07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4411 í B-deild Alþingistíðinda. (3494)

357. mál, utanríkismál

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það gerist nú mjög áliðið kvölds og fáir hv. þm. eftir til að hlýða á eða taka þátt í umr. Í þeim hefur þó margt fróðlegt komið fram og ástæða til að fjalla um frekar en gert verður við þessar aðstæður. Ég taldi mér þó skylt að segja fáein orð í framhaldi af ræðu hv. 9. þm. Reykv., Einars Ágústssonar, og hv. þm. Páls Péturssonar sem talaði áðan og var að gamna sér við að velta fyrir sér afstöðu Alþb. til herstöðvamálsins.

Ég vil fyrst í sambandi við það, sem kom fram undir lokin hjá hv. þm. Páli Péturssyni um Atlantshafsbandalagið, segja: Auðvitað hefur Atlantshafsbandalagið nú þegar í fórum sínum margs konar vopn sem eru viðlíka ógeðsleg og nevtrónusprengja, þannig að Framsfl. þarf ekkert að bíða eftir nevtrónusprengjunni til þess að endurskoða afstöðu sína til Atlantshafsbandalagsins. Og auðvitað var þannig í upphafi, að Framsfl. taldi það neyðarkost að ganga í Atlantshafsbandalagið. Hann taldi það ekkert sérstakt fagnaðarefni. Núna kemur sá góði vinur minn, hv. þm. Páll Pétursson, og segir: Það er stefna Framsfl. að vera í Atlantshafsbandalaginu. — Svona hefur þetta gengið til á 30 árum. Flokkur, sem taldi það neyðarkost að ganga í þetta „kompaní“, hernaðarbandalag, lýsir því yfir sem stefnu sinni að vera í því, nema svo kynni að fara að Atlantshafsbandalagið kæmi sér upp nevtrónusprengju, þá væri rétt hugsanlegt að Framsfl. endurskoðaði afstöðu sína til málsins. Þannig breytast hlutirnir á þremur áratugum. Það, sem kallað hefur verið hernám hugarfarsins, hefur greinilega ákaflega víða áhrif, því miður.

Það er víðar en varðandi samgöngumannvirki sem Íslendingar virðast ýmsir láta sér detta í hug að það sé sæmandi fyrir okkur að una því, að Bandaríkjamenn gegni hér tilteknum þjónustuþáttum sem ættu auðvitað að vera verkefni sjálfstæðra þjóðar. Ég vil í þessu sambandi nefna eitt dæmi. Íslendingar hafa enn ekki komið sér upp viðhlítandi björgunarbúnaði hér. Það gerist oft á ári að bandaríska herliðið er kvatt til ef menn lenda í lífsháska eða ef alvarleg veikindi steðja að í einangruðum plássum, þá er bandaríska herliðið kallað á vettvang. Íslendingar hafa ekki á þeim 35 árum, sem liðin eru frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi, einu sinni komið sér upp aðstöðu til að bjarga fólki með sæmilegum hætti, enda þótt nútímatækni hafi allri fleygt fram og við höfum auðvitað vel efni á slíku ef við höfum á annað borð efni á að vera sjálfstæð þjóð. Ég vil beina því til hv. þm. Páls Péturssonar, að hann leggi þá hugmynd fyrir sinn góða flokksformann, dómsmrh., sem hefur með þau mál að gera sem snúa að Landhelgisgæslunni. Er ég þá með í huga að gert verði átak í þessum efnum, að við búum Landhelgisgæslu okkar og Slysavarnafélag þannig að skaplegt sé frá sjónarmiði sjálfstæðrar þjóðar.

Þá þótti mér kostulega takast til, ef ég man rétt, er hv. þm. tók þannig til orða að Einar Ágústsson, fyrrv, hæstv. utanrrh., hefði látið loka Keflavíkursjónvarpinu í ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Ég man ekki betur, og spyr hv. þm. Einar Ágústsson hvort það er ekki rétt munað hjá mér, en frá þessum hlutum hafi verið gengið í vinstri stjórninni 1974 fyrir stjórnarskiptin. Mig minnir að þetta samkomulag hafi verið gert í ríkisstj. í marsmánuði og hafi verið hluti af öðru samkomulagi, af þeirri áfangaáætlun sem vinstri stjórnin þá samþykkti um brottför bandaríska hersins. Það var því ekki ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar sem átti þar hlut að máli. Vil ég endilega koma því í þingtíðindi að hún hafi ekki átt sómann af því verki. (PP: Það kom til framkvæmda þá.)

