07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4415 í B-deild Alþingistíðinda. (3495)

357. mál, utanríkismál

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar ég bað um orðið á nýjan leik ætlaði ég upphaflega að gera örfáar aths. við seinni ræðu utanrrh., en síðan hafa tveir þm. Framsfl. að gefnu tilefni frá hæstv. forseta Sþ. farið að ræða um Framsfl. og stefnu hans í varnarmálum. Það má vissulega segja að þegar það umræðuefni er komið á dagskrá fari mér að renna blóðið til gamallar skyldu. Það væri vissulega fróðlegt að ég segði í þingsölum þá löngu sögu af umr. um það mál innan Framsfl. og samningaviðræðum innan flokksins við ýmsa ráðh. í núv. ríkisstj. um hvað megi segja og hvað megi ekki segja í ályktunum Framsfl. um varnarmál. Það er nú einu sinni svo, að þó að það hafi ekki alltaf verið skemmtilegt að vera í Framsfl. var það á köflum býsna fróðlegt til þekkingar á hvar ýmsir hagsmunir liggja. (EÁ: Það er miklu skemmtilegra nú.) Það getur vel verið, enda er sá höfðingi, forstjóri Olíufélagsins, Vilhjálmur Jónsson, sem beitti sér einna mest gegn þeirri stefnu innan Framsfl. sem var stefna ríkisstj. 1971–1974, núna orðinn sérstakur ábyrgðarmaður á fjármálum Tímans. Ég efast því ekki um að það er orðið sérstaklega skemmtilegt í Framsfl. hið beina samhengi milli fjármögnunar á málgagninu og stefnunnar í varnarmálum.

En ég ætla ekki að fara að rifja þá sögu upp sérstaklega hér. Hæstv. viðskrh., af hinni góðu þekkingu sinni á þeim ágæta flokki, gerði það mjög myndarlega áðan og rifjaði upp fyrir hv. þm. Páli Péturssyni ýmis veigamikil sannindi, m. a. baráttu 170-menninganna svonefndu fyrir því að Framsfl. gengi frá þeirri stefnu sem þó var í senn yfirlýst stefna flokksins og yfirlýst stefna þeirrar ríkisstj. sem hann bar ábyrgð á með forsrh. og utanrrh.

Það var að ýmsu leyti skemmtileg lýsing sem hv. þm. Páll Pétursson gaf á kosninga- „taktík“ í varnarmálum. En það get ég sagt honum, af því að ég er í þeirri ágætu stöðu að hafa verið í báðum þessum flokkum, að sú lýsing átti alfarið við Framsfl. Þar er það nefnilega þannig, eins og hv. þm. orðaði svo skemmtilega, að menn þurfa í ályktun, og ég vitna orðrétt í ummælin, „að sansa „kverúlantana“ sína“, því að „kverúlantarnir“ í Framsfl. eru nefnilega menn eins og hv. þm. Páll Pétursson sem eru á móti hernum. Það er til þess að sansa þá sem yfirlýsingar eru settar fram og rifjaðar upp á flokksþingum rétt fyrir kosningar. En það er hins vegar rækilega séð um það, og þar hefur m. a. núv. hæstv. fjmrh. verið mjög ötull umsjónarmaður, að orðalagið hafi ávallt útgöngudyr fyrir möguleikana á að þurfa ekki að standa við efndirnar. Sú lýsing, sem hér var gefin, skýrir hvaða hlutverki „kverúlantarnir“ svonefndu, en mér fannst hv. þm. Páll Pétursson gefa sjálfum sér þá skemmtilegu nafngift, gegna í stefnumálum flokksins fyrir kosningar.

