07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4393 í B-deild Alþingistíðinda. (3489)

357. mál, utanríkismál

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. S. l. 4 ár, þegar skýrsla um utanríkismál hefur verið til umr., hefur það verið hlutskipti mitt að gagnrýna ákveðinn veigamikinn þátt í stefnumörkun og framkvæmd utanríkismála. Ég á þá að sjálfsögðu við afstöðuna til erlendrar hersetu í landinu og aðildar Íslands að hernaðarbandalagi. Þessi gagnrýni var bein og eðlileg afleiðing af þeirri alkunnu staðreynd að flokkur minn var algerlega andvígur stefnu fyrrv. ríkisstj. í þessum mikilvægu þáttum utanríkismála.

Nú er sú breyting á orðin, að flokkur minn á um þessar mundir aðild að ríkisstj. og ég er stuðningsmaður þeirrar ríkisstj. Hefði ég óneitanlega talið miklu máli skipta að geta nú lýst því yfir að með tilkomu nýrrar ríkisstj., sem flokkur minn tekur þátt í, hefði orðið umtalsverð breyting á stefnunni, a. m. k. gagnvart dvöl erlends herliðs í landinu. Svo er því miður ekki. Í öllum meginatriðum er fram haldið óbreyttri stefnu fyrrv. ríkisstj. í þeim málum.

Við myndun núv. stjórnar var því lýst yfir af hálfu Alþb., að það væri jafnt eftir sem áður andvígt aðild Íslands að Atlantshafsbandalagi og dvöl herliðs í landinu. Mun ég víkja nokkru nánar að því atriði síðar í máli mínu.

Ég vil, þrátt fyrir það sem nú var sagt, þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans, sem er skipulega samið plagg. Hún er greinargóð um margt og nokkuð víða við komið. Það er að sjálfsögðu alltaf álitamál hvað á að taka fyrir í skýrslu sem þessari og hér hafa verið gerðar aths., að sumu leyti réttmætar, um atriði sem vel hefðu mátt vera í skýrslunni. En eins og oft vill verða þykir mér líklegt að ég komi til með að hafa fleiri orð um þau atriði skýrslunnar, sem ég hef aths. við að gera, en hin, sem ég er algerlega eða að meginmáli sammála. Ég vil þó ekki láta hjá líða að taka sérstaklega undir a. m. k. tvö atriði skýrslunnar og lýsa eindregnum stuðningi mínum við þau sjónarmið sem þar koma fram.

Hið fyrra er kaflinn sem fjallar um Grænland. Ég er hæstv. utanrrh. þakklátur fyrir þann lofsverða áhuga sem hann hefur sýnt á málefnum Grænlendinga sem nú hafa öðlast eigið þjóðþing og heimastjórn. Sé það rétt, sem sagt hefur verið, að við Íslendingar séum nálægt mörkum hins byggilega heims, — það hefur trúlega einhver látið ummælt á hörðu ísavori, — hvað má þá segja um Grænlendinga? Víst er að þeirri veiðimannaþjóð, sem það mikla land byggir, er mikill vandi á höndum að fóta sig í nútímanum, ef svo má að orði komast, og Grænlendinga bíða vafalaust mörg torleyst verkefni. Allt bendir til að aukin samskipti þeirra og okkar á komandi tíma geti orðið báðum þjóðunum til góðs. Svo verður væntanlega um fiskverndarmál, um fiskveiðipólitík o. fl. og e. t. v. — og vonandi — geta Grænlendingar sitthvað lært af reynslu okkar á ýmsum sviðum. Þau samskipti Alþingis og landsþings Grænlendinga, sem hæstv. utanrrh. segir í skýrslu sinni að æskilegt sé að komist á sem fyrst, tel ég að séu þegar hafin með heimboði grænlenskrar þingmannasendinefndar, en slíkt heimboð sendi Alþingi Grænlandsþingi 1. maí, en þann dag kom það saman í fyrsta skipti.

