08.05.1979
Efri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4480 í B-deild Alþingistíðinda. (3568)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja málið lengi.

Það er til gamalt máltæki sem hljóðar svo: „Það verður fleira að gera en gott þykir.“ Ég ætla að lýsa því yfir að ég er persónulega sammála minnihlutaáliti þm. Jóns G. Sólness og Eyjólfs K. Jónssonar, að mér finnst þetta frv. í raun og veru ekki tímabært. Þó vil ég taka fram, að í stefnuskrá okkar Alþfl.-manna var þetta einmitt eitt af því sem dregið var fram fyrir þær þingkosningar sem fóru fram í vor. En það var hugsað eins og punkturinn yfir i-ið, þ. e. a. s. þegar búið væri að koma efnahagsmálum okkar í betra horf en þá þótti horfa og enn þykir horfa, og ég verð að játa, að alveg eins og ég var tortrygginn á þetta stjórnarsamstarf í upphafi, þó ég vildi styðja það, sýnist mér það enn ekki hafa borið þann árangur sem ég hefði óskað eftir að það hefði borið í t. d. efnahagsmálunum. Þess vegna segi ég að maður verður stundum fleira að gera — og gerir af ásettu ráði — en gott þykir. Því ætla ég að greiða frv. atkv.

Sama má segja um brtt. þeirra þremenninganna sem hér hafa flutt mál sitt-eða einn af þeim hefur talað fyrir því. Í sjálfu sér finnst mér sem gömlum íslenskukennara að orðin mörk og eyrir séu öllu skemmtilegri en króna og eyrir. Þó er krónan búin að fá hefð í málinu. Ég sé ekki að þetta sé það höfuðatriði að við eigum að vera að tefja fyrir málinu með því að vera að rífast um slíkt hér í d. og skipta okkur vegna þess. Því mun ég ekki greiða því máli atkv.

M. ö. o. vil ég lýsa yfir, að þó að ég sé sammála Jóni G. Sólness um að illa horfi nú í efnahagsmálum vil ég ekki gera þetta mál að ásteytingarefni og mun fylgja því í von um að enn takist núverandi stjórnarsamvinnu að koma málum hér í betra horf en verið hefur og okkur takist þrátt fyrir illar horfur í dag að bæta samstarf okkar.