08.05.1979
Efri deild: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4461 í B-deild Alþingistíðinda. (3538)

238. mál, námsgagnastofnun

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Við Ragnhildur Helgadóttir skrifuðum undir þetta nál. með fyrirvara og byggist það á því að okkur fannst ekki liggja alveg í augum uppi hve mikil útgjöld fyrir ríkissjóðinn væri hér um að ræða. Námsgagnastofnun hefur örugglega möguleika til mikilla umsvifa. Því er að sjálfsögðu ekki að leyna að með þeim breytingum á skólaháttum, sem nú eru uppi í landinu, er ósköp eðlilegt að ýmislegt þurfi að prenta og margt að gefa út. En það, sem okkur fannst fyrst og fremst áberandi í þessu frv., var að það gæti farið inn á starfssvið hinna venjulegu útgefenda og einkum væri sá möguleiki fyrir hendi, ef menn kærðu sig um, að tiltekið námsefni væri valið úr bókum, sem venjulega eru gefnar út af útgefendum, og það yrði notað til skólalærdóms. Á þennan hátt væri sá möguleiki fyrir hendi að mjög yrði gengið á rétt útgefenda. Treystum við okkur því ekki til að samþ. frv. og ákváðum að sitja hjá við afgreiðslu þess.