Ja, þó að hæstv. fráfarandi ríkisstj. hafi ekki lagt þá lykkju á leið sína í viðbót við annað að biðja Bandaríkjastjórn um að opna fyrir kanasjónvarpið. Fyrr mætti nú vera!

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og tel að það sé ákaflega mikilsvert, að lögð sé áhersla á að allir þeir menn, sem eru andsnúnir hersetunni, fylki sér undir merki og reyni að starfa saman jafnvel þó að þeir séu í mismunandi flokkum. Ég hef talið liðveislu manna eins og ýmissa góðra framsóknarmanna í þessum efnum mikilsverða og ég geri ekki lítið úr því. Hins vegar fannst mér örla á því í ræðu hv. síðasta ræðumanns að menn í Framsfl. litu í raun og veru fyrst og fremst á herstöðvamálið sem spurningu um hvort það gæti verið góð kosningabeita eða ekki. Málin snúa ekki þannig við okkur og ekki við mér. Ég lít á herstöðvamálið sem og herstöðina sem smánarblett á þjóð okkar og sjálfstæði hennar. Það er mér hugsjónamál að koma hernum úr landinu. Ég breyti ekki skoðun minni og afstöðu þó að við tilteknar þjóðfélagsaðstæður á Íslandi kunni að vera litlar vonir til þess að það nái fram. Hugsjón okkar á alveg sama rétt, jafnvel þó að hvað pólitískar aðstæður í landinu snertir blási ekki tiltölulega byrlega. Þess vegna fannst mér kostulegt að heyra þannig til orða tekið af hv. þm. Einari Ágústssyni, sem hefur vafalaust verið mismæli, að vegna þess að pólitískar aðstæður væru svona og svona á Íslandi hefðu menn í Framsfl. breytt stefnu sinni. Auðvitað breytum við ekki, a. m. k. ekki Alþb.-menn, stefnu okkar þótt ekki blási tiltölulega byrlega fyrir framkvæmd hennar um þessar mundir í þessu landi. Við breytum ekki þeirri stefnu og höfum ekki snúið henni við, þannig að spurningin um loftfimleikana verður að liggja á milli hluta í þessum efnum af minni hálfu svo og allur mannjöfnuður á því sviði, enda geri ég ráð fyrir að það sé við hæfi að aðrir menn stundi það fremur en ég í þessum efnum. Nei, stefna okkar í sambandi við herstöðvamálið er alveg skýr og við lítum á það sem mikilvægt hugsjóna- og baráttumál að koma hernum úr landi, hvað svo sem pólitískar aðstæður á Íslandi segja í þeim efnum núna.

En úr því að ég er farinn að minnast á Framsfl. og herstöðvamálið get ég ekki látið hjá líða að minna á það, að ég man ekki betur en einir 70 tiltölulega valdamiklir menn í Framsfl. kæmu með undirskriftir hér um árið — (Gripið fram í : 170.) eða voru það 170? — til forustumanna, hv. þm. Einars Ágústssonar, þáv. hæstv. utanrrh., og hæstv. þáv. og núv. forsrh., málsmetandi menn í Framsfl. sem lögðu á það ofurkapp að hér yrði að vera her og ekki mætti flana að neinu fljótfærnislega. Og ég man ekki betur en í dagblaðið Tímann, málgagn Framsfl., hafi verið skrifaður leiðari þar sem því var alveg sérstaklega lýst yfir að leiðarahöfundur a. m. k. styddi þá stefnu sem hinir 170 postular höfðu lagt af stað með á fund þeirra Ólafs og Einars — formanns og varaformanns Framsfl. á þeim tíma. Þarna voru að verki býsna sterkir menn í Framsfl. Ég er þó alveg sannfærður um að hv. þm., sá góði maður, Páll Pétursson hefur í fullu tré við þetta lið þegar þar að kemur, enda skulum við leggja saman og láta á reyna.