Hitt atriðið, sem ég vil víkja að fáeinum orðum og ýmsir ræðumenn hafa að vísu rætt nokkuð í dag og allir á eina lund, er aðstoð Íslendinga við þróunarlöndin.

Sú kenning heyrist stundum, að þar sem óleyst verkefni bíði víðs vegar hér á landi og við þurfum á vaxandi fjármunum að halda til margvíslegra verkefna, til heilsugæslu, til tryggingamála, til vegaframkvæmda, til hafnabóta og þannig mætti lengi telja, séum við lítt eða ekki aflögufærir til handa fátækum þjóðum heims. Hæstv. utanrrh. hafnar algerlega í skýrslu sinni og ræðu í dag þessari barlómskenningu, og það geri ég vissulega líka. Við höfum ráð á að taka myndarlegan þátt í þeirri viðleitni vel stæðra og ríkra þjóða að létta undir með þeim sem búa við skort og hörmungar. Í þessu efni hafa frændþjóðir okkar á Norðurlöndum skipað sér nú þegar í allra fremstu röð og að líkindum náð meiri árangri en ýmsar þjóðir aðrar og reynt með ýmsum hætti að tryggja að aðstoðin kæmi að raunverulegum notum. Á þessu sviði eins og ýmsum öðrum er lítið til Norðurlanda sem nokkurrar fyrirmyndar. Hér höfum við Íslendingar því miður orðið algerir eftirbátar og megum sannarlega fyrirverða okkur fyrir. Ég tel þarflaust og raunar ófært að una því öllu lengur að við séum taldir hafa litla getu og enn minni vilja til að verða hér að liði. Við eigum einmitt, eins og hæstv. utanrrh. leggur áherslu á, að geta veitt þróunarlöndunum hlutdeild í sérfræðiþekkingu okkar á sviði fiskveiða, á því sviði að nýta jarðhita og ýmsum fleiri sviðum. Auk þess vil ég ekki gera lítið úr því, sem hv. 2. þm. Vesturl. lagði sérstaka áherslu á, að sumt af þeirri offramleiðstu, sem við erum næstum því að sligast undir, erum a. m. k. í vissum vandræðum með, ætti að komast til þeirra landa þar sem þörfin er. Ég get ekki séð annað en t. a. m. mjólkurduft væri mjög æskilegt í slíku skyni og ætti að vera tiltölulega auðvelt að sjá um flutning á því þótt um langan veg sé. Ég ætla ekki að hafa hér um fleiri orð að þessu sinni, en ég vil heita hæstv. utanrrh. fullum stuðningi mínum við að koma fram verulegri bragarbót. Það þurfum við að gera vegna sæmdar okkar og sjálfsvirðingar.

Þá vil ég víkja stuttlega að þeim kafla skýrslunnar sem fjallar um hafréttarmál og þó einungis að því er tekur til ágreinings við Norðmenn um hugsanlega fiskveiðilögsögu, sem þeir ráðgera að lýsa yfir við Jan Mayen, og þeirra áhrifa sem slík ákvörðun getur haft á 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar á hafsvæðinu milli Íslands og Jan Mayen.

Ég vil í fyrsta lagi láta þá skoðun í ljós að samkv. þeim drögum að hafréttarsáttmála, sem nú liggja fyrir, geti Norðmenn á engan hátt helgað sér 200 mílna auðlindalögsögu við Jan Mayen og síðan í krafti þess krafist að miðlína sé látin skipta þarna á milli. Enn síður geta þeir gert slíkt í krafti einhverra gildandi alþjóðalaga. Slík einhliða yfirlýsing af Norðmanna hálfu, sem hefði áhrif til skerðingar á 200 mílna auðlindalögsögu okkar í átt til Jan Mayen, væri því jafngildi þess að Norðmenn legðu hald á hluta af óumdeilanlegri eða lítt umdeilanlegri íslenskri auðlindalögsögu. Nú er vitað að hæstv. utanrrh. mun á næstunni ræða þessi mál m. a. við utanrrh. Noregs. Ég dreg ekki í efa að hæstv. utanrrh. okkar mun halda þar á rétti okkar af fullri einurð, og ég tel mig geta fullvissað hann um að í þeim efnum stendur einhuga þjóð að baki honum.

