07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4400 í B-deild Alþingistíðinda. (3491)

357. mál, utanríkismál

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim þm., sem tekið hafa þátt í þessari umr. sem hefur staðið í hálfan fimmta tíma, fyrir ræður þeirra sem yfirleitt hafa verið málefnalegar og hóflegar og haft margt gott fram að færa. Ef litið er á þær í heild tel ég mig geta sæmilega vel við unað. Gagnrýni hefur verið, eins og hæstv. forseti Sþ. benti á í ræðu sinni, aðallega af því tagi að benda á það sem vantaði, en gjarnan hefði mátt vera í skýrslunni. Þetta er óhjákvæmilegt og eðlilegt, því að sníða verður slíkri skýrslu einhvern stakk hvað stærð snertir og þegar hráefnið í hana lá fyrir þurfti að stytta marga kafla til að hafa á milli þeirra nokkurt samræmi.

Fyrsti ræðumaður á eftir mér síðdegis í dag var fyrirrennari minn, hv. 9. þm. Reykv. Þegar tekið er tillit til þess, að ég hef verið í stjórnarandstöðu í 6–7 ár og gegnt því hlutverki við umr. sem þessa að halda uppi andstöðu gegn hæstv. ráðh. eftir þeirri góðu bresku reglu að stjórnarandstaðan eigi að vera á móti stjórninni, þá finnst mér að hann hafi farið býsna mildum höndum um mig nú þegar hlutverk hafa snúist við. Sitthvað af því, sem hann hafði að benda á, er hverju orði sannara. Ég hef vissulega ekki í þessari skýrslu getað staðið við alla þá gagnrýni sem ég er búinn að hrúga á hann, kannske af minni kurteisi en hann sýndi mér, s. l. 6–7 ár.

Ég ætla að vísu að nefna eitt atriði sem hann tiltók, en það var varðandi viðskipti okkar við Suður-Afríka. Þau eru á almennan peningalegan mælikvarða ekki voðalega mikil, en engu að síður hafa þau verið mér þyrnir í augum alla tíð og eru enn. Um þau er það að segja, að ég tók fyrir nokkru það mál upp við viðskrh., en það snertir hann ekki síður en utanrrh., og hann tók mjög vel í að láta kanna í rn. sínu, því að þar eru sérfræðingar sem þekkja til viðskipta, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að íslenskir innflytjendur séu samkv. einföldu krónu- og auralögmáli að styðja stjórnvöld í Suður-Afríku með því að kaupa af þeim ávexti sem hægt væri t. d. að kaupa í landi eins og Portúgal og styrkja þar með saltfisksölu okkar, svo að ég nefni aðeins eitt dæmi. Málið er í athugun og ég bíð eftir að heyra frá viðskrh. hvað viðskiptasérfræðingar hafa um þetta að segja. Eins og hæstv. ráðh. hefur sjálfur bent á áður ná alþjóðlegar samþykktir ekki til alþjóðlegs viðskiptabanns, þannig að við yrðum að ganga lengra en þær ná. Þær ná eingöngu til vopna og slíkra viðskipta enn sem komið er.

Hv. 2. þm. Vesturl. benti á það í sambandi við flugið, sem ýmsir ræðumenn hafa gert að umtalsefni vegna þess að það er orðinn meiri þáttur í utanríkismálum okkar en verið hefur áður, og það gerði raunar hv. 9. þm. Reykv. líka, að við ættum að sækjast mjög eftir að fá lendingarleyfi á fleiri stöðum, sérstaklega á vesturströnd Bandaríkjanna. Það var sótt um slíkt leyfi um leið og sótt var um lendingarleyfi í Baltimore. Þá var þess synjað, en lendingar í Baltimore leyfðar. Í sambandi við nýtt erindi, sem sendiherra okkar hefur flutt til stjórnvalda í Washington um athugun á hvort fáanleg séu leyfi til að fljúga að einhverju leyti beint milli meginlands Evrópu og Bandaríkjanna, er einnig tekin upp aftur umsóknin um að við fáum lendingarleyfi á fleiri stöðum, þ. á m. fyrst og fremst á vesturströnd Bandaríkjanna sem mundi, eins og hv. þm. benti á, auka líkur á að þær flugvélar lentu ávallt hér á landi.

