08.05.1979
Sameinað þing: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4437 í B-deild Alþingistíðinda. (3511)

349. mál, símamál í Mosfellssveit

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Sjálfvirka símstöðin á Brúarlandi var opnuð 25. mars 1968 með 300 númerum og var svo stækkuð um 100 númer 1973 og 200 númer 1975. Þegar þar var komið var ljóst að gera þurfti sérstakar ráðstafanir í sambandi við húsnæðismálin, þar sem staðurinn, sem stöðinni hafði verið ætlaður samkv. skipulagi byggðarinnar, hafði breyst vegna þess að Vesturlandsvegur var færður nær símstöðinni en áður var gert ráð fyrir. Nokkur bið varð á að fá aðra lóð hentuga fyrir starfsemi stofnunarinnar í stað þeirrar gömlu. Enn fremur var fjárframlag til stækkunar Brúarlandssímstöðvarinnar tekið út af fjárfestingaráætlun vegna niðurskurðar á heildarframkvæmdum Pósts og síma árin 1976 og 1977.

Í fjárlögum fyrir árið 1979 eru fjárveitingar til þessa verkefnis undir liðnum sjálfvirkar símstöðvar d-liður Brúarland 462 millj., undir liðnum línukerfi fyrir símnotendur b-liður Brúarlandssvæði 24 millj. og undir liðnum fjölsímaleiðir e-liður Breiðholt — Brúarland PCM-kerfi 40 millj. Það er því til ráðstöfunar á þessu ári liðlega 1/2 milljarður og er þess að vænta að það fjármagn dugi til að koma málum í lag.

Þegar ákveðið var að Mosfellssveitin yrði á gjaldsvæði höfuðborgarsvæðisins varð að breyta um kerfi og kaupa nýja sjálfvirka símstöð sem annaði miklu meira en sú gamla og hefði fleiri línur beint til annarra stöðva á höfuðborgarsvæðinu. Uppsetning hinnar nýju sjálfvirku stöðvar í nýju húsi á Varmá hófst fyrir nokkru og er áætlað að því verki ljúki í mars-aprílmánuði á næsta ári ef engin óviðráðanleg atvik hindra framkvæmdir, að sögn póst- og símamálastjórnar.