Þá vil ég víkja nokkuð að hinum svonefndu varnarmálum.

Þeir menn eru til, jafnt innan Alþb. sem utan, sem furða sig á því og gagnrýna það með ýmsum hætti, stundum næsta kynlegum, eins og við heyrðum hjá síðasta ræðumanni, að Alþb. skuli hafa léð máls á því að gerast aðili að ríkisstj. sem ekki hefði brottför hersins á stefnuskrá sinni. Slíkar raddir úr röðum hernámssinna, frýjuorð eftir kokkabókum þeirra Morgunblaðsmanna, læt ég sem vind um eyrun þjóta. Ég tel ekki að taki því að svara þegar það kemur úr þeirri áttinni. En þeim stuðningsmönnum Alþb., sem gagnrýnt hafa og gagnrýna kunna þessa ákvörðun flokksins, og öðrum raunverulegum andstæðingum herstöðva á Íslandi vil ég segja að ég skil það ákaflega vel og tel á engan hátt óeðlilegt þó að menn spyrji hvaða rök geti verið fyrir því að flokkur eins og Alþb., sem bæði fyrr og síðar hefur lýst fullri andstöðu sinni við hersetu í landinu, skuli taka þátt í ríkisstj. með þau stefnumið í þeim efnum sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur. Ég vil að vísu bæta því við og leggja á það áherslu, að þrátt fyrir aðild að ríkisstj. hefur ekki einn einasti Alþb.-maður, svo að mér sé kunnugt, skipt um skoðun gagnvart herstöðvum á Íslandi eða gagnvart aðild að NATO. Í mínum huga, og það dæmi er mér að sjálfsögðu nærtækast, réð það úrslitum um fylgi við stjórnaraðild sem nú skal greina:

Ljóst var snemma í umr. um stjórnarmyndun á s. l. sumri, að enginn minnsti grundvöllur var til að koma saman ríkisstj. sem hefði á stefnuskrá sinni að láta herinn fara. Auk þess höfðum við Alþb.-menn af því nokkuð sára og jafnvel dýrkeypta reynslu að ekki er það eitt nægilegt eða einhlítt til að losa okkur við herinn þótt takast kunni með herkjum að fá væntanlega samstarfsflokka í ríkisstj. til að undirrita e. t. v. hálfloðnar yfirlýsingar um brottför hersins. Ef þeir hinir sömu flokkar eða ráðamenn í þeim eru í raun og veru andvígir slíkri lausn virðist vera um ýmsa möguleika og ýmis tækifæri að ræða til þess að grípa og koma á þann hátt í veg fyrir að slík fyrirheit í stjórnarsáttmála nái fram að ganga. Ég spurði því sjálfan mig að því nokkrum sinnum s. l. sumar: Þegar ljóst er að einungis tæpur fjórðungur alþm., sem hefur á bak við sig tæpan fjórðung kjósenda, er reiðubúinn til að segja upp herstöðvasamningnum, hvaða gagn gera þá 14 þm. Alþb. málstað herstöðvaandstæðinga með því að segja: Þar sem við getum ekki knúið fram stefnubreytingu í herstöðvamálinu, hvorki innan þings né innan væntanlegrar ríkisstj., tökum við ekki þátt í frekari stjórnarmyndunartilraunum, komum ekki nærri þessu, við höldum að okkur höndum, þá er ekki hætta á að þær óhreinkist, við bíðum einungis betri tíma? Að vel athuguðu máli komst ég að þeirri niðurstöðu að slík einangrun og fyrir fram útilokun frá því að bera ábyrgð og hafa áhrif þjónaði hvorki málstað herstöðvaandstæðinga né öðrum þeim stefnumiðum flokks míns sem ekki yrði kleift að ná fram í samstarfi við aðra flokka. Það er að sjálfsögðu ævinlega matsatriði þegar um er að ræða hugsanlega aðild að ríkisstj., hvort það, sem fram kann að nást hverju sinni, er nægilega þungt á metaskálunum til að réttlæta stjórnarþátttöku, þar sem vitað er að margt, sem mikilvægt er og mikilvægt hlýtur að teljast hverjum flokki, nær ekki fram að ganga í slíku stjórnarsamstarfi tveggja, að ég tali nú ekki um þriggja flokka.

