08.05.1979
Sameinað þing: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4453 í B-deild Alþingistíðinda. (3527)

254. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er á dagskrá, stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins, er á þskj. 518. Till. kom fram 6. apríl s. l. og kemur nú til fyrri umr. Í því sambandi vil ég minna á að ég, ásamt níu öðrum þm. Sjálfstfl., hef flutt till. með sömu yfirskrift og um sama efni. Hún kom fram á Alþ. 22. febr. Umr. um till. okkar sjálfstæðismanna er ekki lokíð og ég hlýt að finna að því við hæstv. forseta að gengið sé fram hjá þeirri till., sem kemur fram miklu fyrr og er um sambærilegt efni, eins og hér er gert. Ég skal ekki hafa um það mörg orð, en mér þykir mjög óeðlilegt að þannig sé hagað fundarstörfum að ekki sé lokið þeirri umr. sem þó var hafin um það mál sem kemur fram um 11/2 mánuði fyrr en það mál sem nú er tekið á dagskrá. Umr. um fyrra málið var þó hafin. Ég mun ekki fara fram á við hæstv. forseta að umr. um þetta dagskrármál verði frestað, en ég hlýt að ætlast til að umr. um þá till. til þál., sem er á þskj. 377 og flutt var á Alþ. 22. febr. um stefnumörkun í landbúnaði, verði lokið og það hið fyrsta.

Ég vil víkja örfáum orðum að þeirri till., hæstv. landbrh. sem hér er tekin til umr. og hann hefur mælt fyrir. Ég kemst ekki hjá að gera mjög grófan samanburð á þeirri till., sem flutt er hér af hæstv. ráðh., og þeirri till. sem er flutt af okkur sjálfstæðismönnum.

Í till. okkar sjálfstæðismanna er tekið mjög svo skýrt til orða um efnisatriði till. Þar eru sett upp sjö grundvallarmarkmið og síðan er í stafliðum gerð á ljósan og skýran hátt grein fyrir þeim leiðum sem ætlast er til að farnar verði til að ná aðalmarkmiðunum. Þar er ekki gert ráð fyrir miklu skipulagi, neinu ofskipulagi, þar eru ekki settar upp margháttaðar áætlanir, heldur er kveðið skýrt og beint að um þau mál sem tekin eru fyrir. Það er mín skoðun, að í þeirri till. sé þann veg tekið á málum að unnt sé að ná þeim tökum á framleiðsluvandanum sem talið verður æskilegt fyrir þjóðarheildina. Til þess er gert ráð fyrir að taka upp ný verðtryggingarákvæði sem eiga að hafa það markmið að gera í raun virka þá stefnu sem við teljum að þjóðfélaginu sé hagstæðust hvað snertir framleiðslumagn á búvöru.

Ef litið er á þessi efni í till. hæstv. landbrh., sem ekki er flutt sem till. frá ríkisstj., heldur af hæstv. ráðh. einum, verður ljóst að tillgr. sjálf er næsta óljóst orðuð, nærri að segja loðin og teygjanleg. Tillgr. sjálf hefur inni að halda ákvæði sem stefna að mikilli skipulagningu á framleiðslu, og hún gerir ráð fyrir að settar verði upp margar áætlanir. Þannig er talað um „skiputag búvöruframleiðslunnar“, þar er talað um að setja upp „5 ára áætlun um þróun framleiðslunnar“, það er talað um að gera „neysluáætlun fyrir þjóðina“, það er gert ráð fyrir að gera „búrekstrar- og framkvæmdaáætlanir fyrir landbúnaðarframleiðsluna“, og það hefur verið talað um af hálfu ráðh. að gera sérstaka áætlun fyrir hvert býli á landinu. Enn fleiri ákvæði eru í till. hans sem lúta að slíku áætlanafargani og slíkri skipulagningu sem er alltaf vafasamt að hve miklu leyti nær tilgangi sínum. Á hinn bóginn er ekkert að finna í till. um hvernig allar þessar áætlanir og öll þessi skipulagning eigi að verða virk. Það er þó aðeins vikið að slíku og hæstv. ráðh. kom aðeins inn á í ræðu sinni drög að einni slíkri áætlun, en hún er sett upp á bls. 110 í grg. með till. Þar er greint frá till. um að draga saman verðábyrgð á landbúnaðarvörum. Þó er ekki að sjá að á nokkurn hátt fylgi þau ákvæði öllum áætlununum eftir og geri þær virkar.