Hv. 3. landsk. þm., Ólafur Ragnar Grímsson, flutti mikla ræðu og kom víða við. Ýmislegt af því, sem var árásarkennt í máli hans, var ekki svaravert, þó að aðrir hafi þegar svarað því, en hann kom þó að nokkrum málefnalegum atriðum sem ég tel að rétt sé að minnast á þó að öll hafi þau verið rædd við önnur tækifæri.

Hann benti á að það vantaði kafla í skýrsluna um hvort kjarnorkuvopn væru á Íslandi. Þau mál hafa oft og tíðum verið rædd á Alþ. Á þessari stundu hef ég engar nýjar upplýsingar um það mál sem gefa sérstakt tilefni til að hafa um það kafla í skýrslunni. Hann talaði um að ganga þyrfti algerlega úr skugga um hvort kjarnorkuvopn væru hér eða ekki. Það er búið að gera margar tilraunir til þess. Hv. 9. þm. Reykv. gerði það t. d. þegar hann var utanrrh., leitaði til þeirra sérfræðinga sem fáanlegir eru hér á landi, sem margir hverjir virtust fyrst í stað vera bjartsýnir á að hægt væri að koma með einhver tæki og mæla hvort kjarnorkuvopn væru á Keflavíkurflugvelli eða ekki. Þegar til átti að taka guggnuðu þeir allir á verkinu. Það er og búið að leita til margra erlendra aðila, en svarið er hreinlega á þá lund að allt, sem snertir kjarnorkuvopn, sé svo viðkvæmt og pólitískt á allan hátt að það vilji enginn koma nálægt því né skipta sér af því hvort Ameríkumenn hafa þessi vopn hér eða ekki eða hjálpa okkur til að mæla það. Ég hef á þeim fáu mánuðum sem ég hef verið í starfi mínu sem ráðh., m. a. leitað eftir því hjá sérfræðingum í hlutlausu landi hvort einhverjar leiðir væru til að fá gengið úr skugga um þetta; en það hefur ekki tekist. Mál þetta byggist því eins og hingað til að verulegu leyti á þeim röksemdum sem fram hafa komið, sem eru á þá lund að kjarnorkuvopn, hvort sem þau eru lítil eða stór, krefjast það mikilla öryggisráðstafana að ég a. m. k. tel útilokað að þau gætu verið á opnum flugvöllum sem Keflavíkurflugvelli án þess að alvarlegar grunsemdir hefðu vaknað, ef ekki til þeirra sést. Ekki er um að ræða, að menn hafi gefist upp af því að þeir fái ekki svör, og ekki heldur um að ræða að það ráði úrslitum að bandarískir hermenn og herforingjar og þeir, sem starfa í utanríkisþjónustu þar, veita um allan heim nákvæmlega sömu svör þegar spurt er um þetta mál. Þeir segja hvorki af né á um það, hvar þeir hafa slík ógnarvopn.

Annað atriði nefndi hv. þm. sem ég taldi að væri efnislegt og eðlilegt umræðuefni. Það var að nú færi fram víða um Vestur-Evrópu gagnrýnin umræða um Atlantshafsbandalagið og væri því haldið fram að til hefðu verið aðrir kostir. Það byggðist á rangfærslum um hernaðarlegar upplýsingar og annað slíkt. Í þessum efnum hafa bæði Þjóðviljinn og hv. ræðumaður haldið sér við býsna þröngan bás hvað heimildir snertir, vitna í að einhver umræða hefur orðið í Hollandi, og ég held að það sé aðallega einhver einn krati þar sem vitnað er í. Ég vil benda hv. þm. á að það stendur í lok kaflans um öryggismál í skýrslu þeirri sem ég hef lagt fram, að einmitt í sambandi við afmæli Atlantshafsbandalagsins hafi orðið nokkur fræðileg umræða um hvort hin sögulega þróun í Evrópu í 30 ár hafi verið farsæt eða ekki, hvort um aðra kosti hafi verið að ræða frá upphafi fyrir þær þjóðir sem hafa tekið þátt í bandalaginu. Ég hef kynnt mér tvær eða þrjár bækur þar sem þetta hefur verið fræðilega rætt og taldir upp þeir kostir sem menn sjá að hefðu verið fyrir hendi. Ég hef sannfærst um að þeir eru ekki þesslegir að þeir hefðu náð þeim árangri sem öryggisstefna Vestur-Evrópuríkja og Atlantshafsríkja annars vegar og Varsjárríkjanna hins vegar hefur þó borið.

