07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4406 í B-deild Alþingistíðinda. (3492)

357. mál, utanríkismál

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er orðið nokkuð áliðið kvölds og ég mun þar af leiðandi reyna að stytta mál mitt eftir föngum og lofa því að tala ekki ýkjalengi.

Ég vil fyrst byrja á því, sem er aðalerindi mitt hingað í ræðustól, að skýra frá að í morgun var ákveðið í utanrmn. að leggja fyrir þingflokkana hugmyndir um hvernig halda skyldi á Jan Mayen-málinu, sem svo hefur verið nefnt. Þetta var gert í þingflokki Framsfl. í dag og allur þingflokkurinn, — þeir sem viðstaddir voru, sem voru að ég held allir nema hæstv. forsrh. sem er fjarstaddur, en varamaður hans var viðstaddur, — stendur að svofelldri ályktun:

„Þingflokkur Framsfl. telur að Norðmenn geti ekki lýst yfir 200 sjómílna efnahags- eða fiskveiðilögsögu umhverfis Jan Mayen.“

Um leið og ég skýri frá þessu vil ég heita því, að hæstv. utanrrh. mun hafa fullan stuðning allra þm. Framsfl. í þessu mikilsverða máli þegar hann gengur til viðræðna við starfsbróður sinn hinn norska á næstu dögum, og við berum fullt traust til hæstv. ráðh. að hann haldi á þessu máli með fullri reisn og með hagsmuni Íslands fyrir augum.

En nokkur önnur atriði langar mig að nefna, fyrst ég fór að biðja um orðið og hæstv. forseti var svo vinsamlegur að veita mér það.

Ég gat ekki verið viðstaddur hluta úr deginum af ástæðum sem óþarfi er að tilgreina og ég heyrði þess vegna ekki nema hálfa ræðu hv. 3. landsk. þm. og ekkert af ræðu hv. 4. þm. Reykv., en mér hefur verið skýrt frá að hann hafi greint frá þeim ástæðum sem urðu þess valdandi að hann lét þau ummæli falla sem ég vitnaði til í fyrri ræðu í dag. Ég ætla ekki að gera það mál neitt frekar að umtalsefni að honum fjarstöddum. Skýringarnar finnast mér kannske nokkuð langsóttar, en ég skal gjarnan taka þær til greina.

Um þá ræðu, sem hæstv. utanrrh. hélt núna og var að ljúka, er margt gott að segja. Hann upplýsti ýmis atriði. Ég fagna því fyrir mína parta sem hann upplýsti nú, að viðskipti við Suður-Afríku séu til athugunar sérstaklega hjá viðskrn. Við skulum vona að eitthvað komi út úr því og appelsínur verði fluttar annars staðar frá ef það getur orðið til að bæta samvisku okkar. Ávexti frá Portúgal má kannske flytja inn, en einhvern tíma var mér sagt að þeir þyldu ekki flutning, þeir væru þannig gerðir. En það má vel vera að hæstv: ríkisstj. finni leiðir til að flytja þá á milli landa þannig að þeir komi óskemmdir hingað.

Í sambandi við Suður-Afríku vil ég að öðru leyti segja, að á árum áður, ekki fyrir svo ýkjalöngu, var ákveðið af utanrrh. Norðurlandanna, sem þá voru, að hafa samráð við norræna verkalýðshreyfingu um hvað gera skyldi í málefnum Suður-Afríku og hvernig Norðurlöndin í sameiningu gætu lýst best andúð sinni á því stjórnarfari sem þar viðgengst. Norræn verkalýðshreyfing brást vel við þeirri málaleitan og lagði fram nokkur atriði sem ríkisstj. gátu margar hverjar samþ. En þegar kom að því atriði að stöðva bæri norræna fjárfestingu í Suður-Afríku kom nokkurt hik á suma ráðh. Ég held að ráðh. Íslands, sem þá fór með utanríkismál, hafi nánast verið sá eini sem gat með góðri samvisku og án allra fyrirvara samþykkt það atriði. Allir hinir höfðu einhverja aðra hagsmuni sem þeir þurftu líka að gæta. Þannig er þetta. Þó að menn tali fagurlega og vilji vafalaust vel koma svo mörg atriði til greina þegar til framkvæmdanna þarf að koma að minna verður úr en til er stofnað. Segja mætti mér að svipuð niðurstaða yrði af þeirri athugun sem nú fer fram á því, hvort ekki verði stöðvuð til fulls viðskipti Íslendinga og Suður-Afríkubúa.

Ég fagna því líka sem stuðningsmaður ríkisstj., að enn á ný er leitað eftir lendingarleyfi fyrir íslenskar flugvélar á vesturströnd Bandaríkjanna. Þetta var reynt í minni tíð í rn. og því var hafnað, en Baltimore-leyfið fékkst. Má vera að nú séu breyttar ástæður í Bandaríkjunum, aukinn skilningur og kannske áhrifaríkari málflutningur, þannig að leyfið fáist nú sem neitað var um fyrir 2–3 árum. Ég vona sannarlega að svo verði, því slíkir flutningar, ef til kæmu, mundu örugglega auka hér atvinnutekjur af umferð sem eru okkur talsvert mikils virði.

Ég vil staðfesta það sem hæstv. ráðh. sagði um hversu erfitt, næstum útilokað, er að fá nokkra þjóð til að gefa umsögn um hermál hér á landi eða varnarmál svokölluð. Þetta reyndi ég þráfaldlega í minni tíð. Eitt af því fyrsta, sem ég gerði, var að reyna að fá hlutlausa umsögn ríkis, sem stóð utan bandalagsins, um hvert hlutverk Íslands væri í þessari varnarkeðju og hvort ekki mætti rækja það með öðrum hætti, þó jafnáhrifaríkum. Það vildi enginn taka það að sér. Þessi mál eru þannig, eins og ráðh. sagði, að menn forðast að koma nálægt þeim í öðrum ríkjum. Hins vegar er ljóst og hefur komið fram í viðræðum okkar sem nú skipum hina nýju öryggismálanefnd, sem svo hefur verið kölluð, að margs konar upplýsingar getum við fengið um ástand mála, eins og þeir vilja láta þær frá sér fara. En um hið sérstaka hlutverk Íslands eru þeir þögulir eins og gröfin.