Ég kom sem sagt hingað til að undirstrika að afstaða okkar Alþb.-manna í herstöðvamálinu er atgerlega óbreytt. Við berjumst fyrir brottför hersins og notum hvert tækifæri sem við getum fengið til þess. Við berjumst fyrir úrsögn úr þessu hernaðarbandalagi. Ég minni á að í samstarfsyfirlýsingu núv. ríkisstj. er sérstaða okkar undirstrikuð í þeim kafla sem fjallar um öryggismálanefndina. Þar er sérstaða okkar undirstrikuð og á þeirri undirstrikun munum við byggja afstöðu okkar og meðferð þessa máls síðar á þessu ári.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og hæstv. forseti Sþ. hafa gert grein fyrir stefnu okkar Alþb.-manna í ýmsum atriðum utanríkismála fyrr í dag. Ég tel ekki ástæðu til að endurtaka það frekar né fara ofan í saumana á einstökum atriðum. Ég vil þó láta það koma fram, að ég teldi að við ættum að athuga — ég og hæstv. utanrrh. — hvort ekki væri skynsamlegt síðar, ef við sitjum áfram hlið við hlið í ríkisstj., sem kann að vera hugsanlegt einhvern tíma enn, að það yrði samin sérstök skýrsla um utanríkisverslunina. Ég held að það gæti verið ágæt hugmynd, því að viðskrn. hefur auðvitað með að gera margs konar erlend samskipti, auðvitað ekki bara utanríkisverslunina sem slíka og viðskiptasamninga við Austur-Evrópu t. d., heldur önnumst við þau samskipti sem fara fram við Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Fríverslunarbandalagið, Efnahagsbandalagið og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu. Ég held að það væri beinlínis skynsamlegt að standa þannig að málum, eins og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson stakk upp á í dag, að sá þáttur málanna væri tekinn til meðferðar. Ég held að gæti verið mjög skynsamlegt að ræða hann hér á hv. Alþ., og ég mun fyrir mitt leyti taka það til skoðunar. Margþætt mál í sambandi við utanríkisverslunina þyrfti að ræða á hv. Alþingi.

Ég vil nota þetta tækifæri til að geta þess, að frá því að ég kom í viðskrn. hef ég átt mjög ánægjuleg og góð samskipti á sviði viðskiptamála við ýmsa starfsmenn utanríkisþjónustunnar og m. a. þá fulltrúa okkar sem nú sitja í Genf og eru fulltrúar okkar hjá Fríverslunarbandatagi Evrópu.

Rétt er að fram komi að við höfum haft um nokkurt skeið, eða frá því 1. okt., minnir mig, sérstakan verslunarfulltrúa í París. Það er í raun og veru undirbúið af fráfarandi ríkisstj. og er nýtt skref í þessa átt. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að sendimenn okkar erlendis séu vel að sér í viðskiptamálum og færir um að fjalla um þau þegar upp koma.

Ég vil taka undir það sem komið hefur fram hjá ræðumönnum fyrr í dag varðandi aðstoð Íslands við þróunarlöndin. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að við tökum þar myndarlega á. Nú höfum við tímann fyrir okkur, nú fer að hefjast undirbúningur fjárlaga fyrir árið 1980 innan ríkisstj., þannig að okkur á ekki að vera nein vorkunn að taka á þessu máli strax og gera það myndarlega.

Það er rétt, sem hér mun hafa komið fram hjá hæstv. utanrrh., að við höfum verið að kanna möguleikana á hvort unnt væri að stöðva viðskipti okkar við Suður-Afríku, sem eru að vísu lítil. Ég held að fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt sé með ýmsum pólitískum rökum að við tökum alvarlega á því máli. Ég hygg að Ísland gæti þar sýnt fordæmi sem væri mikilvægt í samfélagi þjóðanna.

Ég vil aðeins að lokum fagna því sem rætt hefur verið hér og komið hefur fram á Alþ. síðan við ræddum þessi mál síðast. Nú er komið fram nál. frá atvmn. Sþ. um till. til þál. um Suðurnesjaáætlun. Ég held að mjög mikilvægt sé að við reynum að afgreiða þá till. á þeim dögum sem eftir eru þinghalds. Ég sé ekki betur en hv. atvmn. Sþ. hafi verið á því að till. yrði afgreidd. Okkur á því ekkert að vera að vanbúnaði í þeim efnum.