En um þetta atriði ætla ég ekki að fjölyrða frekar að þessu sinni. Ég vil einungis undirstrika þetta: Það er svo með mig og þm. Alþb. alla, að þrátt fyrir aðild að þessari ríkisstj., ríkisstj. sem hefur óbreytt ástand í herstöðvamálum á stefnuskrá sinni, er ekki um neina stefnubreytingu að ræða af okkar hálfu. Þingflokkur Alþb. og Alþb. í heild er eftir sem áður andvígt her og herstöðvum hér á landi svo og aðild að NATO, og eins og segir í stjórnarsamningnum áskilur Alþb. sér allan rétt til að túlka þessa stefnu sína jafnt innan þings sem utan.

Það er vafalaust rétt, sem oft er haldið fram, að afstaða meiri hl. Alþingis til herstöðva á Íslandi þarf ekki að gefa og gefur trúlega ekki rétta mynd af viðhorfi kjósenda gagnvart þeim mikilvægu málum. Afstaða til flokka og frambjóðenda mótast af mörgum þáttum og herseta í landinu er einungis einn þeirra mörgu þátta. Sumir telja hann að vísu svo mikilvægan að hann ræður miklu eða jafnvel mestu um hvar þeir skipa sér í fylkinu. En hjá ýmsum hafa önnur atriði, aðrir þættir úrslitaáhrif, og það veldur því að töluvert misræmi getur verið og er í þessu efni milli þings og þjóðar. Þó að vel kunni það að vera rétt, sem ýmsir telja, að verulegur hluti kjósenda Framsfl. og umtalsverður hluti Alþfl.-kjósenda hafi viljað og vilji enn losna við herinn, breytir það í rauninni ákaflega litlu þar eð þeirra sjónarmiða gætir lítt eða ekki í stefnumótun og starfi umræddra flokka. Og þó að það sé óskemmtilegt fyrir okkur herstöðvaandstæðinga, held ég að það sé alveg nauðsynlegt að við gerum okkur ljósa grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa innan þessara tveggja flokka í þessu efni á undanförnum nokkrum árum.

Sú var tíðin, og hún er ekki ýkjalangt að baki, að mjög öflug hernámsandstaða var innan Framsfl. og hennar gætti meira eða minna í öllum stofnunum flokksins, ef svo má að orði kveða. Á hverju flokksþingi áttu skoðanir þeirra, sem vildu losna við herinn, ýmist sem allra fyrst eða í áföngum, miklu meirihlutafylgi að fagna. Að vísu tókst forustuliði flokksins eða meiri hl. þess gjarnan að koma í veg fyrir að sá vilji flokksþinga næði fram að ganga. En allt um það var hér um svo sterka hreyfingu að ræða meðal fylgismanna að taka varð til hennar allverulegt tillit. Nú er því miður svo komið, eða virðist svo komið, að sú andstaða við hersetu í landinu, sem enn kann að leynast og leynist með mörgum framsóknarmanni, virðist algerlega skipulagslaus, forustulaus, enda langt síðan framámaður í þeim flokki hefur sagt í atvöru eða með þeim orðum að eftir yrði tekið að hér eigi ekki að vera her á friðartímum.

