07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil láta það koma hér fram, að þó að á því hafi verið imprað í ríkisstj. að æskilegt kynni að vera að ráða blaðafulltrúa, þá tel ég ekki að formleg samþykkt hafi verið um það gerð. Hitt er ljóst, að í till. um fjárlög lá fyrir till. um að ráðinn yrði blaðafulltrúi. Ég taldi sjálfsagt og ég tel að það sé skoðun ráðh. Alþfl., að um það yrði fjallað í þinginu, og við höfum ekki vænst þess, að til þessarar ráðningar kæmi fyrr en að fjárlagaafgreiðslu þingsins lokinni eða a.m.k. ekki á grundvelli undantekningarheimildar, heldur hefði málið sinn eðlilega gang. Þess vegna verð ég að segja það, að þessi ákvörðun forsrh. kemur mér og öðrum ráðh. Alþfl. jafnmikið á óvart og öðrum þm, og mér skilst ráðh. Alþb. — Þetta vil ég að komi skýrt fram.