07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram sérstaklega strax í upphafi máls míns og ítreka það mjög, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði áðan, að efni málsins er ekki hver blaðafulltrúi hafi verið ráðinn til ríkisstj. Aths. eru ekki gerðar vegna þess að Magnús Torfi Ólafsson hafi verið ráðinn blaðafulltrúi ríkisstj. Magnús Torfi Ólafsson er tvímælalaust hæfur maður, sem er í miklu áliti bæði innan og utan Alþ. og hefur vissulega bæði reynslu og þekkingu til þess að gegna því starfi, sem hann hefur verið ráðinn til, vel og skilmerkilega. Hann hefur verið alþm., hann hefur átt sæti í ríkisstj. og hann er formaður stjórnmálaflokks og hefur því vissulega bæði reynslu og þekkingu til þess að gegna þessu starfi.

Ástæðan fyrir því, að þessu máli er hreyft hér, og ástæðan fyrir því, að ég tók þetta mál upp á fundi fjvn. í morgun, er einfaldlega sú, að það á ekki að vera unnt að ráða fólk til þjónustu hjá ríkinu nema með tvennum hætti: annaðhvort með því að ráðningarnefnd hafi samþykkt ráðninguna eða með þeim hætti, að hv. Alþ. hafi við afgreiðslu fjárlaga samþykkt fjárveitingu í þessu skyni. Með öðrum hætti á ekki að vera hægt að ráða starfsmenn til ríkisins.

Í morgun spurðist ég fyrir um það hjá hagsýslustjóra, hvort ráðningarnefnd hefði samþykkt þessa ráðningu. Hagsýslustjóri svaraði nei. Það þarf ekki að taka það fram, hv. alþm., að í fjárl. yfirstandandi árs er ekki gert ráð fyrir því, að til þessa embættis sé stofnað, þar sem ekki hefur verið séð fyrir greiðslum til þess. Samkv. þeim venjum, sem tíðkast á hinu háa Alþingi, á þess vegna ekki að vera hægt að stofna til þessa embættis á árinu 1978. Hins vegar hefur till. verið gerð um það í fjárlagafrv. ársins 1979, að Alþ. heimili að til þessa starfs verði stofnað, til embættis blaðafulltrúa með a.m.k. tveimur starfsmönnum og auðvitað rekstrarkostnaði þar að auki. Fjvn, og Alþ. hafa enn ekki fjallað um þessa tillögu. Alþ. hefur enn enga afstöðu tekið til till., en það hafa verið umr. um það í fjvn., og komið m.a. fram frá stuðningsmönnum ríkisstj. þar, að full ástæða væri til þess að athuga þetta mál mjög náið.

Ég hef undanfarin tvö ár átt sæti í undirnefnd fjvn. Eitt meginverkefni þeirrar n. þessi tvö ár hefur verið að fjalla um starfsmannaskrá ríkisins og þá fyrst og fremst óheimilar mannaráðningar ríkisstofnana, þ.e.a.s. störf sem forstöðumenn ríkisstofnana hafa stofnað til í leyfisleysi án þess að þau störf hafi verið stofnuð samkv. heimild ráðningarnefndar né heimild Alþingis. Eitt af meginverkefnum undirnefndar fjvn. þessi tvö ár hefur verið að vinna gegn þessum starfsháttum og m.a.s. síðast nú í sumar að skipa mörgum forstöðumönnum ríkisstofnana að segja upp þessu ólöglega ráðna fólki. Þess vegna harma ég eindregið að hæstv. forsrh. skuli hafa tekið þá ákvörðun — húsbóndinn á heimilinu — að sniðganga þessar reglur um mannaráðningar í ríkisins þjónustu án þess að leggja það fyrir rétta aðila, án þess að hafa fengið samþykki ráðningarnefndar og án þess að hafa fengið samþykki fjárveitingavaldsins, en hæstv. ríkisstj. hefur leitað eftir því við Alþ. að það fallist á þessa niðurstöðu og Alþ. hefur enn ekki tekið afstöðu til málsins.

Við allmargir nm. fjvn. ræddum þetta á fundi fjvn. í morgun. Þá óskaði ég sérstaklega eftir því, að formaður fjvn., sem því miður er ekki staddur hérna, tæki þetta mál upp í sérstakri umr. við hæstv. fjmrh. Bókað var á fundi fjvn. í morgun, að það yrði gert. Það voru líka bókaðar aths. og mótmæli við þessari ráðstöfun frá fulltrúum þriggja flokka af fjórum í fjvn. Þetta vildi ég að fram kæmi.