum, stórum og smáum, og þeir mannréttindasáttmálar, sem eru nú að líta dagsins ljós og eru m. a. til meðferðar á Alþingi Íslendinga, koma ekki fram á sjónarsviðið í endanlegri gerð fyrr en eftir margra ára þjark og áratuga vafstur. En það er eins og annað: Þó að seint miði verða þjóðirnar að halda áfram á þeirri braut að virða rétt mannsins, virða rétthæfið sem hver maður á að njóta frá vöggu til grafar.

Hæstv. fyrrv. utanrrh., 9. þm. Reykv., ræddi nokkuð um þróunaraðstoðina, aðstoð Íslendinga við þróunarlönd, sem er hörmulega skammt á veg komin, eins og hann tíundaði í ræðustólnum áðan. Ég held að skemmst sé frá því að segja, að Íslendingar séu enn óralangt frá því marki sem Allsherjarþingið samþykkti fyrir nokkuð mörgum árum um að stuðningur þróaðra ríkja við þróunarríki ætti sem fyrst að ná því marki að verða 1% af þjóðarframleiðslu. Við Íslendingar erum enn þá óralangt frá því takmarki. Það er m. a. þess vegna sem ég ætla að leyfa mér að minnast örfáum orðum á mál sem liggur fyrir hv. Alþ., þ. e. till. til þál. um könnun á sendingu matvæla til þróunarlanda sem ég flyt ásamt þrem öðrum hv. sjálfstæðismönnum á Alþ., þ. e. 182. mál. Sú till. er nú til meðferðar í n. Efni hennar er það, að við óskum eftir að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að kanna til hlítar hvort unnt sé að auka stuðning við þróunarlönd á þann veg að íslenska ríkið kaupi búsafurðir af framleiðendum, svo sem mjólkurduft, og sendi þangað sem þörfin er brýnust fyrir matvæli. Það er alveg rétt hjá hv. 9. þm. Reykv., að þessi hugmynd er ekki ný. Hún er þvert á móti ævaforn, ekki síst meðal okkar Íslendinga. Við þekkjum það ofur vel, að þegar svangan gest bar að garði var það fyrsta að bjóða honum mat að borða, seðja hungur hans, en ekki að fara að kenna honum hvernig ætti að búa til smjör, svo ég taki dæmi, eða hvernig ætti að efna í bát og hefja útgerð. Það fyrsta, sem ég tel að við þurfum að huga að þegar um sveltandi einstaklinga eða sveltandi þjóðir er að ræða, er hvernig hægt sé að færa þeim brýnustu lífsnauðsynjar strax. Það er þessi hugsun sem þáltill. okkar fjórmenninganna byggir á, og við óskum eftir að þetta mál verði til fulls kannað af hæstv. núv. ríkisstj. með öllum þeim ráðum sem hún hefur tiltæk, því hvað er brýnna en að nýta matvæli sem eru um stundarsakir offramleidd hér á landi og við erum í vandræðum með af því að við þekkjum ekki af eigin raun til offramleiðslu á neinu sviði, held ég mér sé óhætt að segja? Hvað er brýnna en að reyna að koma matvælum frá þeim stöðum heims þar sem þau hlaðast upp í of ríkum mæli þangað sem þau eru alls ekki til, til sveltandi þjóða? Okkur finnst þetta verðugt viðfangsefni að kryfja til mergjar. — Og það má benda á að fjarlægðirnar eru alltaf að styttast í heiminum. Þær eru alltaf að verða styttri og styttri. Þess vegna ætti að vera auðveldara að framkvæma þetta í reynd, eins og ég hef nú vikið að.

Hæstv. utanrrh. fjallaði nokkuð um öryggismál í sambandi við VIII. kafla skýrslunnar og minnti okkur á flotaæfingar Sovétríkjanna á Norðvestur-Atlantshafi, sem nú hafa nýlega átt sér stað, þar sem sovésk herskip og kafbátar af nýjustu gerð sýndu listir sínar. Hæstv. utanrrh. skýrði þetta allt á besta veg, og við skulum vona að tilgangurinn sé aðeins æfingar til þess að verjast meintum hugsanlegum árásum, en ekki æfingar í því skyni að gera útrás til annarra þjóða. En samstaða okkar við aðrar þjóðir í öryggismálum er vitaskuld, að mínum dómi, alveg sjálfsögð og einkar nauðsynleg. Það er ekki síst til að verjast hugsanlegum árásum að nú þarf víðtækt eftirlitskerfi, þ. e. a. s. stöðvar þaðan sem hægt er að halda uppi eftirliti með því sem er að gerast í grenndinni. Slíkar eftirlitsstöðvar hafa gífurlega mikla þýðingu og gera okkur fært, sem og öðrum, að fylgjast með því sem er að gerast. Það að vita hvað er að gerast í umheiminum er að sjálfsögðu mikils virði fyrir hverja þjóð sem vill vera viðbúin því versta.

