07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4409 í B-deild Alþingistíðinda. (3493)

357. mál, utanríkismál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. utanrrh. fyrir flutning þeirrar skýrslu sem hér er til umr. Ég hygg að það sé hyggileg tilhögun að verja nokkrum tíma í að ræða utanríkismál, og það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Í það fer ekki mikill tími á hinu háa Alþingi síðan landhelgismálið var til lykta leitt, sællar minninga;. Ég get hins vegar ekki leynt því, að mér hefði þótt heppilegra ef þessi skýrsla hefði komið fyrr fram á þinginu. Þá hefði e. t. v. gefist tími til að ræða hana. Það eru miklir annatímar nú og með hálfum huga að ég tek til máls Um þetta efni. Umr. um skýrsluna var haldið uppi á venjulegum fundartíma þingflokksfunda, þannig að þessi umr. verður ekki með því sniði sem æskilegast hefði verið.

Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í umr. þegar hún hófst í dag og raunar ekki fyrr en hæstv. forseti Sþ., hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, flutti ræðu sína áðan. Hann fékk mig til að rísa úr sæti. Það voru bollaleggingar hans um heimilisástæður Framsfl. sem urðu til þess. Að nokkru leyti hefur hv. þm. Einar Ágústssón tekið af mér ómakið, eins og hans var von og vísa, en ég get áréttað og staðfest það sem hv. þm. Einar Ágústsson sagði, að innan Framsfl. hafa ekki orðið breytingar á afstöðunni til hersins. Það er að vísu rétt hjá hæstv. forseta, Gils Guðmundssyni, að nokkrir aðsópsmiklir hernámsandstæðingar, sem störfuðu í Framsfl. um tíma, eru farnir úr Framsfl. En sem betur fer fór ekki fólkið með þeim, að vísu nógu margt, en ekki allt, og stefnan er hin sama þó að hávaðasöm leiðtogaefni hafi farið í aðra verstöð í bili. Kannske koma þeir aftur þegar þeir hafa fengið sig fullsadda þar. Ég notaði kannske ekki rétt orðalag þegar ég talaði um „fullsadda“, því að þeir eru þurftarfrekir sumir. — En sú stefna, sem mótuð var upp úr 1970 innan Framsfl. um að hér skuli ekki vera her á friðartímum, er enn í fullu gildi. Hún var áréttuð á flokksþingi Framsfl. í fyrravor. Hún var áréttuð á miðstjórnarfundi fyrir mánuði. Það er hins vegar stefna Framsfl. að vera í Atlantshafsbandalaginu.

Nú kunna menn að spyrja: Úr því að sá góði flokkur Framsfl. hefur viljað koma hernum burt, hvers vegna er þá herinn enn á Keflavíkurflugvelli? Það er vegna þess að ekki hefur verið, eins og hefur verið margtekið fram, meiri hl. fyrir því á Alþ. að láta hann fara. Það hefur ekki strandað á Framsfl., það hefur ekki strandað á Alþb. heldur, það strandaði á Frjálslyndum og vinstri mönnum í stjórnarsamstarfinu 1971–1974, það strandaði á Sjálfstfl. 1974–1978, það. strandar á Alþfl. núna. Þetta eru staðreyndir sem menn verða að hafa í huga. Hitt er skylt að taka fram, að Framsfl. hefur e. t. v. ekki verið alveg einhuga um afstöðuna til hersins, en ég er alveg sannfærður um að mjög mikill meiri hluti framsóknarmanna vill ekki hafa hér her á friðartímum og framsóknarmenn telja og hafa talið um nokkuð langa hríð að nú væru friðartímar í þessum heimshluta.

1974 fór fram undirskriftasöfnun á vegum samtaka sem kölluðu sig „Varið land“, og þá skildust hafrarnir heldur betur frá sauðunum. Það skrifuðu að vísu nokkrir framsóknarmenn undir það dæmalausa plagg, en sem betur fer voru þeir ekki margir. Þeir voru sárafáir á Norðurlandi vestra t. d. Það var dálítill hópur hér í Reykjavík. En allt um það, þó að undirskriftasöfnun hafi farið fram með miklum fyrirgangi fyrir hálfum áratug trúi ég því, að meiri hl. hinnar íslensku þjóðar vilji ekki hafa hér her á friðartímum.

Ég vil að þjóðaratkvgr. fari fram um málið. Þetta er alveg upplagt mál til þess að þjóðaratkvgr, fari fram um það. Það er tiltölulega einfalt í sniðum og upplýsingar liggja fyrir. Það er einfalt að mynda sér skoðun um það, og afstaða manna getur verið nokkuð klár og kvitt. Það er ekki einasta eðlilegt að það fari fram einu sinni þjóðaratkvgr. um þetta mál, vel má hugsa sér að hún fari fram ítrekað ef mjóu munar.