Það má kannske rifja það upp, eins og hér var gert, að núv. formaður Framsfl. hafi sagt rétt fyrir kosningar að það væru friðartímar og vel gæti komið til greina að herinn færi. Ég hef ekki heyrt hæstv. núv. dómsmrh. rifja þau orð upp síðan. En ef hv. þm. Páll Pétursson verður var við slíkt innan Framsfl. eða utan óska ég eftir að hann láti okkur hina vita. Hitt hefur hins vegar komið fram opinberlega, að núv. hæstv. forsrh., sem nýlega lét af formennsku í Framsfl., fjallaði um það sérstaklega í ræðu á miðstjórnarfundi Framsfl., næstsíðasta miðstjórnarfundi flokksins, að það væri tími til kominn að flokkurinn endurskoðaði stefnu sína í varnarmálum, enda ekkert óeðlilegt við að hér væru eftirlitsstöðvar, eins og núv. hæstv. forsrh. orðaði það. Og ég spái því eftir innri lögmálum Framsfl., að ekki verði langt að bíða þess að hæstv. núv. dómsmrh., formaður Framsfl., fylgi í fótspor fyrirrennara síns í þeim efnum. Staðreyndin er því miður sú, að hörðum baráttumönnum fyrir brottför hersins hefur fækkað mjög innan Framsfl., vegna þess að þeir menn sem það mál hafa að hugsjón, eins og hæstv. viðskrh. orðaði það áðan, hafa misst trúna á að Framsfl. hafi vilja til að fylgja yfirlýsingum sínum í þeim efnum eftir. Að því leyti telst hv. þm. Páll Pétursson til síðustu „móhíkananna“ í þingliði Framsfl. Það er hins vegar alveg rétt sem hæstv. fyrrv. utanrrh. Einar Ágústsson sagði: Við og við á ferli sínum sem utanrrh. lét hann þess getið, að Framsfl. væri enn fylgjandi því að herinn ætti að fara.

Ég hef ekki trú á að frumkvæði í baráttu fyrir brottför hersins komi frá Framsfl. í náinni framtíð, en vissulega mundi ég fagna ef það yrði. Það má hins vegar geta þess hér, að þrátt fyrir ítrekaða leit hefur ekki tekist að finna annan mann en Jónas Jónsson, sem kenndur er við Ystafell, úr röðum forustusveitar Framsfl. til að gegna trúnaðarstörfum í Samtökum herstöðvaandstæðinga á síðustu árum, nema fyrir nokkrum mánuðum fannst annar maður sem var viljugur að taka sæti hans. Fleiri en einn hverju sinni hafa þeir ekki verið á undanförnum árum, forustumennirnir úr Framsfl., og á ég þá við framkvæmdastjórnarmenn, miðstjórnarmenn í flokknum, hátt á annað hundrað manns, sem hafa verið reiðubúnir að láta nafns síns getið við forustu fyrir Samtökum herstöðvaandstæðinga. En það væri vissulega æskilegt að við, sem störfum innan Samtaka herstöðvaandstæðinga, fengjum að sjá fleiri úr þeirri átt.

Og eitthvað hefur saga síðustu ára skolast til í höfðinu á hv. þm. Páli Péturssyni þegar hann er farinn að eigna ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar lokunina á Keflavíkursjónvarpinu. Hæstv. viðskrh. rifjaði upp nokkurn hluta þeirrar sögu áðan. Ég vil aðeins bæta við. Hún er nefnilega nokkru lengri, hv. þm. Páll Pétursson. Eftir þessa lokun flutti núv. 1. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, till. um það hér á Alþ. að Keflavíkursjónvarpið yrði opnað aftur. Þá loksins fannst eitt mál sem þeir hv. þm. Albert Guðmundsson, Geir Hallgrímsson og Gunnar Thoroddsen voru sammála um. Þeir allir, og hv. þm. Geir Hallgrímsson sem forsrh. landsins, greiddu atkv. með því að opna Keflavíkursjónvarpið á nýjan leik. Það er saga sem við eigum ekki að láta gleymast. Það er einn þáttur í þeirri þjónustu hv. þm. Geirs Hallgrímssonar við Atlantshafsbandalagið og undirlægjuhætti hans, sem ég biðst engrar afsökunar á að kalla svo, við Bandaríkin sem ég gerði að nokkru leyti að umtalsefni áðan.

Hins vegar fannst mér það vera athyglisverð hugmynd sem kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni, að e. t. v. ættum við að beita okkur fyrir því að hér væru teknar upp þjóðaratkvgr. um varnarsamninginn við Bandaríki Norður-Ameríku, eins og hann heitir formlega séð, jafnvel á nokkurra ára fresti, t. d. á 4–5 ára fresti, þó að hann tilgreindi ekki tölur, þ. e. a. s. samningurinn væri gerður til nokkurra ára í senn og það færu reglulega fram umr. um endurnýjun hans, svo að ég orði aðeins lengra hugsun hv. þm. Þá gæfist þjóðinni með reglubundnum hætti tækifæri á að láta í ljós skoðun sína á þessu máli. Ég tel það vissulega vera athyglisverða hugmynd að hugleiða þjóðaratkvgr.-form með slíkum hætti, því að ekki hefur verið heillavænlegt fyrir utanríkismálefni Íslendinga að það hafa staðið mjög harðar deilur um þær aðferðir sem beitt var við inngönguna í Atlantshafsbandalagið og komu hersins á sínum tíma. Þótt ég sé ekki sammála sögulegri lýsingu hv. þm. Páls Péturssonar vil ég lýsa því yfir að ég er til viðræðu við hann, og ég veit að það eru fjölmargir aðrir Alþb.-menn, að finna eitthvert slíkt form fyrir reglubundna þjóðaratkvgr. um þetta mál.