Hv. þm. hélt því fram, að Bandaríkjamenn veittu ekki Atlantshafsríkjunum og stjórnendum þeirra upplýsingar um varnarmál eða jafnvel blekktu þá og væri þarna um að ræða spurningu um lýðræðið sjálft. Ég tel að það sé rétt hjá honum að ef þessar ákærur hefðu við alvarlegar röksemdir að styðjast væri e. t. v. spurning um lýðræðið sjálft sem Atlantshafsbandalagið kennir sig við. Ég get ekki dæmt um þetta svo óbrigðult sé. Ég vil minna hann á að ég flutti hér — dálítið hikandi — í dag tíðindi, sem ekki höfðu komið nema nokkrar línur um í Morgunblaðinu, um hernaðarlega atburði sem höfðu gerst umhverfis Ísland síðustu vikurnar. Þetta var ekki uppfundið af sjálfum mér, heldur aflaði ég mér upplýsinga hjá varnarliðinu og fylgdist með því sem var að gerast. Hvað þá hluti snertir get ég ekki um það kvartað, að því er ég best fæ séð sjálfur, að neinu hafi verið leynt, og ég get sagt hv. þm. það, hvort sem hann metur það nokkurs eða ekki eða trúir því, að ég hef lagt á það áherslu í samtölum við bandaríska aðila, sem utanrrn. og varnarmálanefnd hafa samskipti við alla leið upp í varaforseta Bandaríkjanna, að þörf væri á miklu meiri upplýsingum um það sem er að gerast á vegum Atlantshafsbandalagsins og þá kannske allra aðila í kringum land okkar. Ég tel að það hafi ríkt allt of mikil þröngsýni, sem er að vissu leyti fylgifiskur manna sem gegna hernaðarlegum störfum, og að þeir skilji ekki lýðræðið eins og við stjórnmálamenn skiljum það. Þeir hafa tilhneigingu til leyndar. Ég hef talið að það væri eðlilegt að við fengjum meiri upplýsingar um hvað er að gerast í kringum okkur. Við getum svo lagt á það mat sjálfir hverju sinni. Þær upplýsingar, sem ég gaf í ræðu í dag, eru fyrstu beini vottur um það. Ég hef ekki spurt neinn um leyfi til að skýra frá þessu opinberlega og um það hafa ekki komið nema nokkrar tínur í Morgunblaðinu. En þetta er atriði sem ég tel að snerti okkur.

Hv. þm. ræddi töluvert um samskiptin við bandaríska herliðið. Um ýmsar grundvallarkenningar hans erum við sammála. Enginn okkar æskir þess, að Íslendingar verði háðir atvinnu hjá varnarliðinu. Ég tel að í raun og veru séum við það ekki, þó að segja megi að 1500–1600 manns hafi atvinnu sína hjá varnarliðinu. Það má ekki taka heildartölu fólks, sem vinnur á Keflavíkurflugvelli, vegna þess hve mikill fjöldi það er orðinn sem vinnur við flugið. Ég tel að um 2/3 hlutar þess fólks, sem vinnur á flugvellinum, byggi vinnu sína á varnarliðinu og 1/3 á íslenskum samgöngum og því sem fylgir: tolli, flugstöð, lögreglu og öðru slíku, en tölurnar eru 2100–2200 á veturna og fara upp í 2400–2500 á sumrin.