Það er alveg rétt, að Johan Jørgen Holst hefur haft mikinn áhuga á málefnum Íslands og varnarmálum hér á norðurhjaranum. Og svo er einnig um eftirmann hans, John Sandnæs. Hann er vissulega fús til að veita okkur aðstoð og upplýsingar eftir því sem við biðjum um og hann telur sig geta látið í té, en lengra verður ekki komist.

Ég ætlaði mér ekki að gera hersetuna að umtalsefni og afstöðu einstakra flokka til hennar, ég sagði það í fyrri ræðu minni. En nú hefur það mál verið gert að umtalsefni og ess vegna ætla ég að segja um það örfá orð.

Ég get vissulega tekið undir það með hæstv. forseta Sþ., að erfitt er fyrir hann að þurfa að breyta þeirri ræðu, sem hann er búinn að halda hér meira og minna óbreytta í s. l. 4 ár, og þurfa að snúa henni alveg við. Ég skil vel að það er ekki auðvelt hlutverk né gaman að þurfa þess.

Hæstv. forseti Sþ. sagði að afstaða framsóknarmanna væri gersamlega breytt og nú heyrðist engin rödd — og hefði ekki lengi heyrst — úr þeim herbúðum um að hér skyldi ekki vera her. Ég tel þetta einkennilega ályktun hjá hæstv. forseta, m. a. vegna þess að ég tel mig geta leitt vitni um hið gagnstæða, — vitni sem ég vænti að hann taki gilt: ræðu sem hæstv. forseti hélt við sams konar umr. í fyrra, en þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir fáeinum kvöldum heyrði ég ritara Framsfl., hv. 2. þm. Vestf., Steingrím Hermannsson, svara þeirri spurningu í útvarpsviðtali býsna afdráttarlaust á þá lund, að hann teldi að nú væru friðartímar og sem betur væri ekki yfirvofandi háski af stórveldastyrjöld. Hæstv. utanrrh. fjallar ekki um þetta atriði sérstaklega eða með berum orðum í skýrslu sinni. Hins vegar hefur margt bent til þess, að hann væri svipaðrar skoðunar og ritari Framsfl. í þessu efni, ekki síst það, að hann hefur við ýmis tækifæri sagt, að sú skoðun sín og flokks síns frá tímum vinstri stjórnarinnar, að herinn eigi að fara héðan í áföngum, væri í rauninni algerlega óbreytt, það sé einungis vegna þess að Framsfl. er í stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl., sem hefur aðra stefnu í þessum málum, það sé einungis þess vegna, hefur manni skilist, að þessi stefna Framsfl., sem hann fylgdi á vinstristjórnarárunum og segist fylgja enn, er ekki framkvæmd. Það er þess vegna sem hæstv. utanrrh. hefur því miður og lætur enn hafa sig til þess að framkvæma öfuga stefnu, stefnu sem ég sé ekki betur en að miði að því að festa þennan her í sessi, gera honum fært að búa um sig hér til frambúðar.“

Við þetta ætla ég aðeins að bæta því, að það er þessi stefna sem núv. ríkisstj. samkv. yfirlýsingu sinni fylgir og hæstv. forseti Sþ. styður.

Hæstv. viðskrh. var á sínum tíma ritstjóri Þjóðviljans, eins og menn vita, og hann settist niður í sumar einn fagran vordag eða sumardag og skrifaði grein um mig sem hann kallaði: „Loftfimleikar Einars Ágústssonar í varnarmálum.“ Ég sé ekki betur, þó að mér sé ýmislegt til lista lagt og sé nokkuð flinkur í þessu, en að ég sé gersamlega eins og viðvaningur samanborið við þá menn sem nú sitja í ráðherrastólum. Þeir hafa gersamlega snúið við þeirri stefnu sem þeir hingað til hafa fylgt og flutt. Ég er ekkert að lá þeim það. Slíkt er raunsæi, alveg eins og það var á sínum tíma raunsæi hjá mér, 1974, að það væri enginn þingmeirihluti fyrir því, að herinn færi, og þess vegna yrði að taka næstbesta kostinn og fækka í honum og einangra hann. Ég fagna því, að hv. Alþb. menn eru nú orðnir raunsæir líka og búnir að viðurkenna það, og það var síðast gert áðan, að ekki er eins og sakir standa þingmeirihl. fyrir því að láta herinn fara, hvorki í einu lagi né í áföngum. Þess vegna styður Alþb. nú samstarfsyfirlýsingu ríkisstj., og þess vegna gekk ég til stuðnings við þau sjónarmið 1974 þegar stjórnin var þá mynduð, að annar möguleiki var ekki fyrir hendi.

Herra forseti. Ég lofaði að tala stutt og ég skal standa við það og láta máli mínu lokið. Ég ætla þó, áður en ég yfirgef ræðustólinn, að leyfa mér að taka undir þau orð, sem margir hafa látið falla hér til þjónustumanna utanrrn., bæði erlendis og heima, fyrir frábær störf þeirra. Ég þarf kannske ekki að gera þetta vegna þess að hæstv. ráðh. hefur verið svo vinsamlegur að taka upp nokkuð af því sem ég sagði um þetta þegar ég flutti síðustu skýrslu mína um utanríkismál.