Það ber að fagna því, eins og hér hafa gert fleiri en einn ræðumaður, að atvmn. hefur skilað einróma áliti um Suðurnesjaáætlun. En ég vil benda á að hv. utanrmn. hefur einnig skilað áliti um aðra till., sem nokkrir þm. Alþfl. fluttu, og meiri hl. n. leggur til við hv. Alþ. að það samþykki till. um rannsókn á starfsemi Íslenskra aðalverktaka. Ég fagna því alveg sérstaklega að myndast hefur meiri hl. í hv. utanrmn. um þá till. nokkurra þm. Alþfl. Ég tel, að Alþ. eigi að afgreiða báðar till. áður en þingi lýkur, og beini því til hæstv. forseta að þær fái báðar nægilegt rúm á fundartíma Sþ. svo að þær verði afgreiddar. Ekki hafa það margar till. hlotið afgreiðslu frá n. nú þegar, — till. sem hafa verið fluttar í Sþ., — að ekki ætti að vera fullkomlega gerlegt að taka báðar till., bæði till. um Suðurnesjaáætlun og till. um sérstaka rannsókn á Íslenskum aðalverktökum, til afgreiðslu í Sþ. Vil ég því eindregið koma þeirri ósk á framfæri við hæstv. forseta.

Það eru örfáar aths. við seinni ræðu utanrrh. Ég fagna mörgu sem þar kom fram. Mér fannst ég þar kenna frekar þann tón opinnar umræðu og viðleitni til gagnrýninnar athugunar á fjölmörgum málum sem ég sagði í fyrri ræðu minni í dag að ég hefði kosið að hefði frekar verið blær þeirrar skýrslu sem hæstv. utanrrh. flutti.

Það er alveg rétt, sem hæstv: utanrrh. sagði, að ýmsar rannsóknastofnanir og fræðimenn hafa fjallað um samskipti Íslands og Noregs í öryggismálum og þar hefur verið bent á hvert er samhengið milli hersetunnar hér og núverandi varnarkerfis og öryggisnets Noregs. Fræðimenn og rannsóknastofnanir hafa tekið þau mál til meðferðar. En þau orð, sem ég hefði um þetta efni, og ég vænti þess að ég hafi tekið það nokkuð skýrt fram, áttu við að í opinberum samskiptum þessara þjóða og í viðræðum íslenskra og norskra ráðamanna hefði þetta mál í raun og veru ekki verið tekið fyrir, það hefði verið feimnismál á þeim vettvangi. Mér er ekki kunnugt um að það liggi fyrir neins staðar — má vel vera að það sé vankunnátta mín — frásagnir af viðræðum eða niðurstöðum ráðamanna Noregs og Íslands um varnarmálefni, en ég tel að það sé eitt af þeim atriðum sem nauðsynlegt er að rædd séu milli þjóðanna ef menn vilja hafa á samskiptum þeirra þann blæ hreinskilni og frændsemi sem margir vilja hafa.