Hæstv. ráðh. talaði þó í ræðu sinni áðan utan að því, að til greina kæmi að taka upp þau verðbótaákvæði sem við sjálfstæðismenn höfum gert að verulega þýðingarmiklu atriði í till. okkar. Ég verð að segja að mér líkaði stórum betur að hæstv. ráðh. skyldi láta skína í að hann teldi ástæðu til að taka undir stefnu okkar hvað þetta snertir, en að þessu er ekki sýnilega vikið nokkurs staðar í till. sjálfri, og má vel vera að hæstv. ráðh. átti sig á að í ýmsum fleiri greinum væri æskilegra að taka upp þá stefnu sem í till. okkar sjálfstæðismanna felst.

Ef settir eru til þess allra handa sérfræðingar og kannske ágætir menn að setja upp áætlanir fyrir eina atvinnugrein í mörgum atriðum og vinna að því við skrifborðið sitt í nokkrar vikur, en ekkert er gefið til kynna um hvernig eigi að gera slíkar áætlanir virkar, er hætt við að sú vinna fari fyrir næsta lítið og verði pappírsgagn eitt. Það er ekki hægt að líta öðruvísi á í sambandi við till. frá hæstv. ráðh. en allt það áætlanafargan, sem hún hefur inni að halda, verði með þeim hætti, það verði til að skapa allmikla vinnu og verði að leggja í það allmikinn kostnað, en síðan verði það að litlu eða engu gagni, því að engin ákvæði eru um hvernig eigi að fylgja áætlununum eftir.

Að réttu lagi má segja um till. hæstv. ráðh. þegar öllu er á botninn hvolft, að hún sé það óljóst orðuð og byggi á að unnið verði að það mörgum áætlunum að hún sé í raun og veru till. til þál. um að marka þurfi stefnu í landbúnaði. Öfugt við þetta er till. okkar sjálfstæðisþm. till. um stefnumörkun og ber yfirskrift sína með réttu.

Ég skal ekki ræða tillgr. mikið efnislega umfram það sem hér er gert. Auðvitað er margt í tillgr. sem ég er sammála og fer að sumu leyti saman við það sem fram kemur í till. okkar sjálfstæðismanna, en annmarkar á tillgr. sjálfri eru að mínum dómi miklir, eins og hefur þegar komið fram.

Í ræðum hæstv. ráðh., bæði nú og oft áður, hafa komið fram yfirlýsingar um að hverju þurfi að stefna í landbúnaðinum á næstu árum. Þessi till. er talin eiga að þjóna þeim yfirlýsingum, ef marka má orð hæstv. ráðh. áðan. Yfirlýsingar hans hafa verið m. a. á þá lund, að tryggja þurfi bændum tekjur á við aðra þjóðfélagsþegna, halda þurfi byggðinni við og skera þurfi niður framleiðsluna. Ef þessar yfirlýsingar eru teknar alvarlega standast þær ekki nema því aðeins að verð á búvöruframleiðslunni stórhækki. Ef bændur eiga að hafa óskertar tekjur, ef byggðin á að haldast, ef bændum á ekki að fækka, en framleiðslan stórdragast saman, stenst það ekki nema því aðeins að verð á hverri einingu í búvöruframleiðslunni stórhækki. Vel má vera að þetta sé það sem hæstv. ráðh. stefni að og ætli sér að vinna að.

Ég vil taka það fram að á þessu stigi er ég gersamlega andvígur því, sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðh., að vinna þegar að því að stórdraga saman sauðfjárframleiðsluna, en hann hefur nefnt að þá framleiðslugrein þurfi að draga saman allt að 20%. Ég tel að það séu engar forsendur fyrir hendi og engin gögn fyrir hendi í þjóðfélaginu, eins og nú standa sakir, sem sanni að sú framleiðsla sé þjóðinni óhagstæð. Ég hef lagt á það ríka áherslu, og á það er lögð þung áhersla í till. okkar sjálfstæðismanna, að gerð verði úttekt á landbúnaðarframleiðslunni, sem skiptist niður eftir greinum, til þess að fá úr því skorið og þá metið á þjóðhagslegum grunni hver er hagkvæmni þeirrar framleiðslu sem við búum við í landinu. Ég hef trú á að sannast muni að sauðfjárframleiðslan sé þjóðinni hagstæð þegar á allt er litið. Ég tel fásinnu að áður en slík úttekt er gerð séu æðstu ráðamenn landbúnaðarmála í síbylju að tala um að höggva þá framleiðslugrein niður.