Ég tel ekki rétt að fara út í nákvæmar umr. um flugstöðvarbygginguna á þessu stigi. Ég hef skýrt frá því við nokkur tækifæri og þ. á m. s. l. haust — skömmu eftir að stjórnin var mynduð — í ríkisstj. og utanrmn., að það er unnið áfram að hönnun stöðvarinnar og hefur verið tekin ákvörðun um að hanna skuli stöð sem er þriðjungi minni en þær dönsku áætlanir byggðar á frönskum áætlunum um umferð, sem áður voru fyrir hendi, gerðu ráð fyrir. Að þessu er nú unnið og verið að vinna að því sem kallað er fyrsti þriðjungur hönnunar. Seinna á þessu ári munu menn geta gert sér grein fyrir kostnaði og öðru slíku. Þá þarf að sjálfsögðu að gera upp við sig ýmis atriði í því sambandi og skoða hvað gerst hefur.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ræddi um Flugleiðir og dótturfyrirtæki þess félags, en þeim mun nú innan skamms formlega fjölgað um eitt þar sem er nýtt farþegaflug, flugfélagið Lux Air. Hann sagði að ríkisstj. eða ríkisvaldið hefði lagt blessun sína yfir þá stefnu að Flugleiðir gerast æ umsvifameiri í alþjóðlegri flugstarfsemi. Þetta er ekki rétt, því að ríkisstj. eða ríkisyfirvöld eru ekki um það spurð og ég veit ekki til þess að nein lög hér í landi geri ríkisstj. kleift að hindra slíkt. Ég hef sagt frá þessum málum nokkrum sinnum í ríkisstj. og að sjálfsögðu haft samband við samgrh., því að þetta heyrir undir hann sem innanlandsmál. Það er aðeins þegar um er að ræða skipti við aðrar þjóðir sem utanrrn. kemur til sögunnar, og ég hef einmitt varpað þessari spurningu fram: Vilja menn skera utanlandsflug okkar niður í þær samgöngur, sem við Íslendingar sjálfir þurfum að hafa við umheiminn, og annað ekki, eða vilja menn fara þá leið, sem hefur verið farin um alllangt skeið, að flugfélög okkar geti fært út kvíarnar erlendis með leiguflugi, með samvinnu við aðra og jafnvel dótturfyrirtækjum? Hefur þetta verið mjög lauslega rætt, en ekki orðið nein niðurstaða í núv. ríkisstj. um málið. Við stöndum hér andspænis staðreynd sem er þegar fyrir hendi, og ég veit ekki til þess að íslensk yfirvöld hafi lagalegar heimildir sem gerðu þeim kleift að skera þarna niður. Það yrði þá að búa þær heimildir til, ef skera ætti flugfélögin niður og knýja þau til að losa sig við öll áhrif og öll tengsl sem þau hafa erlendis. Væntanlega yrði íslenska ríkið, ef það gripi til slíkra ráðstafana, að vera við því búið, eins og ýmis önnur smá og stór lönd, að borga gífurlegan halla af þeim flugrekstri sem eftir yrði. Ég er sannfærðar um að hann mundi, eins og innanlandsflagið, skipaútgerðin og mörg flugfélög í kringum okkur, verða rekinn með miklum halla. — En ég vil taka það skýrt fram, að ríkisstj. hefur ekki lagt blessun sína yfir þær fréttir af aðalfundi Cargolux sem ég flutti í dag og voru um niðurstöður hans. Það eru aðeins fréttir sem ég hef frá þeim haft og ég þarf á að halda til að geta rætt vissar hliðar á málinu, eins og flugleyfi og jafnvel lendingargjöld sem eru til umræðu við yfirvöld í Lúxemborg nú á næstunni.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson benti á kaflann um viðskiptamál, en ég bætti að þessu sinni framan við hann þeirri setningu að viðskiptamál eða utanríkisviðskipti Íslendinga heyrðu í raun að verulegu leyti — ef ekki að mestu leyti — undir viðskrn. og að sá kafli skýrslunnar, sem fjallaði um viðskiptamál, væri frá því rn. kominn. Ég vil ekki draga í efa ágæti þess kafla, en ég tel mig ekki hafa rétt til neins höfundarréttar á honum. Ég held að við hv. þm. séum sammála um að það mætti vissulega ræða og væri kannske ástæða til að ræða, hvernig ætti að haga utanríkisviðskiptum. Í sumum löndum er sérstakt rn. utanríkisviðskipta, en hér er gömul hefð að viss hluti samninga, frágangur samninga við önnur ríki, þó ekki samningagerðir, er í höndum utanrrn. og hitt, sem kannske skiptir mestu máli, að sendiráðin íslensku vinna miklu meira að viðskiptamálum en atmennt er viðurkennt. Þáttur utanrrn. er því verulegur, en að langmestu leyti eru utanríkisviðskipti auðvitað hjá viðskrn. Meðan svo er er ég fullkomlega til viðræðu um þá hugmynd sem hv. þm. lagði fram, sem ég hafði ekki heyrt áður, að gefin yrði sérstök skýrsla um utanríkisviðskipti. Mundi ekki standa á mér að ná samkomulagi við viðskrh. um það mál.