Úr því að vitnað var enn frekar til Johans Holst vil ég aðeins nefna það, að kunnir fræðimenn á þessu sviði hafa vitnað til þeirrar skoðunar Holst, að ef herstöðin væri ekki á Íslandi þyrftu Norðmenn að hafa kjarnorkuvopn í landi sínu. Þessi herstöð væri ekki aðeins afsökun fyrir Norðmenn til að þurfa ekki að hafa erlendan her í sínu eigin landi, heldur líka afsökun fyrir því að þeir ættu ekki að hafa kjarnorkuvopn. Ég hef ekki sjálfur séð skoðanir Holst á prenti eða heyrt hann hafa yfir þessi ummæli. En þetta er enn einn þátturinn í samhengi herstöðvarinnar hér við skoðanir í Noregi sem ekki hefur verið ræddur. Ef rétt er gæti það rennt stoðum undir að ein af ástæðunum fyrir því, hvers vegna þá þyrftu að vera kjarnorkuvopn í Noregi, sé að hér sé aðstaðan eða jafnvel geymslan á þeim kjarnorkuvopnum sem Norðmenn telja sig þurfa að hafa vegna þess að Noregur telji sér nauðsynlegt að vera undir kjarnorkuvopnaregnhlífinni einnig og sá regnhlífarhluti Noregs sé í geymslu og varðveislu kjarnorkuvopnanna á Keflavíkurflugvelli. Ég veit þetta ekki, en það gæti verið hugsunin að baki þeirrar fullyrðingar að herstöðin hér sé eins konar kjarnorkuvopnavörn fyrir Norðmenn eða jafngildi hennar.

Hæstv. utanrrh. misskildi að nokkru leyti það sem ég sagði um valkosti í öryggismálum og það sem ég vitnaði til þeirrar umr. sem fram færi víða í Evrópu. Hún snýst fyrst og fremst um þær upplýsingar, sem nú eru látnar í té, og það upplýsingakerfi, sem fests hefur í sessi á undanförnum árum og áratugum, en ekki fyrst og fremst um þá valkosti sem voru fyrir hendi þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað. Í því sambandi má benda á enn frekar, að fréttir hafa verið fluttar af því, ef ég man rétt, að á nýafstöðnu þingi jafnaðarmannaflokksins í Hollandi hafi verið frekar naumur meiri hl. með áframhaldandi þátttöku Hollands innan Atlantshafsbandalagsins. En við erum sjálfsagt báðir sammála um það, ég og hæstv. utanrrh., að á þessum sviðum þurfi miklu víðtækari upplýsingastarfsemi, og ég fagna þeim yfirlýsingum, sem hann lét frá sér fara hér, um vilja sinn til að leggja sjálfstætt mat á og segja sjálfur frá því sem hann telur nauðsynlegt að þjóðin viti.

Ég fagna einnig og vil vekja sérstaka athygli á yfirlýsingu hans um það eða nánari skýringum, og ég hef þá misskilið þá frétt sem hann flutti sem eins konar jákvæða túlkun og blessun á atburðarásinni, að ríkisstj. hefði ekki lagt blessun sína yfir þróun Flugleiða og fyrirtækjasamsteypu þeirra með þeim afskiptum sem rn. hefði haft af flugmálum við yfirvöld í Lúxemborg eða í Bandaríkjunum. Mér finnst þó, þó að ég fagni vissulega að þessi yfirlýsing komi skýrt fram, að í þessum afskiptum felist ekki nein ákveðin stefnuyfirlýsing af hálfu ríkisstj. Finnst mér samt að þessi afskipti, ef dæma má af þeirri frásögn sem hér var flutt, megi túlka á þann veg, og það gerði ég þegar ég heyrði þá frásögn, að þar sé jafnframt verið að leggja blessun sína yfir stefnu Flugleiða.

Ég fagna því einnig, að bæði hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. hafa tekið undir þá hugmynd að flytja sérstaka skýrslu um utanríkisviðskipti. Ég held að þeim þætti hafi allt of lítið verið sinnt á Alþ. Ekki er aðeins um að ræða samskipti við þær stofnanir sem hér hafa verið nefndar, en einnig starfsemi þeirra fyrirtækja og sölusamtaka á sviði utanríkisviðskipta sem Íslendingar eiga og reka. Sá málaflokkur er vissulega svo stór og mikilvægur að hann réttlætir árlega sérstaka skýrslu til Alþ., jafnhliða því sem þá gæfist tækifæri til að ræða afskipti ýmiss konar erlendra fjármálastofnana, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, af efnahagsstjórninni hér á landi. Í Bretlandi hafa t. d. á undanförnum árum verið nokkuð harðar deilur, m. a. innan breska Verkamannaflokksins, um afskipti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins af efnahagsstjórninni í Bretlandi. Var lántaka Breta hjá sjóðnum orðin slík, að sjóðurinn setti bresku ríkisstj. skilyrði um hver efnahagsstefnan ætti að vera, og þáv. fjmrh. Verkamannaflokksins, Denis Healey, lýsti því yfir, ef ég man rétt, fyrir 1–2 árum á þingi Verkamannaflokksins mjög stoltur að nú hefði ríkisstj. náð því markmiði að uppfylla þá skilmála sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti breskri efnahagsstjórn. Hingað hafa komið ýmsir sérfræðingar og fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á undanförnum mánuðum, missirum og árum og nýlega var rætt opinberlega að þeir hefðu sent frá sér skýrslur og álitsgerðir og tillögur. Ég tel að þörf sé á jafnopinni umr, hér á landi og í Bretlandi um þátt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og afskipti hans, ef einhver eru, formleg eða óformleg, af efnahagsstjórninni hér á landi.