Það virðist líta nokkuð ljósar út hvað mjólkurframleiðsluna snertir, að þar þurfi að draga saman. Þó má fara varlega vegna þess að árferðissveiflur kunna að verða svo miklar að orðið gæti verulegt tjón ef unnið væri að samdrætti í mjólkurframleiðslunni of skyndilega. Mjólkurframleiðslan er talin munu verða á þessu framleiðsluári 120–125 millj. lítra, en innanlandsneyslan er í kringum 100 millj. lítra að talið er. Það er ljóst að eðlilegt er að draga þar nokkuð saman. Ég vil þó benda á í sambandi við mjólkurframleiðsluna, að verið er að vinna að uppbyggingu mjólkurbúa a. m. k. á þremur stöðum sem kosta gífurlega fjármuni: á Akureyri, Hvammstanga og í Borgarnesi. Í öllum þessum vinnslustöðvum á að framleiða osta til útflutnings. Ef það gerist í sama mund og byggingu þeirra mannvirkja lýkur að mjólkurframleiðslan verði skorin niður svo að hún verði aðeins við hæfi innanlandsmarkaðarins, þá hefur miklum fjármunum verið kastað á glæ. Ég tel að líta þurfi til þessa í sambandi við mjólkurframleiðsluna og meta á hvern hátt við nýtum best það fjármagn, sem í þessum mannvirkjum liggur, og hvaða áhrif það hefði í sambandi við þann fjármagnskostnað ef mjólkurframleiðslan væri dregin of mikið saman. Hins vegar tek ég undir það, að allt bendir til að eðlilegt sé að um nokkurn samdrátt verði að ræða í mjólkurframleiðslunni.

Hæstv. ráðh. sagði að það mætti víða ná sauðfjárræktinni niður og — að mér skildist — þá hygðist hann byrja á því að skera niður sauðfjáreign þéttbýlisbúa og annarra, sem eru ekki alfarið bændur, og auk þess gefa fyrirmæli — annað varð ekki skilið — um fækkun sauðfjár á þeim svæðum, þar sem hann taldi um ofbeit að ræða. Þetta vil ég ekki taka undir eins og sakir standa og þarf ekki að skýra það frekar.

Með till. fylgir mjög ítarleg og löng grg., yfir 100 bls. Þar er miklu efni safnað saman. Hér er sumpart mikill fróðleikur í sögulegu yfirliti um þróun landbúnaðarlöggjafar og landbúnaðarframleiðslu og ýmsa aðra þætti sem landbúnað snerta. Ég geri ráð fyrir að ýmsir þættir í grg. hafi verið unnir af þeim stofnunum sem starfa að landbúnaðarmálum í þjóðfélaginu og er þar margt til ávinnings að fá tekið saman á einum stað um þessi efni. Hins vegar sýnist mér aðrir kaflar í grg. muni vera frá hæstv. ráðh. sjálfum komnir og hafi ekki verið unnir af neinum stofnunum á vegum landbúnaðarins. Er þar rætt málefni sem eiga að vera einhverjar frekari útskýringar á hvernig hann hyggist ná þeim mikla samdrætti í búvöruframleiðslunni sem hann virðist stefna að. Í þessu efni má t. d. minna á það sem sagt er um samdráttinn og fækkun gripa og hvernig ná eigi fram fækkun gripa, minni afurðum eftir grip o. s. frv., o. s. frv., sem allt miðar að því að draga úr framleiðslunni og sumpart hlyti að verða til þess að draga saman tekjur bænda sem eiga þá væntanlega að verða bornar uppi af miklu hærra verði á því framleiðslumagni sem fæst.

Á bls. 82 í grg. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fækkun gripa getur í megindráttum orðið á tvennan hátt. Í fyrsta lagi fækkun framleiðenda og í öðru lagi fækkun gripa á framleiðanda.“

Svo virðist sem um leið og hæstv. ráðh. ætli að leiða gripina til slátrunar eigi framleiðendurnir að fylgja með. Ef annað hvort er valið er það sennilega það sem fyrr er talið, þm e. framleiðendurnir, sem á að byrja á að fækka, að því er virðist ef á þetta er lítið allt í samhengi, með því að leiða þá beint til slátrunar.

Margt í þessum klausum er næsta spaugilegt, svo að ekki sé meira sagt. Tel ég að það hljóti að vera frá hæstv. ráðh. komið. Engir menn úr stofnunum landbúnaðarins hafa látið slíkan samsetning frá sér fara. Á bls. 83 segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áhrifaríkasta leiðin til að draga úr afurðum eftir grip er að takmarka magn og gæði fóðurs.“

Þarna hefur hæstv. ráðh. opinberað mikla speki. Hann hefur komist að raun um — og kannske hafa vorharðindin átt þátt í að opna augu hans fyrir því — að e. t. v. sé áhrifaríkasta leiðin til að draga saman afurðamagnið að gefa svo lítið og illt fóður að gripirnir drepist. Þetta er auðvitað mjög mikil speki og margt í þessari grg., þeim þáttum hennar sem virðast frá hæstv. ráðh. sjálfum komnir, er þessu marki brennt. (Gripið fram í. ) Ef hæstv. ráðh. ætlar að bera af sér þetta plagg (Dómsmrh.: Nei, ég ber fulla ábyrgð á því.) finnst mér eitthvað skrýtinn maðkur vera kominn í mysuna. (Gripið fram í.) Og ef allur þessi samsetningur á að vera kominn frá einhverjum öðrum en hæstv. ráðh. finnst mér að hann hefði átt að hafa fyrirvara í ræðu sinni áðan.

