07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4397 í B-deild Alþingistíðinda. (3490)

357. mál, utanríkismál

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka utanrrh. fyrir að leggja þessa greinargóðu skýrslu fyrir Alþ. Ég tel að hún gefi ákaflega skýra og aðgengilega mynd af þeim viðhorfum sem efst eru á baugi á sviði utanríkismála. Ég ætla ekki að ræða skýrsluna almennt, heldur hef ég hug á að leggja nokkur orð í belg varðandi þann kafla hennar sem lýtur að hafréttarmálum og fleiri ræðumenn hafa fjallað um í umr.

Í skýrslunni er í stuttu máli skýrt frá stöðu mála á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, en eins og kunnugt er er 7. fundi hennar nýlokið. Það er skýrt frá því í skýrslunni, að þau mál, sem nú hafa mest verið rædd á Hafréttarráðstefnunni og skipta okkur Íslendinga mestu, eru ákvæði sáttmálans um skiptingu hafsvæða og landgrunns milli nágrannaríkja annars vegar og hins vegar reglur um hversu víðtæk landgrunnslögsaga skuli viðurkennd utan 200 mílna.

Ef ég vík fyrst að fyrra atriðinu, þ. e. a. s. reglum um skiptingu, er mönnum sjálfsagt kunnugt að þar hefur einkum verið deilt um tvö sjónarmið, hvort eigi að vera ríkara miðlínuregla eða sanngirnissjónarmið. Það er almenn samstaða um að mál af þessu tagi eigi að leysa með samningum og menn eigi að taka tillit við samningsgerðina til allra þátta sem máli skipta, en hins vegar hefur menn greint á um mikilvægi hinna tveggja viðmiðana: miðlínu og sanngirni. Í annan stað hafa menn deilt mjög um það, hver landgrunnsskilgreiningin á að vera utan 200 mílnanna, og deilur að sjálfsögðu staðið um það fyrst og fremst hversu víðtæk sú lögsaga eigi að vera, hversu langt út fyrir 200 mílur ríkjum skuli heimilt að fara. Íslenska sendinefndin hefur ekki hingað til tekið neina endanlega afstöðu til deilumála þessara og sjálfsagt hefur það ráðist að herfræðilegum sjónarmiðum eða „taktík“, en ég er þeirrar skoðunar að það séu mjög rík tilefni til þess fyrir Íslendinga að taka nokkru skýrari afstöðu til þessara álitamála vegna þess að við eigum mjög mikla hagsmuni tengda því hvað verður ofan á í þeim efnum.

Ef við lítum t. d. á landgrunnsskilgreininguna höfum við nokkuð augljósa hagsmuni af því að skilgreiningin verði sem víðust, og það þjónar hagsmunum okkar að styðja till. sem lýtur að víðtækri og víðri skilgreiningu á landgrunninu. Það reynir á þetta t. d. á Reykjaneshryggnum. Við gætum átt kost á að öðlast þó nokkuð mikil landgrunnsréttindi á þeim hrygg ef till. yrði ofan á, sem byggir á víðtækri skilgreiningu á landgrunninu. Þetta getur einnig skipt máli við Jan Mayen. Hversu víðtækt landgrunn þar telst vera getur ráðist mjög af því hver skilgreining verður ofan á í þessum efnum á Hafréttarráðstefnu.

Niðurstaðan um skiptingarregluna, miðlínu eða sanngirnissjónarmið, er grundvallaratriði í samningum okkar við Norðmenn um Jan Mayen-málið. Niðurstaðan í þeim málum gæti líka hugsanlega haft áhrif á viðskipti okkar við Grænlendinga, því að það getur mjög komið til álita fyrir Íslendinga að leita í framtíðinni eftir nokkrum veiðiréttindum handan miðlínu við Grænland, a. m. k. að því leyti sem Grænlendingar hafa ekki skilyrði til þess að hagnýta sér þau sjálfir. Og ef litið er aðeins nánar á Jan Mayen-málið er nokkuð augljóst að ef miðlínuregla yrði ofan á í textanum gætum við átt í erfiðleikum með að fá viðurkenndar 200 mílur okkar til fulls við Jan Mayen. Ef sanngirnissjónarmiðin yrðu hins vegar ríkari er jafnvíst og nokkuð öruggt að Norðmönnum liðist aldrei annað en láta okkur hafa að fullu 200 mílur þarna.