Að lokum, herra forseti, væri tilefni til að fara nokkrum orðum um það svar, ef svar skyldi kalla, sem hv. 4. þm. Reykv., nýkjörinn formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, lét frá sér fara um Bilderbergklúbbinn svonefnda. Það var merkilegt svar að mörgu leyti. Fyrst í því svari var: Nánast væri ekkert markvert um þann klúbb að segja, það væri ekki einu sinni talað um mig á fundum, hvað þá annað merkilegra. En þegar leið á ræðuna fóru að detta út úr hv. þm. Geir Hallgrímssyni setningar, ein, tvær og fleiri, sem gáfu til kynna að þarna ættu sér stað nokkuð athyglisverðar umr., en þm. lagði ríka áherslu á að þarna væru ekki teknar ákvarðanir. Enginn hefur haldið því fram að þarna væru teknar formlegar ákvarðanir. Því hefur hins vegar verið haldið fram, að þarna færu fram umr. sem á síðari stigum ákvarðanatöku kynnu að skilyrða það sem einstakir aðstandendur þessa klúbbs legðu síðan til í löndum sínum, í fyrirtækjum sínum eða í herráðum sínum. Það var staðfesting á þessu sem kom fram í svarinu. Hv. þm. Geir Hallgrímsson sagði að málin væru rædd í Bilderberg-klúbbnum áður en þau væru komin á ákvörðunarstig eða m. ö. o. færi þarna fram frumumræða eða fyrri umræða um sameiginlega hagsmuni og meginstefnu sem menn eiga síðan að beita sér fyrir þegar kemur að ákvarðanastiginu.

Það var margt fleira í þessu svari um skoðanaskipti í fullri einlægni, skoðanaskipti í einlægni sem þyldu ekki að sjá ljós í dagblöðum, og það gætti fyrirlitningartóns hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni í garð fjölmiðla, sú einlægni, sem þrifist innan Bilderberg-klúbbsins og væri helsti kostur hans, væri fyrst og fremst til að koma sér hjá fjölmiðlunum. Það má margt slæmt segja um fjölmiðla, en í lýðræðislandi eru þeir þó upplýsingatæki gagnvart almenningi. Það er mjög fróðlegt að fá það staðfest í þskj., að á þessum fundum sýni hv. þm. Geir Hallgrímsson einlægni, svo að hans eigið orð sé notað, sem hann þorir ekki að sýna íslenskri þjóð í viðræðum við hana í fjölmiðlum eða við alþm. þjóðarinnar á Alþ. Sú einlægni er eingöngu helguð félögunum, forstjórunum, alþjóðakapítalistunum, herforingjunum og ráðamönnum Bandaríkjanna og annarra forusturíkja á Vesturlöndum sem koma saman í Bilderberg-klúbb.

Og áfram hélt hv. þm. Hann sagði að á þessum fundum ynnu menn, og ég vitna orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, „sínu eigin landi gagn“. Í síðustu alþingiskosningum átti hv. þm. Geir Hallgrímsson ekki upp á pallborðið hjá kjósendum. Í prófkjöri Sjálfstfl. í Reykjavík varð hann að láta efsta sætið í hendur Alberts Guðmundssonar, og ekki var forusta hans óskorðuð á síðasta landsfundi. En það kynni nú að vera fróðlegt fyrir það fólk, sem vantreystir ferli hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, að fá upplýsingar um á hvern hátt hann telur sig hafa unnið Íslandi gagn á fundum Bilderberg-reglunnar, hvaða þættir það eru, hvaða málefni það eru sem þar hafa verið á dagskrá þar sem hv. þm. Geir Hallgrímsson gat, að eigin sögn, unnið eigin landi gagn.

Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Geir Hallgrímssyni, að gagnrýni margra alþm. og annarra á að forsrh. landsins sitji slíka leynifundi og sýni þar einlægni, sem hann telur sig ekki geta sýnt íslenskri þjóð, stafi af því sem hann kallaði „sorglegan vott um minnimáttarkennd gagnvart útlendingum“ og við kunnum ekki, viljum ekki eða þorum ekki að umgangast erlenda menn. Merkilegur er sá hugarheimur sem hv. þm. Geir Hallgrímsson lifir í ef hann telur að í því felist sérstakar hetjudáðir og sýni skort hans á minnimáttarkennd og kunnáttu hans í að umgangast erlenda höfðingja að hann hefur sótt fundi Bilderberg-klúbbsins. Ég efa ekki að hv. þm. Geir Hallgrímsson kann að lyfta kampavínsglösum með þessum herrum, — það er alveg rétt, ég efa það ekki. En að hv. þm. skuli telja að gagnrýni á slíka leynifundi sé vottur um minnimáttarkennd gagnvart útlendingum sýnir að hann kann sér engin takmörk í því hvers konar viðræður, hvers konar málefni íslenskur forsrh. má fara með á fundum á erlendri grund. Hann hefur ekki í grundvallaratriðum skilning á því, hvað í því felst að vera forsrh. sjálfstæðrar þjóðar í lýðræðisríki. Röksemdir, sem sóttar eru í erlenda „selskapsleiki“ atferli hans til stuðnings, eru fyrst og fremst vottur um þennan eiginleika. E. t. v. þurfum við ekki að undra okkur svo mjög á því atriði, vegna þess að hv. þm. Geir Hallgrímsson virðist í raun og veru telja fölskvalausa aðdáun, fölskvalausa auðtrú á allt, sem frá Atlantshafsbandalaginu og Bandaríkjunum kemur, vera aðalsmerki á vestrænum stjórnmálamanni. Þá verðum við að sætta okkur við að stærsti flokkur þjóðarinnar skuli enn á ný hafa kosið slíkan mann til forustu fyrir flokknum. En kunnátta hans á sviði íslenskra öryggismála, á sviði herstöðvarinnar í Keflavík og samskiptum okkar við Noreg í þessum efnum er ekki mikil, ef dæma má af þeim fáu setningum sem hann sagði um hlutverk herstöðvarinnar hér og þátt hennar í samanburði við þá starfsemi sem fram fer í Noregi. Það fannst mér, ef hv. þm. hefur meint það sem hann sagði, sýna manni inn í hugarheim manns sem er í raun og veru hættur að hugsa um þessi málefni, heldur tekur hinar stimpluðu skýrslur frá Atlantshafsbandalaginu sem góða og gilda vöru í þeim efnum.

Að lokum, herra forseti, sagði hv. þm. Geir Hallgrímsson að íslenska þjóðin væri ekki klofin í utanríkismálum, íslenska þjóðin hefði nánast aldrei verið klofin í utanríkismálum og það væri engin ástæða til að gera neitt veður úr því að dvöl hersins hér á landi hefði klofið þjóðina í herðar niður í utanríkismálum. Slíkt var skemmtileg yfirlýsing frá manni sem hefur innan eigin flokks talið sér það einna helst til tekna af setu sinni sem forsrh. að hann hafi getað komið í veg fyrir að herinn færi af landi brott, hann hafi getað komið í veg fyrir framkvæmd þeirrar stefnu, sem ríkisstj. þar á undan hafði á stefnuskrá sinni, og honum hafi tekist að tryggja Ísland enn um sinn í varnarkerfi vestrænna lýðræðisríkja, eins og það heitir á hans máli. Það fer einfaldlega ekki heim og saman að hæla sér innan Sjálfstfl. einna mest fyrir árangur sinn af baráttunni í því, sem hv. þm. kallar sjálfur „öryggis- og varnarmál þjóðarinnar“, og telja sig þar hafa unnið stærsta sigra gegn þeim öflum, sem vilja koma hernum brott, og koma svo hingað og segja: Það er enginn ágreiningur með íslenskri þjóð um þessi efni, hún er alls ekki klofin í sjálfstæðismálum. — Íslensk þjóð er klofin í sjálfstæðis-og utanríkismálum, og fram hjá þeirri staðreynd verður ekki gengið. Sá klofningur verður, svo lengi sem hann er fyrir hendi, hætta fyrir þjóðina, — hætta sem býður erlendum öflum margvíslega möguleika til að leika á innbyrðis sundrung smárrar þjóðar.