07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4421 í B-deild Alþingistíðinda. (3496)

357. mál, utanríkismál

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja umr. ekki úr hófi, enda var aldrei ætlan mín að taka þátt í umr. um hina ágætu skýrslu hæstv. utanrrh. Utanríkismál eru mér ekki það kunn að ég hafi yfirleitt þekkingu á að rekja þau til neinnar hlítar eða dæma um ágæti skýrslunnar, sem mér virðist þó eftir umr. að hafi verið allgóð, því að ég man ekki til að orðið hafi á þingi fyrr í vetur jafnhóflegar umr. og hér hafa farið fram síðustu 10 tímana. En þegar hæstv. forseti Sþ., hv. 3, þm. Reykn., fullyrti, að innan Alþfl. heyrðust ekki lengur raddir gegn hersetu á Íslandi, fór mér að líða hálfilla, þó að stífluna tæki úr þegar hv. 4. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, fór að tíunda ágæti Alþfl.

Svo að ég komi fyrst að hv. þm. Gils Guðmundssyni, get ég ekki að því gert þó að hann heyri illa til sumra Alþfl.-manna. En hins vegar held ég að innan þingflokks Alþfl. núna, þess sem nú er hér, séu fleiri raddir en oft hafa verið andstæðar hersetunni á Suðurnesjum. Það er reyndar ekkert nýtt og svo mun verða áfram, að margir Alþfl.-menn séu andstæðir bandarískri hersetu hér. Það kom mjög greinilega fram og hefur alltaf komið fram í öllum samkundum Alþfl., að menn eru þar ekki á einu máli um þýðingu hersetu. En menn hafa kannske misjafnlega hátt, það er alveg rétt og þess vegna hefur hæstv. forseti vor ekki heyrt í okkur að við höfum ekki gengið á torg og hrópað þar og ekki heldur slitið skónum okkar í Keflavíkurgöngum nýlega vegna þessa máls.

Ég sagði, að stífluna tók úr þegar hv. 4. þm. Norðurl. v. kenndi því um að á dögum síðustu vinstri stjórnar hefðu Samtök frjálslyndra og vinstri manna hindrað að herinn færi áf Suðurnesjum, náttúrlega í fullkominni andstöðu við samstarfsflokka sína og sjálfsagt ekki leitað stuðnings annarra. En síðan sagði hann að núna stæði Alþfl. gegn því að nokkuð væri gert í þeim málum. Ég veit ekki til þess, að hv. þm. hafi nokkurn tíma látið reyna á þetta. Hins vegar hefði ég gaman af því að benda þessum ágæta þm. á að þegar umr. fóru fram á s. l. sumri um samstarf flokka til myndunar ríkisstj. voru, þegar fyrstu samningar voru milli Alþfl. og Alþb., komin veruleg drög að því að þrengja að hernámsliðinu, en þegar Framsfl. kom inn í samstarfið hurfu þau algerlega.

Ég vil ekki fullyrða neitt um hvaðan þessir ágætu þm. hafa þau rök að Alþfl.-menn séu alfarið með hersetunni hér. Alþfl. hefur aldrei staðið heill og einn gagnvart því máli. Bæði Alþfl. og Framsfl. hafa verið verulega klofnir í afstöðunni til hersetu á Íslandi alla tíð, jafnvel hefur borið á slíkum klofningi í Sjálfstfl., en um Alþb. vil ég ekkert fullyrða.

Frá mínu sjónarmiði og manna, sem eru líkt þenkjandi og ég, bæði innan Alþfl. og annars staðar, hefur herinn löngum þótt vera nokkurs konar óþrif í landi og þjóð, misjafnlega mikil. Hann er ekki með versta móti núna, en kannske er það vegna þess að einhverju leyti að menn séu farnir að venjast óværunni. Svo var a. m. k. í gamla daga. Menn þóttu því meiri sem óværan var meiri á þeim og þóttust þá vera karlmannlegastir. En þetta er kannske útúrdúr. Hitt er annað mál, að sú smán, sem við höfum orðið fyrir í sambandi við hersetuna, nær nokkuð langt. Hún er nefnilega fyrst og fremst í því fólgin, að við hér á landi teljum okkur þurfa á hernum að halda fyrir þjóðina. Þá meina ég að slysavarnir og atmannavarnir á Íslandi eru beinlínis háðar þeim her sem hér situr. Þetta kom fram í Vestmannaeyjagosinu. M. a. s. ég hef orðið að þola að flytja sjúkling á þyrlu varnarliðsins. Mér þótti að vísu gott að geta gripið til þess þá, því að ég var með dauðvona sjúkling. En ekki er gott til þess að hugsa, að þessa skuli þurfa, við séum svo lélega búnir að við verðum að treysta því, að þeir komi þarna til hjálpar okkur, og nennum ekki að standa í því að betrumbæta hag okkar.

Ég hef ekki talið að þýðing herliðsins á Íslandi væri mikil, a. m. k. ekki fyrir varnir Íslands. Hins vegar kann að vera að það sé óhjákvæmilegur hlekkur í vörnum Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna. Ég hef haft gaman af því, að í vetur hafa hörðustu fylgismenn hersetunnar einmitt komið að því atriði, að vitanlega væri herliðið hér ekki til að verja okkur, heldur væri það hlekkur í varnarkeðjunni og eiginlega njósnalið fyrir NATO, svo að þessi hlekkur njósnara dytti ekki niður.

Það var einnig nokkuð fróðlegt, að þegar síðasta þorskastríð geisaði og menn töldu það gæti verið ráðlegt að hóta Bandaríkjunum með því að reka herinn burt héðan upplýsti framkvæmdastjóri NATO í eitt skipti að það væri fjárhagslega mikil nauðsyn fyrir Atlantshafsbandalagið að hafa flugstöð hér fyrir herinn, því að ef Íslendingar ýttu hernum út á haf þyrfti bandalagið að fá fjögur flugvélamóðurskip til að gegna sama hlutverki. Mikilvægari erum við ekki hvað þetta snertir að áliti NATO.

En verst af öllu er að herinn leiðir af sér vissa siðferðilega spillingu í landinu hann drepur pínulítinn brodd af þjóðarstolti okkar og hann hefur fjárhagslega þýðingu fyrir hluta þjóðarinnar, fyrir ákveðin atvinnufyrirtæki og því miður jafnvel fyrir nokkra launþega á Suðurnesjum. Vona ég að því verði fljótt hægt að kippa í lag og við getum séð sem fyrst á bak þeirra dáta sem okkur var lofað fyrir nærfellt 30 árum að skyldu ekki vera hér á friðartímum.