07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vil taka undir þær raddir sem hér koma fram um að þessi ákvörðun, sem fréttist af í fjölmiðlum í gærkvöld, er vitaskuld afar ámælisverð. Í raun og veru er verið að sýna fjvn. og þinginu öllu mikla lítilsvirðingu þegar um er að ræða að ráða til starfa í nýja stöðu sem aðeins er gerð till. um í frv., en engin endanleg ákvörðun hefur verið tekin um af hálfu þingsins.

Það er rétt, sem fram kemur hjá hv. 4. þm. Vestf., að þetta mál var rætt í fjvn. í morgun og hann lét þar bóka mótmæli sín. Undir þessi mótmæli var tekið af velflestum nm. á þessum fundi.

Eitt er athyglisvert í sambandi við þetta mál, að þm. Alþfl. telja sig knúna til þess ýmist að standa upp utan dagskrár eða beina fsp. í fsp.-tíma Sþ. til hinna ýmsu ráðh. til þess að afla upplýsinga um meðferð einstakra mála. Það kemur sem sagt í ljós, að þessi flokkur, sem á aðild að ríkisstj., hefur nánast litla sem enga hugmynd um ákvarðanir, sem teknar eru á stjórnarheimilinu. Þessum flokki er ekki sýnd nein tillitssemi, að því er mér virðist, og þeir verða að standa hér upp dag eftir dag til þess að afla sér upplýsinga um einföldustu mál. Auðvitað er fróðlegt fyrir okkur stjórnarandstæðinga að fá vitneskju um þetta og reyndar fróðlegt fyrir alla þjóðina. Og nú er ekki annað að heyra og sjá en þeir séu farnir að skiptast á skoðunum og upplýsingum með bókunum í einstökum nefndum þingsins.

Að lokum vil ég segja það, að Magnús Torfi Ólafsson, sem nú á að taka við stöðu blaðafulltrúa ríkisstj., er góður og gegn maður en hann er formaður stjórnmálaflokks — stjórnmálaflokks sem ekki á neina aðild að þessari ríkisstj. Það fer e.t.v. vel á því, að þessi ríkisstj. taki sér mann úr öðrum flokki til þess að sjá um upplýsingamiðlun af hennar hálfu, og er eftir öðru miðað við það samkomulag sem ríkir á þessu heimili.