08.05.1979
Sameinað þing: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4437 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

349. mál, símamál í Mosfellssveit

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að þetta mál hefur komið til umr. hér. Það er mjög alvarlegt ástand í Mosfellssveitinni vegna þess arna og hefur verið í mörg ár. Sveitin er í hraðri uppbyggingu og er sama atvinnusvæði og Reykjavík, þannig að u. þ. b. jafnmargir Mosfellingar vinna í Reykjavík og Reykvíkingar vinna uppi í Mosfellssveit. Þetta þýðir að samskipti eru miklu nánari við'Reykjavík en maður skyldi ætla og truflun á símasamgöngum ákaflega alvarlegt vandamál. Slökkvilið Reykjavíkur er slökkvilið Mosfellssveitar einnig, og enn fremur má segja að ýmis önnur þjónusta sé sameiginleg, en allt þetta þýðir meiri nauðsyn á öruggri og góðri þjónustu símans.

Á undanförnum árum hefur verið svo — og er enn — að alls ekki er öruggt að ná símasambandi við Reykjavík þó að maður reyni, sérstaklega ekki á vissum tímum dagsins, og enn fremur er fullyrt að þegar einhver hringir geti alveg eins verið að skrefin séu talin á eitthvert annað númer. Stöðin hefur því í raun og veru sprungið að því leyti til að hún getur ekki fullnægt hlutverki sínu. En sem betur fer er þetta mál á góðri leið og mér þykir vænt um að unnið er nú af fullum áhuga að því að leysa það. Ég hef trú á að þetta verði, eins og ráðh. tók fram, komið í lag fyrri hluta næsta árs.