08.05.1979
Efri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4481 í B-deild Alþingistíðinda. (3572)

265. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit. Í því felast einkum tvær breytingar.

Annars vegar er það, að samkv. núgildandi lögum um tollheimtu og tolleftirlit er það skilyrði m. a. sett, þegar um endursendingu á vöru er að ræða af nánar tilgreindum ástæðum, að viðkomandi tollyfirvaldi sé sett full fjártrygging fyrir greiðslu aðflutningsgjalda þar til varan er sannanlega komin til útlanda. Þetta hefur valdið endursendendum nokkrum erfiðleikum og þess vegna er lagt til að víkja frá skilyrði um fjártryggingu og krefjast í þess stað fullnægjandi tryggingar í öðru formi.

Hins vegar er það, að við ákvörðun sekta er tollyfirvöldum heimilað að útkljá málið ef um er að ræða upphæð innan ákveðinna marka. Það er nú 150 þús. kr. og sektarupphæð 80 þús. Vegna breytingar á verðgildi krónunnar hefur þetta farið þannig, að þeim málum, sem verður að vísa til dómstóla vegna þess að upphæðir fara umfram þessi mörk, hefur farið mjög fjölgandi og valdið erfiðleikum hjá þeim sem þar hafa átt hlut að máli, bæði þeim, sem sektaðir hafa verið, og einnig dómstólum sem hafa þá þurft að fjalla um miklu fleiri mál. Þess vegna er lagt til í þessu frv. að upphæðirnar verði hækkaðar upp í 350 þús. og 500 þús.

Fjh.- og viðskn. varð sammála um að mæla með samþykkt frv. eins og það liggur hér fyrir.