Ég mun ekki tíunda margt af slíkri visku sem hér hefur verið bent á og finnst víða í grg. þar sem rætt er um samdráttaraðferðir hæstv. ráðh. En það er auðvitað margt þessu marki brennt og er full ástæða til að fylgjast með því, hvernig hæstv. ráðh. ætlar að útfæra visku sína, hvort það á, eins og segir á bls. 82, að byrja á að leiða framleiðendur til slátrunar og þar á eftir gripina og ef það dugi ekki, þá að minnka afurðir eftir grip, eins og segir á bls. 83, með því að takmarka magn og gæði fóðurs. Vonandi verður það ekki svo, að vorkuldarnir nú komi hæstv. ráðh. svo til aðstoðar í þessu efni, að stór skaði verði að. En ég hlýt að segja, að ég harma að hæstv. landbrh. skuli taka svona til orða í grg. með till. sinni.

Hæstv. ráðh. bendir á ýmsar leiðir til úrbóta þegar hann telur sig hafa gengið nógu langt í því að slátra framleiðendum og svelta gripi til minni afurða, og er ekki ástæða til að tíunda það allt saman. Þar er um margar góðar ábendingar að ræða, svo sem aukna fiskrækt og aukna nýtingu hlunninda. Þar er allmikið rætt um loðdýrarækt og refarækt. Allt má þetta verða til aukningar atvinnustarfsemi í sveitum landsins og er það vel. Ég tel þó um t. a. m. minkarækt, þó að ég sé ekki sérfræðingur á því sviði, að alltaf verði hæpið að starfandi bændur fari út í að hafa minkarækt sem hliðarbúgrein. Minkarækt krefst mikillar nákvæmni, bæði í fóðrun og vinnu, og kostar auk þess mjög vönduð mannvirki. Þróun í sveitum landsins hefur orðið sú á undanförnum árum, að bændur hafa gjarnan viljað einhæfa sig sem mest eða þróa búskap sinn í þá átt að megi verða til að spara vinnuafl. Það tel ég eðlilegt og eiga þátt í að koma í veg fyrir of miklar hækkanir á búvöruverði. Ég vil aðeins benda á að minkarækt sem hliðarbúgrein mundi í mörgum tilvikum verða erfið vegna þess að hún krefst mikillar nákvæmni, enn meiri nákvæmni en mjólkurframleiðsla t. a. m., og þeir menn, sem fást við þá atvinnugrein, þurfa auðvitað að sérhæfa sig til að geta sinnt henni nægilega vel.

Enn er hér rætt um stóðbúskap. Segir m. a. á bls. 92, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðrar tekjuöflunarleiðir af hrossum, sem vert er að athuga, er aukin hagnýting húða, bæði af folöldum og fullorðnum hrossum, nýting á hrosshári til iðnaðar, framleiðsla á kaplamjólk til útflutnings sem barnamjólk og handa sjúklingum og loks hirðing á þvagi og blóði úr hrossum til lyfjaframleiðslu.“

Það mætti vel vera að ef annar bústofn bænda væri fallinn sakir takmarkana á magni og gæðum fóðurs hefðu bændur tíma til að elta merarnar sínar út um haga til að hirða vökvann sem þær leggja frá sér, en ekki á ég von á að slíkt verði veigamikill liður í landbúnaðinum í framtíðinni.

Ég skal, herra forseti, ekki lengja mál mitt um þessa till. Eins og ég hef þegar lýst, felur hún í sér ýmis góð markmið, en þau eru í mörgum tillitum það teygjanleg og afslepp að mér þykir til stórskaða, auk þess sem till. sjálf virðist byggð upp á oftrú á skipulagningu, oftrú á skrifborðsáætlanir, án þess að nokkur tilraun sé gerð til að skýra hvernig þær áætlanir verða gerðar virkar, og því verða þær pappírsgagn eitt.

Ég vil svo ítreka þau tilmæli mín til hæstv. forseta, að svo sé staðið að fundahaldi hér að sú till., sem ég flutti um sama efni 11/2 mánuði á undan þessu máli, verði ekki gerð hornreka fyrir þessu máli, þó svo að flutt sé af einum hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj. og sé því ekki ríkisstjórnarplagg.