Það hefur farið fram mikil barátta og mikið starf verið unnið til að reyna að koma hernum úr landi. Það hafa verið hér starfandi samtök hernámsandstæðinga, að vísu misjafnlega blómlega, um langan aldur. Ég hef m. a. haft þá ánægju að taka þar ofurlítinn þátt í. En ég get ekki látið hjá liða að minnast á að mér þykir sem Alþb. hafi misnotað þau samtök. Alþb. hefur reynt að auka fylgi sitt með málflutningi um herinn. Ef herinn færi á morgun úr landi væri ég þess fullviss að hæstv. forseti, Gils Guðmundsson, yrði guðs feginn, en það er ekki alveg víst að allir kosningasmalar Alþb. yrðu fegnir. Það kynni að vera að einhverjir þeirra misstu glæpinn. Og hvaða mál væri þá jafnhentugt til þess að sansa „kverúlantana“ og fá þá til að kjósa Alþb. einu sinni enn þrátt fyrir allt og allt og allt?

E. t. v. liggur hundurinn þarna grafinn. Það er nefnilega býsna þægilegt að tala um herinn og hægt að beina athygli frá ýmsu öðru með því að einbeita sér að því að tala um mál sem höfðar tilfinningalega mjög sterkt til fólks. Slíkt er býsna gott ráð til að sameina hópa manna í einn flokk, — hópa sem hugsa svipað og sumir hópar í fylgi Alþb. Ég er ekki viss um að annað vopn hafi bitið betur hjá Alþb. en hermálið í undanförnum 6–8 kosningum. Ég er ekki viss um að annað mál hefði dregið suma klúbbana þeirra til samræmdari afstöðu en það. Og það er m. a. s. hreint ekki ónýtt að vera nú svo kokhraustir að halda því fram, að þeir einir séu á móti hernum. Engir aðrir á móti hernum segja þeir og bera sig svo til eins og farísear og benda á tollheimtumenn og bersynduga allt í kringum sig. Við framsóknarmenn höfum ekki reynt að slá um okkur með andstöðu við herinn. E. t. v. hefur það verið skakkt. E. t. v. hefðum við fremur átt að hrópa en að reyna að vinna. Vinna, sagði ég. Hefur eitthvað unnist í þessi 30 ár? Það er orðin mikil hrakningasaga, en ofurlítið hefur þó unnist einstöku sinnum.

Það hefur einn verulegur sigur unnist í viðskiptum við þetta „apparat“ þarna suður frá? Hver ætli hafi unnið hann? Ætli það hafi verið hæstv. forseti Sþ., Gils Guðmundsson? Nei, það var ekki hann. Ætli það hafi verið hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson? Nei, það var ekki hann. Það var Einar Ágústsson utanrrh. í stjórn Geirs Hallgrímssonar. Hann gekk frá lokun hermannasjónvarpsins í Keflavík. Það var hreint ekki svo lítill áfangi í málinu. Þetta gerðist eftir að ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar var tekin við völdum.

Niðurstaða mín er þessi:

Herinn þarf að fara. Hann er háskalegur fyrir okkur, og það er nærri sama hvernig á hann er lítið, hvort það er frá siðferðilegu sjónarmiði — fyrir utan að hann er lífshættulegur. Hann er hættulegur sjálfstæði þjóðarinnar og hann er hættulegur hugsunarhætti, þegar svo langt gengur að menn blygðast sín ekki fyrir aumingjaskap sinn þegar þeir standa upp og heimta opinberlega að hér séu reist stórvirki í samgöngumannvirkjum, herinn sé látinn reisa stórkostleg samgöngumannvirki fyrir Íslendinga til þess að þeir geti lifað í landinu sínu!

Það er ekki meiri hl. á Alþ. eins og stendur fyrir að láta herinn fara. Ég á ekki von á að sá meiri hl. skapist alveg á næstu vikum. Þess vegna held ég að það væri heppilegt og eðlilegt að þjóðaratkvgr. færi fram um hvort hér ætti að vera her eða ekki her. Og jafnvel þótt ekki yrði samþ. í þjóðaratkvgr. að herinn færi hygg ég að rétt væri að bera það undir atkv. aftur og aftur og fylgjast með skoðun þjóðarinnar á því máli í framtíðinni.

Ég sagði áðan að Framsfl. vildi að við værum áfram í Atlantshafsbandalaginu. Hér hafa menn verið að karpa um hvort geymd væru kjarnorkuvopn hér á landi eða við landið eða ekki, og virðist enginn vita það. Menn eru með getsakir, menn eru með trúarjátningar í þessu sambandi. Það er búið að skipa öryggismálanefnd og yfir hana tvo „generala“, en við erum litlu nær. En við vitum að Atlantshafsbandalagið á miklar birgðir kjarnorkuvopna. Ef nú Atlantshafsbandalagið kæmi sér upp birgðum af nevtrónusprengjum, sem eru „apparöt“ sem drepa fólk, en eyðileggja ekki mannvirki, held ég að við þyrftum ekki að velta vöngum lengur og þá held ég að kominn væri tími til að við framsóknarmenn endurmætum afstöðu okkar til þessa bandalags og veru í því. Þá teldi ég að við hefðum ekkert lengur í þeim „selskap“ að gera.