08.05.1979
Sameinað þing: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4447 í B-deild Alþingistíðinda. (3523)

102. mál, aukin nýting í fiskvinnslu

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér, ásamt hv. 2. þm. Austurl., Vilhjálmi Hjálmarssyni, að flytja í hv. Sþ. till. til þál., þskj. 113, um aukna nýtingu í fiskvinnslu. Þar segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj., í samráði við aðila veiða og vinnslu sjávarfangs, að hlutast til um að gerð verði hið fyrsta könnun á því, á hvern hátt megi sem best ná hámarksnýtingu þess sjávarafla sem á land kemur.“

Það er ekki ástæðulaust að menn virðast velta þessum málum meira fyrir sér nú en áður og þá á hvern hátt megi mæta þeim minnkandi afla sem stjórnvöld virðast nú stefna að. Vandi útgerðar og fiskvinnslu af þeim sökum er svo stór að leita verður allra ráða svo að hægt verði að halda rekstri gangandi. Því verður að leggja stóraukna áherslu á gæði og fullnýtingu þess hráefnis sem úr hafinu er dregið.

Á yfirstandandi þingi hafa orðið meiri umr. um málefni sjávarútvegsins en oft áður. Þar hefur margt komið fram sem til mikils hagræðis og hagnaðar má verða þessari undirstöðuatvinnugrein.

Með tilkomu minni skuttogaranna má segja að hafi orðið bylting í meðferð á fiski. M. a. var þá byrjað að ísa fisk í kassa um borð í veiðiskipum og flytja hann þannig til vinnslustöðvanna í landi. Hér var stigið skref í þá átt að bæta gæði hráefnisins, sem þegar hefur sýnt ótvíræðan árangur. Slíkur fiskur er nú t. d. verðlagður um 12% hærra en fiskur ísaður í stíur. Þrátt fyrir að fiskur hafi nú verið ísaður í kassa um borð í veiðiskipum í um 6 ár hefur engin raunhæf tilraun farið fram á því hér, hvort fiskur geymist betur í þeim kössum, sem nú eru mest notaðir, þ. e. a. s. í 90 lítra kössum, eða hvort hægt væri að koma með enn betra hráefni að landi með annarri gerð af kössum eða með hreinlega annarri geymsluaðferð. Tilraunir af þessu tagi mundu ekki kosta mikið fé, en gefa mjög mikilsverðar upplýsingar.

Fiskvinnslustöðvar hér á landi eru ákaflega misjafnlega vel búnar til þess að taka á móti hráefni til vinnslu, og mörg dæmi eru um að gæðahráefni komið í fiskmóttöku verði orðið að lélegu hráefni þegar að vinnslu þess kemur. Þær fiskvinnslustöðvar, sem best eru búnar tækjum, skera sig úr hvað varðar rekstrarafkomu. Sömu stöðvar hafa þess vegna meiri möguleika á að tileinka sér hinar ýmsu nýjungar sem nú eru að ryðja sér til rúms hér á landi, svo sem ýmiss konar rafmagns- og tölvubúnað sem stórum eykur afköst og bætir nýtingu. Það segir sig því sjálft að enn mun bilið breikka á milli þessara fyrirtækja.

Á undanförnum árum hefur nokkuð verið unnið að endurbótum í fiskiðnaði, en þó hvergi nærri sem skyldi. Ljóst er að mikið fjármagn verður hér að koma til og aukið skipulag veiða og vinnslu til að sá árangur náist í þessari atvinnugrein sem eðlilegur getur talist.

Um langa framtíð mun íslenska þjóðin byggja afkomu sína að meginhluta til á sjávarútvegi. Í dag mun sjávarútvegurinn skapa um 75% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og fyrir hver 10 þús. tonn sem þorskveiðar eru minnkaðar um lækka gjaldeyristekjur þjóðarinnar um 1%. Í riti, sem Framkvæmdastofnun ríkisins hefur gefið út um þróun atvinnulífsins, segir að þjóðhagsleg arðsemi fjárfestingar sé hæst í fiskvinnslu og vænta megi mikils þjóðhagslegs ábata af eflingu fiskvinnslu og frekari úrvinnslu hráefnis.

Það er nú öllum orðið ljóst, að hafið er ekki sá brunnur sem takmarkalaust verður sótt í. Hvernig það nýtist, sem úr hafinu er dregið, er ekki einkamál þeirra sem að veiðum og vinnslu starfa. Það er hagsmunamál þjóðarinnar allrar að þar sé vel og skynsamlega að staðið.

Mjög merkilegar tilraunir eru nú gerðar m. a. í Bandaríkjunum á framleiðslu mjög verðmætra lífefna sem hægt er að fá úr dýrum og fiskum þ. e. a. s. nýtingu á því sem í flestum tilfellum verður að úrgangi. Að þessu starfar m. a. Íslendingur að nafni Örn Aðalsteinsson og hefur getið sér hið besta orð við þær rannsóknir. Í viðtali við dr. Örn er hann spurður hvort einhver sambærileg nýtingarframleiðsla sé fyrir hendi hér á landi. Ekki á þessu sviði a. m. k., segir Örn. Þetta er mjög merkur áfangi í fullvinnslu hráefna okkar. Við gætum nýtt hráefni, sem hingað til hefur verið hent, og framleitt verðmætar afurðir úr hráefnum sem fara til óarðbærari framleiðslu. Þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið á fiskúrgangi, lofa mjög góðu og sýna að hér fara mjög mikil verðmæti beint í súginn.

