08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4490 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

92. mál, almannatryggingar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Sex þm. í heilbr.- og trn. fluttu frv. þetta um breyt. á l. um almannatryggingar snemma á þessu þingi, en ég var eini nm. sem vildi ekki flytja frv. Ástæðan var ekki sú, að ég væri alfarið á móti að greiða ferðastyrki til psoriasissjúklinga sem nauðsynlega þurfa að mati sérfræðinga að njóta hlýrra loftslags, heldur hitt, að ég tel að flutningur frv. í þessa átt verði að skoðast í heildarljósi þess hverju á að breyta í tryggingalöggjöfinni, en taka ekki út tiltölulega fámennan hóp og setja á þann veg hjá sjúklinga sem þurfa jafnvel ekkert síður að leita lækninga með loftslagsmeðferð. Þá get ég nefnt einn mjög fjölmennan sjúklingahóp, gigtarsjúklinga sem vafalaust þyrftu á að halda loftslagsmeðferð. Mun vafalaust ekki standa á sérfræðingum í þeim efnum að staðfesta það. Auk þess er um ýmsa fleiri að ræða.

Lítum á þessi mál í heild. Í löggjöf okkar um almannatryggingar eru þau ákvæði um kostnað sjúklinga, sem þurfa að leita læknishjálpar erlendis og eru taldir ekki fá þá læknishjálp hér heima, að leggja verður fyrir sérstaka nefnd á vegum Tryggingastofnunar ríkisins hvort ferð er leyfð, en ef hún er farið í mikilli skyndingu verður að taka ákvörðun um það síðar, hvort tryggingarnar greiða kostnað af henni eftir settum reglum og lögum. Hér er um sjúklinga með ákveðna sjúkdóma að ræða, sérstaklega þó hjartasjúklinga sem þurfa að fara til uppskurðar erlendis, og þá fer eftir settum reglum. Þegar tekinn er til hópur sjúklinga með einhvern ákveðinn sjúkdóm hlýtur annar hópur að koma á eftir, það er útilokað annað, enda væri annað ekki sanngjarnt.

Ég er mjög opinn fyrir því að hlutverk sjúkratrygginganna verði stærra í anda frv. Frv. hefur verið breytt af flm. Ég tel að sú breyting sé til bóta frá upprunalegu frv. að bæta við h-lið í 39. gr. almannatryggingalaganna að greiða kostnað samkv. nánari ákvörðun tryggingaráðs vegna psoriasissjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga erlendis sem komi í stað sjúkrahúsvistar. Tryggingaráði er svo ætlað að setja nánari reglur um greiðslufyrirkomulag og skipulag slíkra ferða, auk hámarksfjölda psoriasissjúklinga sem árlega geti notið slíkrar fyrirgreiðslu. Ég er á því, að ekki sé hægt að taka upp að fara að styrkja hvern einasta mann með þennan sjúkdóm til ferðar til sólarlanda. Hlutverk sjúkratrygginganna er að greiða fyrir sjúklingum til læknismeðferðar, og því er sú stefna rétt, sem Tryggingastofnunin hefur verið að kanna, og er hún að mínum dómi miklu réttari og eðlilegri, eins og frsm. málsins gat um.

Ég vil einnig benda á að lögin um almannatryggingar eru í stöðugri endurskoðun. Þau voru í endurskoðun í þrjú ár. Voru gerðar veigamiklar breytingar í réttlætisátt á síðasta þingi, eins og að taka upp það nýmæli að greiða ferðakostnað innanlands, sem ekki var áður, þegar sjúklingar þurfa að leita sérfræðinga. Kom ekki neitt fram í sambandi við þá endurskoðun um þetta, og áttu þó allir stjórnmálaflokkar fulltrúa í þeirri nefnd. Nú er komin ný nefnd til að endurskoða lögin um almannatryggingar. Ég hef talið það hlutverk slíkrar endurskoðunarnefndar, þar sem allir flokkar og heilbrigðisstjórn eiga fulltrúa, að meta og vega hvað lagt skuli til við ríkisstj. og Alþ. um breytingar á þessari heildarlöggjöf. Ég tel að mörgu leyti óeðlilegt að farið sé að flytja mörg frv. um breytingar á almannatryggingalögunum. Það eru að koma frv. fram síðustu daga frá einstökum þm. Þá spyrjum við: Er þá nokkur ástæða til að hafa endurskoðunarnefnd starfandi? Er ekki best að þm. flytji í formi óska sinna og góðs hjartalags hver um sig breytingar á almannatryggingalöggjöfinni og bíði ekki eftir samræmdum till. eða tilraunum til að fá samræmdar till. um þær breytingar sem Alþ. telur að eigi að gera á tryggingalöggjöfinni? Þetta er mitt sjónarmið. Ég er ekki alfarið á móti því að koma til móts við einstakan hóp sjúklinga. En ég er sannfærður um að það koma fleiri á eftir og þeir spyrja: Hvers eigum við að gjalda? Hvers eiga gigtarsjúklingar að gjalda, sem eru langmannflesti sjúklingahópurinn í þessu landi?