Það er annað atriði sem skiptir líka mjög miklu máli varðandi Jan Mayen-málið, hver skilningur verður lagður í 121. gr. hafréttartextans, en sú grein, eins og er raunar getið um stuttlega í skýrslu utanrrh., fjallar um réttindi eyja og kletta. Efnislega segir á þá leið í greininni, að eyjar skuli hafa öll efnahagsleg hafsréttindi eins og um önnur lönd væri að tefla. Þó skal það ekki gilda um kletta sem ekki hafa skilyrði til að halda uppi sjálfstæðu efnahagslegu lífi. — Nú er það svo með Jan Mayen, eins og mönnum er öllum kunnugt, að þar eru ekki skilyrði til að halda uppi sjálfstæðu efnahagslegu lífi. Ég ítreka: Þar eru ekki skilyrði til að halda uppi sjálfstæðu efnahagslegu lífi. En það er einmitt það orðalag sem notað er í textanum. Jafnvel þótt Norðmenn gætu hugsanlega rekið einhver útibú þar eða efnahagsstarfsemi mundi það ekki duga til, vegna þess að það þarf að vera um sjálfstætt efnahagslíf að tefla. Auðvitað er óumdeilanlegt að Jan Mayen er eyja. En frá hinu efnahagslega sjónarmiði er það jafnóumdeilanlegt að Jan Mayen er vegna legu sinnar, veðurfars, ísalaga o. s. frv. nákvæmlega eins sett og ef hún væri klettur. Af þeim ástæðum orkar mjög tvímælis að Jan Mayen eigi nokkur sjálfstæð efnahagsleg hafsréttindi. Það atriði er auðvitað mjög mikilvægt frá sjónarhóli okkar. Það er fróðlegt að reyna að hugleiða hver staðan við Jan Mayen yrði ef ofan á yrði sá skilningur að Jan Mayen ætti engin réttindi. Þá væri náttúrlega tvímælalaust að Íslendingar fengju að fullu 200 mílur. Það er nokkuð ljóst einnig, að Íslendingar fengju veruleg botnsréttindi út fyrir 200 mílurnar og enn fremur fengju Íslendingar afskiptarétt af veiðum annarra þjóða á þessu svæði.

Ég held áfram og ræði nánar samningana við Norðmenn. Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé ástæða til að flýta sér sérstaklega við þá samningagerð, enda verður aldrei hægt að ljúka þeim samningum til fullnustu fyrr en nokkurn veginn liggur fyrir hvað verður ofan á í hafréttarsáttmálanum á Hafréttarráðstefnunni. Sjónarmið okkar ætti því að vera að flýta okkur frekar hægt. Ég er samþykkur þeirri stefnu, sem utanrrh. hefur markað, að byrja á að ræða fiskveiðivandamál, en þó þurfum við í þeim viðræðum að gæta þess mjög vendilega að binda ekki hendur okkar og viðurkenna ekki réttindi Norðmanna sem þeir kannske eiga ekki vís. Norðmenn munu sjálfsagt í viðræðum um fiskveiðiréttindi við Jan Mayen byggja fyrst og fremst á ákvæðum 121. gr. hafréttarsáttmálans, og við munum auðvitað eiga erfitt með að fallast á, að sú grein veiti þeim yfirleitt nokkur réttindi, án þess að binda hendur okkar. Þar verður því að fara mjög varlega. Norðmenn geta líka hugsanlega byggt einhverjar réttindakröfur við Jan Mayen á hefð, þ. e. a. s. þeir hafi hefðað þarna nokkur veiðiréttindi fyrir veiðiskap sinn undanfarin ár. Þó mun sá veiðiskapur hafa verið lítill og stopull mjög.

Menn hafa rætt nokkuð um aðra fiskveiðisamninga sem í gildi eru, samningana við Færeyinga, Belga og Norðmenn, og ég ætla að segja í því sambandi að það er mjög ánægjulegt að vita til þess að þær óánægjuraddir, sem heyrðust frá sumum hv. alþm. fyrr í vetur um Færeyjasamninginn, virðast hljóðnaðar. Menn virðast allir hafa skilið að sá samningur er sanngjarn, hann tekur sanngjarnt mið af hagsmunum Íslendinga og Færeyinga.

Samninginn við Belga er að sjálfsögðu full ástæða til að endurskoða, einkum vegna þess að Belgar hafa ekki notað sér til fulls þau réttindi sem sá samningur veitir þeim. Þó finnst mér rétt að taka fullt tillit til þeirrar drengilegu afstöðu sem Belgar sýndu okkar á sínum tíma þegar við áttum í erfiðleikum og þurftum sannarlega á því að halda að einhverjar þjóðir styddu okkur. Belgar eiga að njóta þess. Þess vegna finnst mér þau mörk, sem rætt er um í skýrslunni, 5000 lestir og ekki yfir 15% af þorski í aflanum, vera sanngjörn, jafnvel þótt það þýði enga eða litla minnkun á afla þeirra í raun.

Mér finnst koma til álita að samningur Norðmanna um 2000 lestir, þar af 199 lestir af þorski, komi inn í umr. um Jan Mayen. Ef Norðmenn sýna mikla óbilgirni finnst mér ekki ástæða til þess að við látum þann samning liggja að fullu óhreyfðan.

En ég vil að lokum þakka utanrrh. fyrir þessa skýrslu. Ég tel hana greinargóða og stuðla einmitt að því, sem við höfum lengi þurft í íslenskum stjórnmálum og einkum umr. um utanríkismál, að gera umr. nokkru málefnalegri en þær hafa verið.