08.05.1979
Efri deild: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4462 í B-deild Alþingistíðinda. (3543)

283. mál, útvarpslög

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég skal vera mjög fáorður um þetta frv.

Ég minni fyrst á að ákveðin hefur verið bygging útvarpshúss, skóflustunga var tekin á sínum tíma og grafinn grunnur og munu nú vera fullgerðar teikningar af næsta áfanga. Í útvarpslögunum eru fyrirmæli um að leggja 5% af brúttótekjum Ríkisútvarpsins í framkvæmdasjóð. Það er skylt að gera það. Ég hygg að einkum hafi verið haft í huga, þegar það ákvæði var tekið upp í lögin, bygging og búnaður útvarpshúss. Ég ætla ekki að rekja sögu sjóðsins hér, menn þekkja hana.

Þegar ákveðið var að hefja verkið sumarið 1978 lagði ég til í ríkisstj. að næstu árin a. m. k. yrði framlag til húsbyggingarsjóðs tvöfaldað. Ákvörðun um það var frestað, en afnotagjöld voru hins vegar ákveðin með það í huga síðsumars 1978 að þetta væri hægt, og sú varð raunin á, sbr. uppgjör reikninga 1978 sem sýna nokkurn afgang eða sem þessu hefði numið.

Um þörf Ríkisútvarpsins fyrir nýtt og betra húsnæði ætla ég ekki að fjölyrða hér. Sú þörf hefur margsinnis verið kynnt, m. a. hér á Alþ. En ég vil minna á að ítrekað hefur verið sagt upp húsnæði því sem Ríkisútvarpið hefur núna til afnota á Skúlagötu 4, einfaldlega vegna þess að sjútvrn. telur að að stofnunum þeim, sem starfa í húsinu á vegum rn. og hafa starfað þar lengi og í raun og veru er ætlað þetta húsnæði, sé nú mjög þrengt og þær þurfi á að halda auknu húsnæði — nú þegar hluta af því sem útvarpið hefur og öllu síðar meir.

Með frv. þessu, ef að lögum yrði, tvöfaldaðist framlag til Framkvæmdasjóðs. Ég minni aftur á að afnotagjaldið á síðasta árshelmingi liðins árs leyfði þetta og þyrfti þess vegna ekki nema dýrtíðarhækkanir, eins og þau voru ákveðin þá, til þess að þetta væri mögulegt. Með þessu móti væri fjármögnun húsbyggingarinnar leyst á 12–15 árum að fjármagnskostnaði meðtöldum, því það yrði að taka lán á síðari hluta byggingartímabilsins sem svo aftur yrði greitt innan þessa árabils. Þetta er auðvitað miðað við þær áætlanir sem gerðar hafa verið, annars vegar um byggingarkostnað og hins vegar um þróun afnotagjaldanna eða öllu heldur þróun brúttótekna, því þetta framlag er reiknað af brúttótekjum.

Komið hefur fram í umr. hér á Alþ. og oftar en einu sinni, að þm. hafa fullan hug á að styðja við bakið á Ríkisútvarpinu fjárhagslega. Ég held að ekki fari milli mála að húsið verður að byggja, m. a. vegna þess að það er bókstaflega undirstaða eðlilegrar þróunar stofnunarinnar. Verkið verður auðvitað að fjármagna með einhverjum hætti. Að mínum dómi er bæði eðlilegt og aðgengilegt að fjármagna það á þann hátt sem frv. gerir ráð fyrir.

Þetta frv. er ákaflega einfalt að gerð, og helst vildi ég mega vona að hv. þm. yrðu mér sammála um framgang málsins í svipuðu formi, en fyrst og fremst vænti ég að málið sé svo einfalt að hv. þm. treysti sér til að taka efnislega afstöðu til þess.

Ég vil svo leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til menntmn.