Hv. þm. nefndi veigamikið og athyglisvert mál þar sem eru samskipti Íslendinga og Norðmanna í varnarmálum. Hann kallaði það feimnismál, þar sem hagsmunir Norðmanna væru að Íslendingar hefðu erlent varnarlið fyrir Noreg. Ég er ekki alveg sammála honum um að þetta mál hafi verið svo mikið feimnismál sem hann vill vera láta. Þetta hefur oft verið rætt. Það er stutt síðan, örfá ár, að hér var haldin ráðstefna sameiginlega af norsku Atlantshafsnefndinni og íslenskum samtökum. Utanríkismálastofnunin í Osló hefur t. d. sýnt Íslandi mikinn áhuga. Menn þaðan hafa oft verið hér og talað á fundum og ráðstefnum, þ. á m. var sá sem hann nefndi, Johan Jørgen Holst sem nú er orðinn aðstoðarvarnarmálaráðh., í þeirri stofnun áður. Ég held að það sé heldur ýkt hjá honum að farið hafi verið með málið sem feimnismál. Þeir, sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál, hafa fundið að í tímaritum á Norðurlöndum, í Noregi og víðar, hefur verið um þessi mál rætt af fullkominni hreinskilni.

Ef við snúum okkur örlítið að efninu er ég ekki sammála því, að við séum að létta einhverri vandræðabyrði af Norðmönnum með því að hafa Keflavíkurstöðina. Sannleikurinn er sá, að nákvæmlega sams konar stöðvar í Noregi gegna sama hlutverki og Keflavíkurstöðin. M. a. s. eru notaðar þar eins flugvélar og þær könnunarflugvélar sem lengi hafa verið með stöðugum endurbótum notaðar og eru notaðar á flugvelli okkar. Munurinn er aðeins sá, að Norðmenn hafa her og flota og þeir manna eftirlitið sjálfir. Þeir hafa „helikopter“ björgunarþjónustu á vesturströndinni, þeir hafa könnunarflugvélar sem fljúga könnunarflug. Þeir hafa, held ég, svo að segja allt það sama og hér — nákvæmlega sams konar stöðvar. Munurinn er aðeins að þeir manna þær norsku liði, en við höfum ekki slíkt herlið, við höfum ekki viljað hafa það og viljum ekki hafa það og þess vegna er hér erlent lið. Þegar lítið er á málið í þessu ljósi tel ég ekki sanngjarnt að segja að Norðmenn séu að velta einhverri byrði yfir á okkur. Það má þá alveg eins segja að við séum að velta byrði af okkur, vegna þess að stöðvarnar í Noregi geta haft þýðingu fyrir varnarstöð Íslands. Meginatriðið er að gera sér ljóst að varnarkerfið er allt samfelld keðja. Norsku flugvélarnar koma öðru hverju hingað og það er stöðugt radíósamband héðan til Noregs eins og það er til Bretlands og Grænlands. Þetta er allt ein samhangandi keðja sem gefur því það gildi sem það á að hafa og sagt er að það hafi. Engu að síður er þetta „utanríkis-akademískt“ spursmál sem ég tel mjög eðlilegt að ræða og væri kannske gaman að fara lengra út í við betra tækifæri.

Hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, ræddi um hafréttarmál. Ég þakka honum fyrir þá áherslu sem hann lagði á að frv. um heildarlöggjöf um landhelgi yrði afgreitt. Ég vona að það verði engin vandkvæði á því, af því að frv. er komið í gegnum nefnd og liggur fyrir nál. í seinni deild. Um mál hans hef ég ekki aths. að gera nema að litlu leyti.

