08.05.1979
Efri deild: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4461 í B-deild Alþingistíðinda. (3537)

238. mál, námsgagnastofnun

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er gamall kunningi hér í þingi. Hins vegar er því ekki að neita, að því hefur mikið verið breytt frá því að það var lagt fyrir fyrst. Það hefur verið gert miklu einfaldara, einkum stjórnunarákvæðin. En hins vegar heldur frv. alveg megintilgangi sínum að gera mögulegt að samhæfa og skipuleggja betur en áður þá starfsemi sem frv. fjallar um, þ. e. a. s. Ríkisútgáfunnar, Skólavörubúðarinnar og Fræðslumyndasafnsins og svo Námsgagnastofnunar þegar hún kynni að verða sett á fót.

Við höfum orðið vör við það í n. að frv. nýtur ákveðins stuðnings — ég vil segja allra þeirra sem að þessum málum vinna, að því er ég best fæ séð. Og álit hagsýslunnar um kostnaðaráhrif frv. er á þá leið, að samþykkt frv. hafi ekki áhrif í þá átt að auka kostnað, heldur gerist slíkt eingöngu þá við fjárlagaafgreiðslu.

Nú vil ég ekki fjölyrða frekar um þetta. Menntmn. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt, en tveir hv. nm. skrifa þó undir nál. með fyrirvara.