Að flugmálum er vikið í IX. kafla skýrslunnar. Það er ekki ofsögum sagt að millilandaflugið hefur orðið æ veigameiri atvinnugrein hér á landi. Það hefur ómetanlega þýðingu fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Ég er alveg sammála hv. 9. þm. Reykv. í því, að við þyrftum að leggja áherslu á að fá lendingarleyfi fyrir íslenskar vélar á vesturströnd Bandaríkjanna. Og ég er honum sammála í því, að mér finnst ekki svo ýkjamikill munur — svona í fljótu bragði — á hvort lendingarleyfin eru gefin á austurströnd eða vesturströnd Bandaríkjanna. Að vísu er þar langur vegur á milli, við vitum það. En ég held að þetta mál sé a. m. k. vert að íhuga og kanna til þrautar.

Um utanríkisviðskiptin á árinu 1978 mætti að sjálfsögðu ræða í mjög löngu máli, en verður ekki gert hér. Þess er getið í skýrslu hæstv. ráðh., að þrátt fyrir verðbólguna innanlands og ýmsa efnahagserfiðleika erlendis hafi þróun utanríkisviðskipta okkar á árinu 1978 verið mjög hagstæð. Þetta er gleðilegt, þetta er okkur öllum gleðiefni. En það sýnir aðeins hvað við þurfum að hafa vökult auga í þessum efnum. Við byggjum mikið á samskiptum við aðrar þjóðir. Lífsafkoma okkar byggist á því, að við getum haft sem allra mest friðsamleg skipti við önnur þjóðlönd. Ég vil þó minna á að við stöndum að sumu leyti höllum fæti í þessu efni, eins og raunar hver önnur smáþjóð. Geta má þess, að t. d. var það svo á s. l. ári að mjög veruleg óvissa var um sölu á skreið til Nígeríu fram eftir öllu og einnig á saltfiski til Portúgal, sem er okkur samt svo sérlega hagkvæmur markaður. Þannig þurfum við að berjast fyrir því frá ári til árs að viðhalda mörkuðum okkar hjá sem flestum þjóðum. Ég fer ekki lengra út í þau efni, en bið menn aðeins að hugleiða hversu markaður okkar í Bandaríkjunum fyrir íslenskar afurðir er okkur ómissandi. Það er ekki á hverjum degi sem þessa er getið. Ég held að okkur sé farið að finnast að Bandaríkjamarkaður fyrir freðfiskafurðir okkar sé svo sjálfsagður að við getum nokkurn veginn hagnýtt okkur hann eins og loftið og vatnið sem við höfum nóg af hér á landi. Eigi að síður er vert að minnast á þennan markað, sem tekur við svo miklu af útflutningsafurðum okkar og er allra dýrmætastur markaða.

Ég fer nú senn að ljúka þessum orðum, vil þó að lokum, eins og gert er í skýrslunni, minnast örfáaum orðum á utanríkisþjónustuna sjálfa. Það er greint frá því, að hún hafi verið á liðnu ári með hefðbundnum hætti. Vitanlega er það svo, að utanríkisþjónustan er með hefðbundnum hætti frá ári til árs. Eigi að síður tel ég að slík þjónusta og starfslið hennar sé okkur mjög dýrmætt. Ég held að við séum vaxnir upp úr því, sem rætt var um í eina tíð á Alþ., að það væri bruðl að hafa tildurherra í Kaupmannahöfn o. s. frv. Ég held að utanríkisþjónustan hafi sannað gildi sitt á liðnum árum. Ég leyfi mér að færa starfsmönnum hennar, og þeir eru mér margir persónulega kunnugir að öllu góðu, bestu þakkir fyrir það sem þeir hafa unnið heima og erlendis fyrir land og þjóð. Ég hygg að þegar reikningar eru upp gerðir sé utanríkisþjónusta okkar ekki ýkjakostnaðarsöm heldur. Það ættu menn að hugleiða, en jafnframt að hafa hugfast að það kostar nokkuð að vera sjálfstæð þjóð. Ég held að við Íslendingar höfum hlotið að gera okkur grein fyrir því þegar við vorum að berjast fyrir fullu sjálfstæði, að það kostar okkur talsvert fé að viðhalda sjálfstæði okkar og varðveita það í framtíðinni. Það er atriði sem allt of margir gleyma frá degi til dags, en er vert að rifja upp einstöku sinnum því að við verðum að muna það og geyma okkur vel í minni, að ef við ætlum að byggja þennan hólma okkar verðum við að sumu leyti að leggja mun meira á okkur en þjóðir þær sem byggja frjórri og heitari lönd.

Það fer ekki milli mála að utanríkismál eru hin allra mikilvægustu mál sérhverrar sjálfstæðrar þjóðar. Ég endurtek það einu sinni enn. Þetta á allra helst við smáþjóðir sem verða að kunna fótum sínum forráð í viðsjálum heimi, þar sem allra veðra er von og alveg víst að þó vel gangi verður hann jafnan kaldur á köflum.