Það má að sjálfsögðu, eins og nú standa sakir, halda uppi hörðum deilum um hvaða réttindi Norðmenn hafa á Jan Mayen og hvaða réttindi þeir hafa ekki. Lögfræðingar segja mér að þeir hafi að ýmsu leyti veikan siðferðilegan rétt. Það hefur jafnvel verið kallað í norsku blaði „sokkel-imperialisme“. Á hinn bóginn segja sömu lögfræðingar að sú siðferðilega gagnrýni, sem hægt er að halda uppi á Norðmenn, muni ekki vega þungt t. d. fyrir rétti eða fyrir dómi. Málið er flókið, og það út af fyrir sig styður skoðanir þeirra manna sem segja að allar líkur séu á að skynsamlegt væri fyrir okkur að draga þennan hluta málsins. Það er vissulega ekki verið að ýta þessu máli áfram af minni hálfu að öðru leyti en því, að við höfum dálitlar áhyggjur út af loðnuveiði næsta árs eða næsta sumars og hausts og fram yfir áramótin.

Hv. þm. sagði að hann teldi rétt að loðnuveiðin yrði látin byrja seinna á komandi sumri en hún hefur gert. Ég get sagt honum að í viðræðum mínum við sjútvrh. síðustu tvo daga um mál, sem við höfum rætt í landhelgismálanefnd, hef ég ekki getað betur heyrt en hann væri algerlega á þeirri skoðun að byrja ætti seinna, en leggja bæri ríka áherslu á mikla leit og rannsóknir á undan svo að við vissum hvers væri að vænta. Ég held að ég geti líka sagt að hann fari a. m. k. varlega í að taka við tölunni 600 þús. tonn, sem íslenskir, norskir og færeyskir fiskifræðingar töldu að mætti taka úr stofninum á næstu vertíð, og að það muni örugglega verða óskað eftir vandlegri endurskoðun fiskifræðinga á því áliti áður en farið verður að byggja fast á 600 þús. tonna tölunni.

Hæstv. forseti Sþ. flutti að vanda ágæta og sanngjarna ræðu. Ég vil þakka honum fyrir það sem hann sagði og öllu frekar það sem hann hefur gert sem forseti og aðrir forsetar með honum varðandi heimboðið til Grænlendinga og Grænlandsþings. Varðandi aðstoð við þróunarlöndin er ég honum einnig sammála. Það mál stóð illa s. l. haust því að embættiskerfið skilaði fjárlögunum þannig að aðstoð við þróunarlöndin var skorin niður úr öllu valdi og þar þurfti að gera átak. Komu margir við sögu á síðustu stundu til að bæta við, mig minnir 34 millj., til þess eins að við gætum staðið við skuldbindingar. Prósentutala okkar er skammarlega lág og mörgum okkar líður illa vegna hennar. Á móti þeirri tilfinningu má benda á að hjálp við þróunarlöndin er ekki eins bein hjá öðrum þjóðum og við viljum hafa hana, peningar greiddir eða eitthvað sem því jafngildir. Ef Volvo byggir verksmiðju í Tanzaníu og kannske græðir á henni fé telst sá fjárfestingarkostnaður vera þróunaraðstoð frá Svíþjóð til Tanzaníu. Það er svona þróunaraðstoð sem ærið mörg lönd hafa stundað í stórum stíl og er talið að verulegur hluti, miklu meira en helmingur af allri þróunaraðstoð, sem auðugu löndin senda frá sér, komi fljótlega til þeirra aftur. Ég veit ekki hvort menn vilja meta slíka aðstoð mikils. Einhver sagði að í þróunaraðstoð okkar til Kenýa hefðu verið keypt veiðarfæri hjá veiðarfæragerðinni hérna, svo að pínulítið hefði orðið eftir af þeim peningum og þeir hefðu fengið aðstoð í íslenskum veiðarfærum. En þeir voru á engan hátt snuðaðir með því.