Hér á landi hefur dr. Sigmundur Guðbjarnason prófessor unnið visst brautryðjendastarf á þessu sviði í efnafræðistofnun Raunvísindastofnunarinnar, þó við takmarkaðan skilning og lítið fjármagn. Skilningur á þessari starfsemi er þó sem betur fer vaxandi og hafa nú tveir áhugasamir og vel menntaðir menn bæst í hinn annars allt of litla hóp sem að þessum málum starfar, og ber vissulega að fagna því að svo sé.

Í skýrslu frá Þjóðhagsstofnun, sem út kom í október 1977, er fjallað um afkomu frystihúsanna og segir m. a.: „Niðurstaða þessarar athugunar leiddi í ljós geysimikinn mun á því er varðar nýtingu aflans. Þannig nam framleiðslan á frystum þorski á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra um 40% af mótteknum þorski til frystingar, í Reykjavík og á Reykjanesi um þriðjungi og á Vesturlandi röskum þriðjungi eða 36% sem jafnframt var meðaltal fyrir allt landið. Svipuðu máli gegnir um aðrar fisktegundir.“

Þáltill. þeirri er hér um ræðir, fylgir tafla er sýnir nýtingarhlutföll helstu fisktegunda í frystingu árið 1976. Tímaritið Sjávarfréttir fékk fyrirtækið Hagvang hf. og Rekstrartækni sf. til að gera úttekt á tapi fiskvinnslunnar vegna lélegrar hráefnisnýtingar miðað við skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Þar kemur fram, að sé gengið út frá þeirri forsendu að nýtingin væri alls staðar eins mikil og hún er í besta landshlutanum verður tap frystiiðnaðarins á tilvitnuðum 4 fisktegundum vegna lélegrar nýtingar hvorki meira né minna en um 5–6 milljarðar kr. á ári. Ætla má að tapið nemi um 10 700 lestum af fullunnum vörum, en það svarar til um 27 þús. lesta af hráefni, en það er sem næst meðalársafli 10 skuttogara af minni gerð.

Í skýrslu frá Raunvísindastofnun háskólans, sem út kom á s. l. ári, eftir þá Rögnvald Ólafsson og Þór Vigfússon, er fjallað um aukna sjálfvirkni í frystihúsum. Þar kemur fram, að munur á hámarks- og lágmarksnýtingu milli frystihúsanna sé um 10%. Í skýrslunni kemur fram, að hvert 1% í nýtingaraukningu skilar frystihúsi, sem vinnur afla eins skuttogara, þ. e. um 2000 tonn af þorski, um 11 millj. á ári. Hér er verið að tala um aðeins 1%, en munurinn á milli hámarks- og lágmarksnýtingar er, eins og ég sagði áðan, 10%, þannig að hér tapast margir milljónatugir vegna lélegrar nýtingar í allmörgum frystihúsum landsins. Þessar tölur mundu þó hækka verulega enn ef allar fisktegundir og vinnsluaðferðir væru taldar með.

Það, sem kæmi til með að verða skjótvirkast og skila árangri í bættri nýtingu og rekstri er sjálfsagt það sem snýr beint að flökuninni sjálfri, þ. e. tölvustýrðar flokkunar- og vigtunarsamstæður. Stofnkostnaður slíks búnaðar mundi verða álíka mikill og um þriggja mánaða olíueyðsla á skuttogara. Allir geta því séð að hér er ekki um óyfirstíganlegar upphæðir að ræða, enda mundi slíkur búnaður miklu meira en borga sig á einu ári í rekstri. Ég vil taka það mjög skýrt fram, að sú tækniþróun, sem hér þarf að koma til, er eðlilegast að leyst verði og unnin af Íslendingum sjálfum. Eru þeir reyndar þegar búnir að sanna getu sína á því sviði.

Ég vænti þess, að hv. alþm. sjái hversu hrikalegt þetta mál er og hve brýnt er að hefja raunhæfar aðgerðir, því að hér er mál sem sannarlega er þjóðhagslega hagstætt að leggja fjármagn í. Mikill hluti fiskvinnslu og útgerðar hefur átt í verulegum rekstrarerfiðleikum og nefndir verið settar á fót til að kanna og komast að á hvern hátt hið opinbera, þ. e. a. s. ríkið sjálft, geti komið til aðstoðar og þá fyrst og fremst til að leysa úr tímabundnum rekstrarfjárerfiðleikum. Við teljum því að hér sé komið að kjarna málsins og þá um leið að einni meginorsök þess fjárhagsvanda sem sífellt hrjáir þessa atvinnugrein. Með flutningi þáltill. höfum við flm. reynt að sýna fram á að stórkostlegum árangri megi ná í hraðfrystiiðnaðinum með bættri nýtingu hráefnis og aukinni hagræðingu í vinnslu.

Herra forseti. Mig langar að leggja til að þessari þáltill. verði vísað til atvmn. til umfjöllunar.