Innan Alþfl. var og löngum talsverður hópur manna sem lýsti sig andvígan dvöl erlends herliðs hér. Öðru hvoru virtist þessum skoðunum vaxa heldur fylgi en hitt innan flokksins, og frá ungum jafnaðarnönnum komu oft býsna skeleggar samþykktir í þá veru að herinn ætti að fará. En nú heyrast naumast slíkar raddir úr þeirri átt, síst svo að flokksforustan leggi við eyrun og fari að hlusta, ef þær raddir heyrast þá nokkrar.

Herstöðvaandstæðingar, hvar í flokki sem þeir standa, verða að mínu viti að átta sig á þeirri staðreynd, sem ég hef nú verið að lýsa. Eins og sakir standa eru því miður engar horfur á að hægt verði í náinni framtíð að knýja fram á Alþ. og innan ríkisstj. ákvarðanatöku um tafarlitla eða skjóta brottför herliðsins, hvað þá heldur úrsögn úr Atlantshafsbandalagi. En þá vakna að mínu viti spurningarnar um hvort ekkert sé þá hægt að gera meðan svo stendur. Og án þess að fara langt út í þá sálma nú svara ég slíkum spurningum hiklaust á þá leið, að eitt og annað sé hægt að gera. Með ýmsu móti á að vera kleift að draga úr háskalegum áhrifum hersetunnar, og ég tel nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort ekki er meirihlutavilji á hv. Alþ. fyrir ýmsum ráðstöfunum sem miða að því markmiði. Ég læt að þessu sinni nægja að benda á eitt atriði, sem ég tel þó afar mikilsvert og aldrei nægilega undirstrikað við þær aðstæður sem við búum nú.

Alhliða atvinnuuppbygging á Suðurnesjum er ein meginforsenda þess, að við Íslendingar getum með sæmilegu móti og án nokkurra annarlegra sjónarmiða metið hvort hér skuli dveljast lengur eða skemur sá erlendi her sem hér hefur verið býsna lengi. Meðan á þriðja þúsund Íslendinga á atvinnu sína og fjárhagslega afkomu undir því að herinn sé hér áfram verður örðugt að fá stöðuna metna án hliðsjónar af þeirri staðreynd. Í þessu sambandi fagna ég því, að atvmn. Sþ. hefur alveg nýlega sent frá sér nál. um þáltill. þá sem við fluttum, ég og hv. þm. Geir Gunnarsson, um Suðurnesjaáætlun, en atvmn. mælir eindregið með samþykkt þeirrar till. Uppbygging af slíku tagi sem þar er um fjallað er að mínu viti ein aðalforsenda þess að hægt verði að fá menn til að taka afstöðu til herstöðvamálsins án tillits til atvinnu- og fjárhagssjónarmiða. Ég er þeirrar skoðunar, að eitthvert mikilvægasta og raunhæfasta baráttumál, sem andstæðingar varanlegrar hersetu, hvar í flokki sem þeir standa, eiga að geta sameinast um, sé að beita sér fyrir því að stjórnvöld taki upp þá stefnu að takmörkuð verði og loks rofin að fullu fjárhagsleg og atvinnuleg tengsl Íslendinga og íslenskra fyrirtækja við herstöðina, að því verði unnið eftir sérstakri áætlun að Íslendingar hverfi úr öllum störfum tengdum herliðinu jafnóðum og þeim, sem þar vinna nú, hefur verið tryggð atvinna við íslenska atvinnuvegi, og verði í því skyni gert sérstakt átak til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum, eins og ég hef þegar vikið að og till. okkar Geirs Gunnarssonar miðar að.

Herra forseti. Enda þótt sitthvað fleira sé umræðuvert í skýrslu hæstv. utanrrh. og margt sem mætti ræða um utanríkismálin umfram það sem ég hef þegar vikið að, þá ætla ég ekki að lengja umr. nú og læt því máli mínu lokið.