Um aðstoð við þróunarlöndin er annars þetta að segja: Það er stofnun til sem heitir þessu nafni og er sett upp með lögum. Hún fer aðeins með hluta af því fé sem við verjum til þróunarlanda. Meiri hlutinn af því fé rennur í gegnum sjóði Sameinuðu þjóðanna og aðrar alþjóðlegar stofnanir. Eins og sjá mátti á dagskrá Sþ. í dag er endurkosning á stjórn fyrir þessa stofnun fyrir dyrum. Eftir viðtöl við þá menn, sem hafa unnið margir hverjir af mikilli fórnfýsi við þetta starf undanfarin ár, hef ég beðið þá um að endurskoða lögin um þessa stofnun og gera það fyrir haustið. Ég hef einnig farið fram á það við formenn þingflokkanna að ekki verði kosin ný stjórn fyrr en þeirri endurskoðun er lokið. Ég held að slíkt sé hyggileg málsmeðferð og ekki muni skipta okkur í sjálfu sér neinu hvort við kjósum nýja stjórn nú eða strax í upphafi næsta þings. Hvað sem því líður þarf að taka þessi mál föstum tökum á næsta þingi og gera betur en við höfum gert til þessa. Ég held að það gæti verið mannbætandi ef fleira ungt fólk fengi að fara til hinna fátæku landa og dveljast þar einhvern tíma og sjá hvað hörð lífsbarátta er.

Hæstv. forseti Sþ. kom síðan að varnarmálunum, en á því sviði eru skoðanir hans mjög vel þekktar og þarf ég ekki að ræða þær í þetta skiptið, því að það gefast jafnan á þingi mörg tækifæri til þess og ég tel ekki ástæðu til að eyða nú á síðkvöldi tíma í grundvallardeilumál hvað það snertir.

Ég vil að lokum segja að ég er honum innilega sammála um að hyggja þarf að atvinnuuppbyggingu Suðurnesja. Það er gott að till. um Suðurnesjaáætlun er á ferli í þinginu. Hér eru líka mjög góðar till. um tollfrjálst iðnaðarsvæði, og minnst hefur verið á aðskilda flugstöð sem verður væntanlega vinnustaður fyrir 500–600 manns, ef ekki meira. Allt þetta þarf vafalaust að gera til að tryggja sem besta atvinnu og tryggja að við séum ekki háðir varnarliðinu í atvinnumálum.

Ég vil að lokum segja, að eftir að ég fór að hafa smásjárkynni af málum þarna syðra undraðist ég hversu mikið af starfsmönnum á flugvellinum, sérstaklega hjá varnarliðinu, er búið að vera þar lengi. Mikill fjöldi þeirra, meira en þriðjungur, er búinn að vera þar í 20, 25 og jafnvel 30 ár, fjöldinn allur 10–20 ár. Þetta segir okkur náttúrlega um þá sem elstir eru, að þeir séu ekki vinnukraftur sem hlaupi í hvað sem er. Á hinn bóginn er athyglisvert að það er ekki flökkulýður, eins og sumir segja, sem þarna er, heldur virðist vera nokkuð fastur kjarni manna sem hefur stundað þarna vinnu. Þetta eru mannleg sjónarmið sem er vert að athuga og er sjálfsagt að gera það.

Ég hef í vetur orðið fyrir ádeilu út af vinnumálum á Keflavíkurflugvelli, en vil ítreka, að sjónarmið mitt hefur verið eingöngu að flugvöllurinn og sérstaklega varnarliðið og íslensku félögin, sem hafa þar verktöku, yrðu ekki til þess að þeir erfiðleikar, sem Suðurnesjamenn hafa átt í núna og eru skammtímaerfiðleikar, yrðu meiri en ella. Það er allt og sumt. Stuðla ætti að því að varnarliðið segði ekki upp óeðlilega mörgum mönnum í skyndi eftir einhverjum reglum sem kæmu utan að. Svo er annað, sem hefur snert miklu fleira fólk, að við höfum unnið að því að verktakarnir legðu sig fram um að fleygja fólki ekki út á gaddinn yfir háveturinn. Ég hygg að 50–60 manns hafi haldið starfi í allan vetur vegna ,þeirrar viðleitni. Þetta er aðeins lítið lóð á vogarskálina til þess að atvinnuástand á Suðurnesjum verði ekki verra en það var þegar verst var, en er á engan hátt gert til að festa þessa atvinnu eða gera Íslendinga neitt háðari henni en þeir hafa verið, nema síður sé.